Miðvikudaginn 4. júlí kl. 12 syngur kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, íslenskar og erlendar kórperlur eftir Jón Nordal, Sigvalda Kaldalóns, Byrd, Mendelssohn, Sigurð Sævarsson, Bruckner og Händel í bland við íslensk þjóðlög. Tónleikagestum er boðið í kaffi og spjall við meðlimi kórsins að tónleikunum loknum. Miðaverð 2.500 kr.
Fimmtudaginn 5. júlí kl. 12 leikur organisti Landakirkju í Vestmannaeyjum, Kitty Kovács, verk eftir Johann Sebastian Bach, Tournemire og hina undurfögru Vocalisu Rachmaninovs. Miðaverð 2.000 kr.
Helgarorganisti vikunnar er hinn heimsþekkti Winfried Bönig aðalorganisti í Kölnardómkirkju, en það er ein eftirsóttasta organistastaða í heiminum. Laugardaginn 7. júlí kl. 12 leikur hann verk eftir Vierne, Herbert Howells ásamt Prelúdíu og fúgu í a-moll eftir Bach og Battagliu eftir Johann Caspar Kerll. Miðaverð 2.000 kr.
Á aðaltónleikum vikunnar, sunnudaginn 8. júlí kl. 17, leikur Winfried Bönig svo verk eftir Karg-Elert, Widor, Chaconne í d-moll eftir Bach og auk þess hið fræga Adagio eftir Samuel Barber. Miðaverð 2.500 kr.
Miðasala í Hallgrímskirkju opnar klukkutíma fyrir hverja tónleika en einnig má kaupa miða á midi.is.
Dagskrá vikunnar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:
Miðvikudagur 4. júlí kl. 12. Schola cantorum
Efnisskrá:
Íslenskt þjóðlag, úts. Róbert A. Ottósson Vinaspegill
Íslenskt þjóðlag, úts. Hjámar H. Ragnarsson Stóðum tvö í túni
Jón Nordal *1926 Smávinir fagrir
Sigvaldi Kaldalóns 1881-1946 Á Sprengisandi
Úts.: Jón Ásgeirsson
William Byrd 1540-1623 Ave verum corpus
Sigurður Sævarsson *1963 Nunc dimittis
Felix Mendelssohn-Bartholdy 1809-1847 Herr, nun lässest du
Anton Bruckner 1824-1896 Locus iste
Georg F. Händel 1685-1759 Dagur er nærri
Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.
Fimmtudagur 5. júlí kl. 12 Kitty Kovács, organisti Landakirkju
Efnisskrá:
Johann Sebastian Bach 1685‒1750
Prelúdía og fúga í a-moll BWV 543
Serge Rachmaninoff 1873‒1943
Vocalise, op. 34 nr. 14
Úts.: Kitty Kovács
Charles Arnould Tournemire 1870‒1939
Victimae paschali
Choral improvisation skráð 1958 úr Cinq Improvisations 1931, nr. IV
af Maurice Duruflé (1902‒1986)
Kitty Kovács er fædd í Győr í Ungverjalandi árið 1980 og útskrifaðist árið 2003 frá tónlistardeild Széchenyi István háskólans þar í borg með diplómu í píanó- og kammertónlist. Eftir útskriftina starfaði hún sem undirleikari í Győr og lagði síðan stund á undirleikaranám við Ferenc Liszt Akademíuna í Búdapest. Á námsárum sínum vann hún í píanókeppnum, m.a. árið 1997 í Salt Lake City og árið 2000 varð hún í 3. sæti í Chopin keppninni.
Kitty kom til Íslands árið 2006 og hefur starfað sem píanókennari og organisti, frá árinu 2011 hefur hún verið organisti Landakirkju í Vestmannaeyjum og kennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja.
Undanfarin 4 ár hefur Kitty stundað orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og nú í vor lauk hún einleikaraáfanga þaðan. Kennari hennar þar var Lenka Mátéová.
Laugardagur 7. júlí kl. 12 Winfried Bönig, aðalorganisti Kölnardómkirkju
Efnisskrá:
Johann Caspar Kerll 1627‒1693 Battaglia
Johann Sebastian Bach 1685‒1750 Prelúdía og fúga í a-moll, BWV 543
Herbert Howells 1892‒1983 Psalm Prelude nr. 3
Louis Vierne 1870‒1937 Finale
Úr Orgelsinfóníu nr. 6.
Sunnudagur 8. júlí kl. 17 Winfried Bönig, aðalorganisti Kölnardómkirkju
Efnisskrá:
Sigfrid Karg-Elert 1877‒1933 March pontificale, op. 141/3
Johann Sebastian Bach 1685‒1750 Chaconne í d-moll
Úr Partitu fyrir einleik á fiðlu BWV 1004
Umr.: Wilhelm Middelschulte 1863‒1943
Samuel Barber 1910‒1981 Adagio
Charles-Marie Widor 1844‒1937 Úr Orgelsinfóníu nr. 8, op. 42/4
I Allegro risoluto
VI Adagio
VII Final
Frá 2001 hefur Winfried Bönig verið aðalorganisti Kölnardómkirkju sem er ein virtasta organistastaða í heiminum. Hann er einnig prófessor í orgelleik og spuna við Tónlistarháskólann í Köln og yfirmaður kaþólsku kirkjutónlistardeildarinnar þar.
Winfried Bönig er fæddur árið 1959 í Bamberg, Þýskalandi og stundaði nám í orgelleik, stjórnun og kirkjutónlist við Tónlistarháskólann í München hjá Franz Lehrndorfer, organista kaþólsku dómkirkjunnar í München. Hann lauk öllum prófum með láði, þar með talið meistaragráðu. Árið 1993 lauk hann doktorsprófi í tónlistarfræði við háskólann í Augsburg.
1984‒1998 var Bönig organisti við Kirkju heilags Jósefs í Memmingen í Bæjaralandi.
Bönig er mjög vinsæll konsertorganisti og hann hefur komið fram víða um heim auk þess sem honum hefur oft verið boðið að leika við vígslu nýrra orgela. Þá hefur hann frumflutt fjölda verka sem hafa verið tileinkuð honum, m.a. verk eftir Jean Guillou, Naji Hakim, Stephen Tharp og Daniel Roth. Þá hafa tónleikaraðir hans þar sem hann hefur leikið öll orgelverk J.S. Bachs, Max Regers og Olivier Messiaen vakið mikla athygli og eru meðal mikilvægustu tónleika hans.