Rokkhátíðin Eistnaflug í Neskaupstað er haldin nú um helgina, en hún hófst í gær. Hátíðin er sú fjórtánda í röðinni og stendur hún fram á laugardag.
Góð mæting var á hátíðina strax í gær, „mætingin er helmingi betri en í fyrra,“ segir Magný Rós Sigurðardóttir ein af skipuleggjendum Eistnaflug. Aðaltónleikastaður hátíðarinnar er íþróttahúsið, en einnig eru „off-venue“ tónleikar um bæinn; Beituskúrnum, Stálsmiðjunni og V5, sem er bílskúrinn að Valsmýri 5. Á síðastnefnda staðnum hafa verið tónleikar öll þriðjudagskvöld í sumar og verða áfram út júlí.
Herra Eistnaflug, Birgir Axelsson, heldur eftirpartý í Blúskjallaranum. „Í kvöld er það Alvia Islandia, sem mun sjá um að halda uppi stuðinu fram undir morgun.“
Einkennisorð hátíðarinnar hefur alla tíð verið „Bannað að vera fáviti“ og sólin meira að segja hlýðir þeim orðum, því brakandi blíða er í Neskaupstað. Lofar veðurspáin góðu veðri áfram.
„Á Eistnaflugi þarf maður ekki að vera í hreinum buxum, segir einn grjótharður rokkari, sem mætti á svæðið, bara að hafa hreint hjarta.“
Gestir geta nálgast hátíðarapp hér og þannig verið með dagskrána í símanum alla helgina.
Myndirnar eru frá miðvikudagskvöldinu og teknar af Hjalta Árna.