Netflix birti í dag fyrstu myndina af nýjum leikarahóp sjónvarpsþáttanna vinsælu The Crown. Olivia Colman tekur við hlutverki Elísabetar Englandsdrottningar, en tilkynnt var í október í fyrra að hún myndi taka við af Claire Foy sem lék drottninguna í fyrstu tveimur þáttaröðunum.
Nýjir leikarar í öðrum hlutverkum eru Tobias Menzies sem mun leika Philip drottningarmann, Helena Bonham Carter sem mun leika systur drottningarinnar Margréti og Ben Daniels sem leikur eiginmann hennar, Anthony Armstrong-Jones.
Hver þáttaröð The Crown fjallar um einn áratug í lífi Elísabetar og því var í upphafi ákveðið að skipta um leikarahóp á tveggja þáttaraða fresti til að þættirnir yrðu sem raunverulegastir.
Colman hefur áður leikið í meðal annars Hot Fuzz, The Night Manager (fékk Golden Globe verðlaun), Broadchurch (fékk BAFTA verðlaun, tilnefnd til Emmy verðlauna) og Accused (fékk BAFTA verðlaun).