fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024

Glæpir og girnd – Lesbíur í glæpasögum

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 27. júní 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Lilja Sigurðardóttir fékk nýlega Blóðdropann 2018, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir bók sína Búrið sem JPV/Forlagið gaf út á síðasta ári.

Búrið er lokasagan í þríleik Lilju um Sonju, sem í örvæntingu sinni eftir skilnað leiðist út í eiturlyfjasmygl. Sonja er samkynhneigð og sátt við sjálfa sig í skrifum Lilju. Agla ástkona Sonju er hins vegar í  meiri vandræðum með kynhneigð sína, þar sem girndin tekst á við hennar eigin fordóma.

Í pistli sem Lilja skrifar á Samkynhneigð.is fjallar hún um þríleikinn og sögupersónurnar, auk þess að benda á fleiri glæpasögur þar sem samkynhneigð kona er í aðalhlutverki.

Þegar ég skrifaði Gildruna, sem var fyrsta glæpasagan mín í þríleik um kókaínsmyglarann Sonju og bankakrimmann Öglu, hugsaði ég ekki mikið um að ástarsambandið milli kvennanna í bókinni, lesbíska ástin, væri einhvers konar sérkenni á bókaflokknum. Ég skrifaði bara sögu sem mig langaði til að skrifa, sögu sem mig sjálfa myndi langa til að lesa. Það var ekki fyrr en eftir á að ég áttaði mig á því að ég var að skrifa inn í samhengi í sögu íslenskra glæpasagna. Og ástæðan fyrir því að bók, venjuleg glæpasaga í þessu tilviki, verður einhvers konar sögulegt framlag er sú að það eru svo fáar bækur af sama tagi fyrir.

Fyrsta lesbían sem ég man eftir á prenti í íslenskri bók var í smásögu eftir Ástu Sigurðardóttur, Eldspýtur, þar sem ægifögur en snarbrjáluð lesbía reynir að lokka illa drukkna sögukonu upp í bíl til sín með sitthvað í huga. Þó að lesbíunni hafi verið lýst á fremur neikvæðan hátt man ég hversu djúp áhrif þetta hafði á unglinginn mig. Ég undraðist viðbrögð sögukonunnar sem forðaði sér á hlaupum og hugsaði með mér að í hennar sporum hefði ég sko stokkið upp í bílinn! Fátæktin í fyrirmyndum sem endurspegluðu girnd milli kvenna var slík að neikvætt uppdregin sögupersóna varð þýðingarmikil í vitundinni og framkallaði hlutfallslega órökrétt þakklæti í hjartanu.

Ég bý enn að þakklæti hjartans fyrir að lesa um konur sem girnast aðrar konur og sérstaklega fagna ég tilveru þeirra í þeirri bókmenntagrein sem ég hef mesta unun af að lesa: glæpasögunni. Hin stórglæsilega og tvíkynhneigða Stella Blómkvist hefur glatt mig árum saman og Bettý Arnaldar Indriðasonar er mín uppáhalds úr hans stóra og mikla safni.

Hinsegin aukapersónur má finna víða í glæpasögunum, bæði á Íslandi og erlendis og í heiminum er til mikið magn glæpasagna með lesbíum og tví/pankynhneigðum konum í aðalhlutverki sem tilheyra LGBT+ subgenri, það er að segja bækur sem segja má að séu skrifaðar af lesbíum með lesbíur í huga og falla þar með, eða eru settar, í einskonar undirflokk og ná aldrei til almennra lesenda. Skoski glæpasöguhöfundurinn Val McDermid sendi árið 1987 frá sér bók sem nefndist Report for Murder þar sem sögupersónan, hin lesbíska og harðsnúna Lindsay Gordon leysir sakamál á heimavistarskóla fyrir stúlkur. Þarna braust fram á hin almenna, „mainstream“, markað evrópskra glæpasagna lesbísk aðalpersóna sem ekki baðst afsökunar á sjálfri sér og setti í rauninni ekki fram neinar vangaveltur um eigin kynhneigð, heldur var bara eins og hún var og velti því ekki mikið fyrir sér. Fleiri höfundar hafa fetað svipaða leið og náð inn á hinn almenna markað glæpasögunnar og má þar á meðal nefna hina bresku Mari Hannah sem ég held mikið upp á og skrifaði bókaflokk sem skartar hinni bráðsnjöllu aðalpersónu Kate Daniels rannsóknarlögreglukonu sem á í flóknu ástarsambandi við aðra konu, án þess að það verði að aðalatriði bókarinnar.

Mig langaði hins vegar að skrifa sögu þar sem kynhneigðin væri stórt mál, því í lífi okkar flestra sem teljumst hinsegin er hún það, allavega á einhverju tímabili lífsins. Í GildrunniNetinu og Búrinu, er önnur aðalpersónan, Sonja, sátt við sjálfa sig þó svo að segja mætti að kynhneigðin hafi í raun komið henni í þá klípu sem hún er í, en hin aðalpersónan, Agla er í meiri vandræðum með kynhneigð sína, því innra með henni tekst girndin á við hennar eigin innri fordóma.

Þakklætið sem ég hef uppskorið fyrir þessar sögur hefur yljað mér um hjartað og það gleður mig innilega að leggja af mörkum til þess að konur sem girnast aðrar konur geti lifað sig inn í sögupersónur sem endurspegla þeirra eigin tilveru. Og þá er ég ekki að tala um kókaínsmyglið og bankaglæpina!

*Bækurnar um Lindsay Gordon urðu sex talsins og teljast hver og ein með betri glæpasögum breskum. Val McDermid er einn söluhæsti höfundur Bretlands. Hún hefur skrifað 33 bækur sem hafa selst í 15 milljónum eintaka um allan heim.

*Mari Hannah skrifaði sex sögur um Kate Daniels og hefur nýlega snúið sér að annarri seríu.

*Stella Blómkvist hefur nýlega birst á sjónvarpsskjánum og hefur þar, líkt og í bókunum, sinn eigin stíl sem gaman er að.

*Mig langar að benda lesendum á glæpasöguhöfundana Sarah Stovell, Jónínu Leósdóttur, Jonathan Kellerman, Joseph Hansen og Patriciu Highsmith sem öll eiga til skemmtilegar hinsegin persónur í bókum sínum. Og vissulega eru margir fleiri glæpasöguhöfundar til sem skrifa um hinsegin fólk en ég þekki, svo ég þigg ábendingar frá ykkur. Ég er á Facebook.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Nistelrooy kemur vel fyrir og vilja reyna að halda honum

Nistelrooy kemur vel fyrir og vilja reyna að halda honum
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Þráinn fékk þessa mynd og óhugnanlega hótun frá Facebook-vini sínum – „Þurrka út alla fjölskyldu þína“

Þráinn fékk þessa mynd og óhugnanlega hótun frá Facebook-vini sínum – „Þurrka út alla fjölskyldu þína“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Ísland öruggasti áfangastaðurinn fyrir árið 2025

Ísland öruggasti áfangastaðurinn fyrir árið 2025
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Arsenal til í að losna við Trossard og fá inn leikmann frá West Ham

Arsenal til í að losna við Trossard og fá inn leikmann frá West Ham
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Segir Sósíalista skilda útundan á fundi þar sem auðvaldið ætli að leggja flokkum línurnar – „Ísland er að breytast í verbúð í eigu örfárra auðugra ætta“

Segir Sósíalista skilda útundan á fundi þar sem auðvaldið ætli að leggja flokkum línurnar – „Ísland er að breytast í verbúð í eigu örfárra auðugra ætta“
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

„Jólin eru ekki komin fyrr en ég fæ karamellutússuna mína“ – Skilur þú hvað Jógvan er að segja?

„Jólin eru ekki komin fyrr en ég fæ karamellutússuna mína“ – Skilur þú hvað Jógvan er að segja?