fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Atli Örvarsson tekur nýjum kafla fagnandi: Ætlar að leggja sólóferilinn fyrir sig

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 22. júlí 2018 12:00

Atli Örvarsson, tónskáld.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaflaskil framundan hjá tónskáldinu Atla Örvarssyni

„Kvikmyndatónskáld er hvort tveggja tónskáld og að hluta til kvikmyndagerðarmaður. Það er auðvitað ástæða fyrir því að flestar kvikmyndir eru með tónlist, enda er þetta nokkurn veginn eins og þriðja víddin á verkinu sem þú skynjar á tilfinningasviðinu en tekur kannski ekki eftir.“

Svo mælir tónlistarmaðurinn og Akureyringurinn Atli Örvarsson, en hann hefur í áraraðir sameinað tvö af stærri áhugasviðum sínum og átt farsælan feril sem eitt afkastamesta kvikmyndatónskáld Íslands.

Atli lék með mörg­um hljóm­sveit­um á sín­um tíma, fyrst í Stuðkomp­aní­inu með bróður sín­um Karli, síðan lá leiðin í Tod­mobile í stutt­an tíma, þá Sál­ina hans Jóns míns og loks SS­Sól. Atli var byrjaður í námi þegar hann lék með SS­Sól en hann nam tón­smíðar í Berk­lee Col­l­e­ge of Music í Bost­on í Banda­ríkj­un­um og kynntist þar nýjum geira innan tónlistarinnar sem hann heillaðist af. Segir Atli að þessi kúrs í skólanum hafi komið út frá hálfgerðri köllun í tengslum við þá kúnst að tengja saman músík og mynd.

Sagði skilið við lífið í Los Angeles

Atli hefur farið um víðan völl og samið tónlist fyrir kvikmyndir á borð við meðal annars Vantage Point og Hansel, Gretel: Witch Hunters, The Hitman‘s Bodyguard sem og hinar íslensku kvikmyndir Hrútar og Fyrir framan annað fólk. Einnig hefur hann unnið að tónlist fyrir fjöldamarga þætti; svo sem Law & Order og Chicago Fire.

Eftir margra ára búsetu í Los Angeles ákvað Atli að láta gott heita og flytja aftur með fjölskyldu sinni á heimaslóðirnar á Akureyri, sem hann segir að gæti vart verið meiri andstæða við lífið í stórborginni vestanhafs. „Það hafa allir staðir sína kosti og galla og kostirnir hér á Akureyri skáka öllu,“ segir Atli.

Anna Örvarsson, eiginkona Atla, hefur áður opnað sig um ástæðu þess að fjölskyldan ákvað að segja skilið við borg englanna. Í viðtali við Akureyri Vikublað rifjaði hún upp röð erfiðra atvika sem breyttu öllu. Hið fyrsta var árið 2002 þegar skólabróðir föður hennar réðst vopnaður inn í Virginia Tech-skólann og hóf skothríð á allt og alla.

Fimm árum síðar réðst nemandi inn í háskóla og myrti 32 manneskjur í skólanum áður en hann svipti sig lífi. Bróðir Önnu var nýútskrifaður úr skólanum en árásin var framin í deildinni sem hann stundaði nám í. Þriðja árásin varð árið 2011 en þá skaut bróðir fyrrverandi barnapíu þeirra hjóna kærustu sína áður en hann framdi sjálfsvíg. Í júní 2013 þótti nóg komið en þá ók Anna inn í miðja skotárás og segir í viðtalinu að hún hafði aldrei séð jafnmargar hræddar löggur.

„Við viljum ala börnin upp á stað þar sem fólk reynir að gera hið rétta, er heiðarlegt og gott. Við viljum ekki að börnunum líði eins og gestum þegar þau koma hingað. Við viljum að Ísland sé „heima“ fyrir þau, staðurinn sem þau geta alltaf komið aftur til, staðurinn þar sem þau geta verið frjáls,“ segir hún í viðtalinu. Þar tekur hún einnig fram að önnur ástæða þess að fjölskyldan ákvað að flytja til Íslands hafi verið sú að börnin gætu þá verið nær fjölskyldunni. Seldu þau 420 fermetra villuna í Mar Vista-hverfinu í vesturhluta Los Angeles á rúmar 400 milljónir íslenskra króna og héldu heim á leið.

Þrátt fyrir að Atli og fjölskyldan hafi flutt til Íslands hefur hann ekki sagt skilið við upptökuver sitt í Los Angeles. Þar hefur hann aðstöðu hjá fyrirtækinu Remote Control Productions en það er í eigu hins margverðlaunaða Hans Zimmer sem Atli hefur lengi unnið með. „Það er í rauninni hægt að semja tónlist hvar sem er. Með tilkomu netsins hefur allt orðið auðveldara í gegnum árin. Ef þú ert með nógu góða nettengingu, þá getur þú verið hvar sem er á hnettinum,“ segir Atli.

Atli í essinu sínu. Mynd: Max Milligan

Kómedían erfiðust

Að sögn tónlistarmannsins fer því fjarri að starfið sé hefðbundið „níu-til-fimm starf“ og það á sérstaklega við um þær aðstæður sem hann starfar við í dag. „Ég er á heldur skrítnum stað, því samstarfsfólk mitt vinnur í Los Angeles og tímamismunurinn er mikill. Ég vinn því á Íslandi en á Los Angeles-tíma. Þar af leiðandi er iðulega unnið fram á nótt, kannski meira en ég vildi í raun, en ég er virkastur á morgnana, nánast um miðja nótt eða um fimm eða sex leytið,“ segir Atli.

Aðspurður hvort vinnuferlið við tónlist að kvikmynd frá grunni feli í sér spennu eða óhug segir Atli að í raun sé ferlið blanda af hvoru tveggja. „Þetta er eins og með öll löng ferðalög. Maður leggur einfaldlega af stað, reynir að finna leiðina. Þetta snýst afar mikið um að kynnast myndinni og koma sér inn í þann hugarheim sem fylgir henni. Maður lærir smám saman að semja ákveðna tónlist fyrir ákveðnar myndir. Þetta er eins og ókunnug manneskja sem þú þarft að kynnast.“

Atli segir það vera lykilatriði að prófa sig áfram í alls konar stílum en viðurkennir að kómedían geti verið erfiðasti geirinn til þess að semja fyrir. „Í kómedíunni er svo fín lína sem þarf að þræða og eru möguleikarnir miklu færri en hjá viðfangsefni sem er dekkra,“ segir Atli. „Í hryllingsmyndum er til dæmis svo mikið hráefni til á meðan gamanmyndir búa yfirleitt yfir bjartari litbrigðum og þá eru færri möguleikar.“

Hvorki Superman né Star Wars

Nýlega samdi Atli tónlistina fyrir vísindaskáldsöguna How It Ends, sem Netflix framleiddi og frumsýndi fyrr í mánuðinum. Auk hennar lauk nýlega vinnslu hryllingsmyndarinnar Jacob‘s Ladder, sem er endurgerð samnefndrar kvikmyndar frá 1990 og Atli samdi tónlistina fyrir. Segir hann að sú mynd hafi verið sérstaklega mikil áskorun en jafnframt verkefni sem hann klóraði sér mikið í höfðinu yfir hvernig ætti að nálgast.

„Það má segja að ég hafi prófað að fara eina leið en hætt svo við. Ég fór svolítið nútíma elektróníska, „ryþmíska“ leið í byrjun en svo fundum við að það var ekki að virka. Við ákváðum síðan að feta klassískari leið,“ segir Atli og bætir við að hann hafi passað að slíta allar tengingar við frummyndina.

„Ég ákvað að tækla þetta sem nýja mynd. Þetta er líka allt önnur mynd og þetta er ekki svipað fyrirbæri eins og að endurgera Star Wars- eða Superman-stefið, eitthvað sem er íkonískt og nánast bannað að snerta. Ég ákvað samt að reyna að halda huganum algjörlega hreinum. En það merkilega við „ryþmann“ á þessari mynd er að þegar við settum einhvern svona stöðugan takt í tónlistina, þá passaði hann ekki. Það hægði meira á myndinni þegar við reyndum nútímalegri leiðir í upphafi. Þetta er mynd sem snýst svolítið um andlega vanlíðan og kaos. Þegar maður fór að búa til reglu og með reglulegri tónlist, þá hætti hún alveg að virka.“

Vesen á ævintýramynd með Nicolas Cage

Atli segist oft koma að verkefnum frá handritsstigi en segir staðreyndina vera þá að oftast sé búið að setja tónlist undir kvikmyndir þegar tónskáldið kemur að þeim. Þetta er þekkt sem svonefnd „temp“-tónlist eða tímabundið stef sem er notað til þess að gefa klippara og öðrum aðstandendum ákveðna tilfinningu fyrir heildarverkinu og tilfinningum þess. Atli segir „temp“-tónlist oft einfalda málið en hún geti líka flækt hlutina gríðarlega.

„Stundum verður til eitthvað sem heitir „temp love“. Þá eru kannski framleiðendur eða leikstjórinn vanir myndinni með tímabundnu tónlistinni og vilja þá eitthvað í líkingu við hana frekar en eitthvað gerólíkt,“ segir Atli. Að hans sögn fylgir oft vandræðaverkefni í kjölfar draumaverkefnis.

Sem dæmi nefnir Atli kvikmyndina Season of the Witch, með Nicolas Cage í aðalhlutverki, og segist hann hafa þurft að semja tónlistina fyrir þá mynd allt að þrisvar sinnum. „Myndin var alltaf að breytast í klippingunni og voru eiginlega þrjú lokaklipp,“ segir hann.

„Þetta er í heildina séð mjög flókið ferli en mín reynsla er sú að þegar þú vinnur lengi með sama fólkinu, því meira traust byggir þú upp. Innsæi manns er betur treyst.“

Úr kvikmyndinni Season of the Witch sem skartaði Nicholas Cage í aðalhlutverki. Atli segir að myndin hafi verið „vandræðaverkefni“.

Undir pólskum áhrifum

Spurður hvort einhver kvikmynd standi nær hjarta hans en önnur er Atli ekki lengi að svara. „Þetta er ekkert ólíkt því að velja á milli barnanna, þó svo að maður eignist tvö til þrjú börn á hverju ári í svona fagi,“ segir hann kíminn, „en að því sögðu þá stendur kvikmyndin Hrútar mér mjög nærri. Myndin er líka tekin upp á bæ þar sem móðir mín fæddist, þannig að hún er mér hugleikin á mörgum persónulegum sviðum.“

Að sögn Atla hafa pólsk tónskáld einnig höfðað mikið til hans og nefnir hann hinn virta Zbigniew Preisner sem gríðarlegan áhrifavald í hans lífi.

„Síðan er það auðvitað John Williams, hann hafði mikil áhrif á mig. Tónlistin hans fyrir Schindler‘s List er til að mynda algjör snilld og svo er náttúrlega ég af þessari Star Wars-kynslóð. Ég var í kringum átta ára aldurinn þegar Star Wars kemur og breytir heiminum og tónlistin auðvitað stór hluti af því,“ segir Atli og bætir við:

„Það merkilega við þetta á þeim tíma var að koma með eitthverja svona Wagner-tónlist inn í þetta, það var enginn að gera það. Flestir voru fastir í einhverjum djassi og í gegnum Williams kemur einhver nýr heimur sem gjörbyltir öllu.“

Mynd: Max Milligan

Sólóferill í uppsiglingu

Þegar Atli er ekki á fullu að semja tónlist þykir honum notalegast að stunda fluguveiði, borða góðan mat, leggjast í ferðalög og dreypa á góðu rauðvíni. Framundan eru þó mögulega stór kaflaskil því Atli ráðgerir að stíga aðeins til hliðar í kvikmyndatónlistinni.

„Á síðustu misserum hef ég fundið fyrir meiri þörf fyrir að gera tónlist fyrir sjálfan mig, þannig að ég ætla á næstunni að einbeita mér meira að því að vinna í plötu og semja verk, til dæmis fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og verður hún flutt eftir áramót,“ segir hann og kveðst vera afar spenntur fyrir þeirri hugmynd að gefa út sína fyrstu sólóplötu.

„Ég fann einhverja braut og köllun í kvikmyndatónlist á sínum tíma, sem hefur verið alveg frábært, en æ meira hef ég verið að finna fyrir svipaðri köllun og þörf til þess að semja tónlist sem er bara samin tónlistarinnar vegna. Þetta verður nýr kafli.“

Að sögn Atla er jafnframt skemmtilegt að fylgjast með tónlistaráhuganum færa sig niður keðjuna, eins og hann orðar það, og segir hann gaman að fylgjast með börnunum sínum finna fyrir áhuganum. Hann tekur hins vegar fram að hann sé ekkert að ýta á eftir því að þau feti þessi braut. „Þetta bara gerist og það er greinilega sterkur áhugi,“ segir hann. „Eins og er oft sagt, þú velur ekki tónlistina, það er tónlistin sem velur þig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram