Hereditary er hrollvekja af gamla skólanum sem auðvelt er að dást að, en erfiðara að elska. Það er mikið gotterí í boði ef viðkomandi kann að meta þrúgandi andrúmsloft, óútreiknanlega framvindu, hægan bruna og hreint rafmagnaðan leik áströlsku leikkonunnar Toni Collette.
Þetta er mynd sem leggur ýmislegt til umræðu um geðklofa, áföll, samskiptaleysi og missi, en með sterku, yfirnáttúrulegu kryddi. Uppsetning sögunnar er meðhöndluð af brakandi ferskleika þótt myndin hitti ekki alltaf í mark í óhugnaðinum. Sá hængur skrifast í rauninni á þvældar „tónasveiflur“ í uppsetningunni.
Leikstjórinn fetar fína línu á milli mátulega truflandi sena og yfirdrifins hamagangs sem vakti upp talsverðan hlátur í sal og þá á röngum stöðum. Aftur á móti má gefa myndinni prik fyrir að í henni eru skoðaðar nýjar nálganir á kunnuglegum efnivið og fyrir meistaralega úthugsaðan stíl. Þetta eru þættirnir sem lyfta heildinni upp úr langdregninni en forvitnilegri setu í flotta hrollvekju sem vert er að kanna. En heilög Helga Möller hvað hún Collette er stórkostleg þarna!