Kvikmyndaskríbent á vef BBC segir að heimildarmynd um Whitney Houston og íslenskur þriller séu á meðal þeirra kvikmynda sem fólk eigi að sjá í sumar. Í greininni eru taldar upp níu áhugaverðar kvikmyndir sem fólk eigi ekki að láta framhjá sér fara og meðal þeirra eru íslenska kvikmyndin Undir trénu.
Myndin var frumsýnd hér á landi á síðasta ári og hlaut hún samtals 7 Eddu-verðlaun, þar á meðal sem besta kvikmynd ársins.
Í stuttri umfjöllun um myndina hjá BBC er hún bæði sögð vera spennumynd og svört kómedía. Í myndinni sé veitt skörp sýn á nágrannaerjur sem fari úr böndunum.