Nýtt sýnishorn fyrir ævintýramyndina Mortal Engines er lent og lofar það umfangsmiklu ævintýri þar sem gufupönkið er allsráðandi. Íslenska leikkonan Hera Hilmar sést þarna áberandi í aðalhlutverkinu.
Hera leikur söguhetjuna Hester Shaw, sem leitar hefnda á þeim aðila sem drap móður hennar og gaf henni örið sem sést á stillunni að ofan. Sagan gerist í framtíðarheimi en þar hefur jörðin eins og við þekkjum hana verið lögð í rúst í styrjöld. Þær fáu borgir sem eftir standa berjast innbyrðis um auðlindir sem í boði eru.
Handrit myndarinnar er í höndum þeirra Peter Jackson, Fran Walsh og Philippa Boyens, sem öll komu að handritasmíði Hringadróttinsseríunnar, og er efniviðurinn byggður á skáldsögu Philip Reeve. Jackson og hans teymi framleiða, Christian Rivers leikstýrir og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Fyrirhugað er að gera fleiri myndir um þennan sagnaheim ef vel gengur.
Mortal Engines er væntanleg í desember. Stikluna má sjá að neðan ásamt nýju plakati.