Bandarísk/íslenski tónlistarmaðurinn John Grant gaf þann 10. júlí síðastliðinn út fyrsta lagið af væntanlegri plötu sinni Love is Magic.
Lagið er titillag plötunnar, en platan sjálf kemur út 12. október næstkomandi. Þann 10. júlí kom einnig út svokallað texta (lyric) myndband, en í dag gaf Grant út nýtt myndband við lagið.
Grant birtist ekki sjálfur í myndbandinu, en í staðinn má sjá fjölda hunda sýna kúnstir sínar ásamt eigendum þeirra, meðan söngur Grant hljómar yfir með hið sígilda yrkisefni, ástina.
„Myndband Fanny (leikstjóri myndbandsins) er gullfallegt myndband um skilyrðislausa ást,“ segir Grant við Billboard. „En samt þarf að leggja vinnu í ástina, sérstaklega af hálfu hundanna.“
Grant mun halda tónleika í Hörpu 26. október næstkomandi, en þrjú ár eru frá því að hann var síðast með tónleika á Íslandi. Aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða.