fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Kvikmyndagerðarkonur í brennidepli á Reykjavík Fringe Festival

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 1. júlí 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fjöllistahátíðinni Reykjavík Fringe Festival er að finna tilkomumikið samansafn af leikhúsi, spuna, tónlist, dansi og kvikmyndum. Hátíðin er í anda Edinborgar-hátíðarinnar og fer hún fram víðs vegar um Reykjavík dagana 4.–8. júlí. Hátt í kringum 150 listamenn frá 10 löndum spreyta sig á sínum sviðum með áherslu á nýstárlegar listakúnstir og er mikil áhersla lögð á jaðarinn hjá ungu listafólki.

Á meðal dagskrárefna hátíðarinnar verður áhersla lögð á kvenkyns leikstjóra í kvikmyndagerð þar sem sýndar eru þrjár grípandi myndir í Gallerí Fold frá þremur upprennandi röddum og þjörkum, tvær stuttar og ein í fullri lengd. Þessar myndir eru allar ólíkar í stíl og framsetningu en eiga sameiginleg þemu; einangrun og sjálfsuppgötvun frá sjónarhorni kvenna.

DV ræddi við þær Natalie Kaplan, Sigríði Báru Steinþórsdóttur og Salvöru Bergmann um verkin, ástríðuna í kvikmyndagerð, hraðahindranir og umfjöllunarefni sem er þeim öllum hugleikið.

Vildi ekki feta í fótspor vinanna

Natalie Kaplan er kvikmyndagerðarkona frá Tel Aviv í Ísrael og búsett þar. Á síðustu vikum hefur hún verið á flakki með sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, Once There Was a Girl. Myndin vann til verðlauna á Life Art kvikmyndahátíðinni í Grikklandi í flokki bestu myndar og segir Natalie að áhorfendur hafi tekið myndinni opnum örmum. „Það var dásamleg tilfinning að fá þessi viðbrögð því það tók verulega á að gera hana.“

Kvikmynd Natalie er jafnframt lokaverkefni hennar úr skólanum The Steve Tisch Film School and Television og vill leikstýran meina að erfiða fæðingin hafi ekki bara verið þess virði, heldur greitt veginn fyrir lofandi framtíð sem hún segir hafa komið náttúrulega í kjölfar ástríðunnar fyrir myndrænu söguformi. En ekki nóg með það, heldur segist Natalie vera ánægð með að hafa ekki farið sömu leið og flestir vinir sínir í lífinu og tekur því fagnandi að vera ein, sterk og sjálfstæð.

„Þegar ég bjó í Berlín í tvö ár fann ég fyrir að allir vinir mínir voru orðnir giftir, með fínan feril og fullt af börnum, annað en ég. Það var hins vegar ekki það sem ég vildi og mér leið öðruvísi fyrir vikið,“ segir Natalie. „Það er nákvæmlega tilfinningin sem ég vildi fanga í mínu verki; tilfinningin að vera fullorðin kona sem er óhrædd við einmanaleikann og nýtur þess að vera hún sjálf. Kona sem er að kanna og uppgötva heiminn.“

Aðferðafræði gamla skólans betri

Samkvæmt Natalie hefur hún elskað að taka ljósmyndir frá mjög ungum aldri. Áhuginn stigmagnaðist þegar faðir hennar keypti handa henni 35 mm myndavél þegar hún var tólf ára gömul. „Síðan þá hef ég alltaf sett það í forgang að taka upp verkefni á filmu, því það blæti hófst með þeirri vél. Ég kann að meta einfaldleikann, aðferðafræðina og hvað filman getur oft skapað umhverfi sem er ólíkt því sem er í kringum okkur,“ segir hún.

Í dag gerist allt svo hratt með stafrænu formi og þykir Natalie það ekki vera til hins betra. „Það er allt svo fljótgert og auðvelt. Ef þú sérð hund liggjandi ofan á bíl, þá getur þú tekið það upp með símanum eða gripið 100 ljósmyndir,“ segir hún.

„Með filmuna er það allt öðruvísi. Þú veist ekki alltaf hvað þú hefur í höndunum, þú bíður eftir hinu óvænta og það heldur þér forvitnum og vakandi. Vissulega elska ég að taka upp ýmislegt á símanum mínum, en hugarfar mitt endurspeglast í myndinni minni; þessi list að taka sinn tíma, að njóta litlu hlutanna, þó það sé ekki nema að líta á lítinn maur.“

 

Eðlishvatirnar hafa aldrei rangt fyrir sér

Once There Was a Girl segir frá lítilmagna í orðsins fyllstu merkingu að sögn Natalie, sem bæði karlar og konur eigi að geta tengt sig við. Aðspurð að því hver hennar stíll sé segir Natalie að hennar áhugi liggi í því að segja sögur sem sækja í hennar persónulegu reynslu, en hún vilji krydda þær með gefnu skáldaleyfi og sögum annarra sem hún heyrir í kringum sig.

„Myndin var gerð fyrir lítinn sem engan pening og flestir í tökuliðinu voru nýnemar eða útskriftarnemar. Aðalleikkonan mín heitir Liat Glick, stúlka sem ég hugsaði oft til þegar ég skrifaði handritið. Þetta var algjört innsæi og seinna þegar æfingar hófust uppgötvaði ég hvað hún væri mikil strákastelpa. Henni finnst gaman að vera ein og það var með ólíkindum hversu margt hún átti sameiginlegt með persónunni sem ég skrifaði. En ég fann fyrir þessari tengingu á milli okkar ómeðvitað,“ segir Natalie.

„Bestu ráðin sem ég gef gefið öðrum í þessum bransa, og ekki síður ungum leikstýrum, er einfaldlega að gefast aldrei upp. Það hljómar auðvitað eins og klisja en það er ástæða fyrir því. Hraðahindranirnar eru margar og erfiðið oft gríðarlegt, en það skiptir öllu að trúa á sjálfan sig og fylgja eðlishvötunum. Því þær hafa aldrei rangt fyrir sér.“

 

Fleiri konur í íslenska kvikmyndagerð

Stuttmyndin Brot segir frá Söndru, konu sem hefur gert hræðileg mistök en reynir allt sem hún getur til þess að kljást ekki við þau. Fljótlega kemst hún að því að það er aðeins hægt að byrgja hlutina inni ákveðið lengi áður en allt skilar sér á yfirborðið. Þá tekur við gríðarleg atburðarás í lífi Söndru sem er hreinni martröð líkust. Leikstjóri myndarinnar er Ásdís Sif Þórarinsdóttir en með aðalhlutverkið fer Sigríður Bára Steinþórsdóttir, sem er jafnframt handritshöfundur, klippari og aðalframleiðandi verksins.

Sigríður lýsir Broti sem drama og sálfræðitrylli með dass af hrollvekju og segist ómögulega vilja vera í sporum aðalpersónunnar Söndru. „Ég hef yfirleitt sótt í að leika fyndna karaktera, en mig langaði að ögra sjálfri mér og fara frekar í dramað í þetta skiptið, en vildi þó forðast væmni eftir fremsta megni,“ mælir Sigríður.

Brot var útskriftarverkefni Sigríðar fyrir Kvikmyndaskóla Íslands, en þar sem hún var á leiklistarbraut var verkefnið að skila verki þar sem hún færi sjálf með burðarhlutverkið, sem reyndust síðan vera tvö. „Ég fór í nokkra hringi í handritaskrifunum en lenti á þessari sögu um Söndru sem átti í samskiptum við aðra konu, en átti erfitt með að ákveða hvorn karakterinn ég ætti að leika. Eftir áskorun frá kennara og samnemendum ákvað ég svo að gera tilraun til að leika báða aðalkarakterana og ögra sjálfri mér enn frekar. Þannig að ég breytti sögunni til að það gengi upp og ég er mjög sátt við útkomuna,“ segir hún.

Sigríður segist hafa fengið gríðarlega hjálp við framleiðsluna og hefði ekki getað einbeitt sér að leiknum væri ekki fyrir allan stuðninginn. Á bak við myndvélina er hellingsvinna sem fer fram sem er ósýnileg áhorfandanum,“ segir hún.

 

Innblástur Ísoldar

Sigríður segist hafa verið undir miklum áhrifum Black Mirror-þáttanna við vinnslu Brots. „Mig langaði að gera eitthvað sem lætur fólk hugsa. Auk þeirra horfði ég til Andrei Tarkovskys og notkunar hans á frumefnunum í sínum myndum, vatni, eldi, lofti og jörðu sem mér finnst mjög heillandi. Ísold Uggadóttir kom líka í skólann í vetur að ræða myndina sína Andið eðlilega og mér fannst magnað að heyra hennar sýn og hvernig hún vinnur og hún veitti mér mikinn innblástur.“

Að mati Sigríðar er íslensk kvikmyndagerð algjörlega að rokka þessa dagana. Það eru að koma út fjölbreyttar, mjög metnaðarfullar íslenskar myndir og ég er mjög spennt að sjá hvað gerist á næstu árum og vonast til að geta tekið þátt í því á einhvern hátt,“ mælir hún. „Ég er sérstaklega spennt fyrir því að það eru að koma út fleiri myndir eftir konur, með konur í brennidepli og sem sýna sjónarhorn sem hefur ekki endilega sést mikið í íslenskum kvikmyndum.“

 

 

Mistökin eru leiðin til þess að læra

Salvör Bergmann hefur kvikmyndadelluna meðfædda og hefur haft ómældan áhuga á frásögnum síðan á bernskuárum. Hún kláraði kvikmyndafræðina í Háskóla Íslands árið 2015 og hefur sankað að sér reynslu í viðburðastjórnun og skapandi vinnu sem hefur komið sér vel í fagi leikstjórnar. Með stuttmyndinni Reykjavíkurmær gegndi hún mörgum mismunandi hlutverkum framleiðslunnar. Segir hún kvikmyndagerðina vera eitthvað sem sé komið til að vera.

Að sögn Salvarar er Reykjavíkurmær eins konar stúdering á því hvernig sé að vera stúlka í Reykjavík og vissan veruleika þess.

Myndin sækir ákveðinn innblástur í leikstýruna Lynne Ramsay og fyrstu þáttaröð af unglingaseríunni Skins. Reykjavíkurmær fjallar um stúlku sem er að drepa tímann í Reykjavík. Flest allt sem gerist í kjölfarið á því er opið til túlkunar, þar sem sagan byggist frekar á tilfinningu heldur en hinu hefðbundna söguformi, samkvæmt Salvöru, með skýrum áflogum og úrlausnum.

„Ég var í upphafi að reyna að semja slíka sögu, þar til skáldagyðjan birtist og sýndi mér eitthvað óljósara sem mér fannst segja betri sannleika og þyrfti frekar að segja frá,“ segir hún.

Breytingum háð

Salvör segir það vera ómetanlega lífsreynslu að stinga sér í djúpu laugina og læra jafnóðum. „Að gera mynd sjálfur virkaði eins og heilt kvikmyndanám. Maður fattaði fjöldann allan af smáatriðum sem fólk í kringum mann var einnig búið að tönnlast á; skjóta nóg, lýsa vel, taka upp þögn og þess háttar,“ segir Salvör og tekur fram að ein mikilvægasta lexían geti verið sú að finna jafnvægið á milli þess að hafa tröllatrú á sjálfum sér og að viðurkenna það að maður veit í raun ekki neitt. Maður lærir best á því að gera mistök.“

„Að hlusta og taka inn öll ráð en að sama skapi fylgja eigin vissu og halda sig við sínar ákvarðanir. Síðast en ekki síst er kvikmynd svo oft breytingum háð, þú ert aldrei að fara að sjá sömu lokaniðurstöðu og þú ætlaðir þér í upphafi. Málið er að læra að sleppa takinu ef eitthvað er ekki að virka og fanga töfrana þegar þeir gerast. Ef sagan kemur frá hjartanu á hún skilið að vera sögð og eru alltaf einhverjir sem munu samsvara sig með henni.“

 

Hægt verður að sjá myndirnar gjaldfrjálst dagana 5., 6. og 7. júlí í Gallerí Fold.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“