Það elska allir að lesa góða bók og það á líka við um stjörnurnar í Hollywood. Nokkrar þeirra hafa ákveðið að taka bókaástríðuna á næsta stig og hafa stofnað bókaklúbba við miklar vinsældir aðdáenda þeirra. Það er líka til mikillar fyrirmyndar og hvetur til bókalesturs þegar „idolið“ þitt er bókaormur.
Sú þekktasta þeirra og sem segja má að hafi rutt brautina fyrir aðrar stjörnur, er Oprah Winfrey. Fyrsta bókin sem hún mælti með var The Deep End of the Ocean eftir Jacquelyn Mitchard, það var 17. september 1996. Síðan þá eru bækurnar orðnar 79 talsins og bókaklúbburinn er orðinn vörumerki og sérflokkur á heimasíðu hennar.com. Bókaklúbburinn hefur vaxið úr því að vera aðeins meðmæli Oprah með ákveðinni bók í að vera bókaklúbbur sem velur nýja bók reglulega, tekur viðtöl við höfunda, gefur lesendum lestrarleiðbeiningar og fleira. Nýjasta bókin er The Sun Does Shine: How I Found Life and Freedom on Death Row eftir Anthony Ray Hinton, en hann var laus úr fangelsi í apríl 2015 þrátt fyrir að hafa hlotið dauðadóm fyrir tvö morð þrjátíu árum áður.
Yngri leikkonurnar nýta sér samfélagsmiðlana, og þá helst Instagram fyrir sína bókaklúbba. Bókaklúbbarnir eru þó allir á Goodreads, biblíu allra bókaunnenda.
Hin fríða Emma Watson er með bókaklúbbinn Our Shared Self, en klúbbinn stofnaði hún árið 2016 í tengslum við starf hennar við UN Women. Einu sinni í mánuði velur hún eina bók sem hún mælir með, bækurnar vekja lesandann ávallt til hugsunar og eru uppfullar af feminískum krafti. Bókaklúbbur Emmu „hittist“ líka á Goodreads og Twitter.
Reese Witherspoon byrjaði í byrjun árs 2017 að mæta með bókum á Instagram undir nafni Hello Sunshine, sem er framleiðslufyrirtæki hennar. Reese kann greinilega að velja góðar sögur, því að Gone Girl, Big Little Lies og Wild eru bækur sem hún mælti upphaflega með og hefur síðan framleitt sem kvikmyndir eða sjónvarpsþætti og leikið í.
Emma Roberts og vinkona hennar Karah Preiss, stofnuðu Belletrist, þar sem ný bók og ný bókabúð er valin í hverjum mánuði. Bloggið þeirra býður einnig upp á viðtöl við höfunda og Emmu sjálfa.