Þær Bjartey Sveinsdóttir og Gígja Skjaldardóttir sem skipa dúettinn Ylja syngja og leika á gítara nýstárlega þjóðlagatónlist sína á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, sunnudaginn 15. júlí kl. 16.
Ylja hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir þjóðlagatónlist sína þar sem draumkenndur gítarleikur hljómar fallega við hljómfagrar raddir Bjarteyjar og Gígju.
Í ár eiga þær 10 ára afmæli og ætla að halda upp á það með tónleikum á Gljúfrasteini, en þar munu þær leika sín helstu lög auk þess að kynna efni af nýrri plötu sem mun líta dagsins ljós í haust.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag til 26. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.