fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Solo – A Star Wars Story hittir ekki í mark: Léttur en linur er Han

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 4. júní 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í BÍÓ
Leikstjóri: Phil Lord, Christopher Miller, Ron Howard
Framleiðandi: Kathleen Kennedy
Handrit: Lawrence Kasdan, Jonathan Kasdan
Aðalhlutverk: Alden Ehrenreich, Emilia Clarke, Woody Harrelson

 

Í stuttu máli: Meinlaus en hugmyndalaus afþreying sem hefur litlu við frægu titilfígúruna eða Star Wars heiminn að bæta.

Þegar ein Star Wars mynd er gefin út á ári er fjölbreytni vissulega lykilhráefni að langlífi myndabálksins. Þarna er einmitt tækifæri til að segja fleiri smærri sögur, skoða nýjar hliðar hugmyndafræðinnar og leika sér með persónur, gamlar sem nýjar. Aðeins er þó hvert innslag tilhlökkunarefni þegar gefin saga er skemmtileg og flytur vörumerkið fram, ekki afturábak.

En þrátt fyrir þá einföldu staðreynd að enginn getur bara stigið sísvona í fótspor Harrison Ford í annarri af tveimur rullum sem gerði hann að nördagoðsögn fyrir lífstíð, má ekki gleymast að Han Solo er ekkert meistaralega áhugaverð eða flókin persóna. Töffari að eðlisfari, jú, en best geymdur í svölum skömmtum til þess að hæðast að aðstæðum sínum og bræða bíótjaldið með hversdagslegum sjarma innan stærri fantasíugleðinnar.

Stærsta breyting persónunnar átti sér stað í upprunalegu Star Wars myndinni þar sem hann fór úr sjálfselskum geimloddara í hetju sem gerðist hluti af heild. Þegar lagt er í forsögu kappans er merkilega lítið hægt að vinna með og er í rauninni bara eina leið hægt að fara; að sýna hvernig Solo breyttist úr hálfgerðum ljúflingi í bitru en glöggu hetjuna sem við flest þekkjum.

Öllu svarað og æpt út

Solo: A Star Wars Story er fyrsta myndin í myndabálknum fræga þar sem áherslan er hvorki á Veldið né geislasverð. Striginn er smærri og meira stílað á yfirbragð í líkingu við klassískan vestra, sérstaklega sniðnum til þess að haka í eins mörg nördahólf og hægt er með tilvísunum og tilheyrandi nostalgíu.

Einhvern veginn þarf Solo mynd að fylla upp í lengd á við kvikmynd, þannig að séð er til þess að það sé ekki lína sem hann hefur ekki sagt, pláneta eða atburður sem hann hefur upplifað sem þessi nýtir sér ekki tækifærið til þess að útskýra; Hvernig kynntist hann Chewbacca? Hvernig varð hann upphaflega að smyglara? Hver kramdi í honum hjartað? Hvernig fór hann að því að vinna Fálkann? Hver er tegund skipsins? Hvernig fór hinn frægi Kessell-flótti fram og hvernig í ósköpunum fékk Solo nafnið sitt?

Klúður og kraftaverk

Eins og margir vita var tilurð og gerjun þessarar myndar fjarri því að vera hispurslaus. Leikstjórateyminu Phil Lord og Chris Miller var falið það verkefni að stýra myndinni en lentu síðan í hörðum deilum við framleiðendur. Sögur segja að tvíeykið hafi aðeins bugast undan þrýstingi stóru framleiðslunnar; margt tafðist óspart og er talið um að dúóið vildi útfæra eitthvað meira í líkingu við Guardians of the Galaxy frekar en klassíska Stjörnustríðsbraginn. Þá voru mennirnir reknir og ofurframleiðandinn Ron Howard fenginn til að plástra því upp sem hægt var. Á endanum skaut Howard um 70% af myndinni upp á nýtt og var sýn fyrri leikstjóranna fleygt út um gluggann.

Í ljósi alls þess sem fer úrskeiðis á bakvið tjöldin er kraftaverki líkast að myndin skuli ekki vera bersýnilegt klúður, og í raun býsna hnitmiðuð, en á móti skelþunn, hugmyndasnauð og með arfaslakt flæði í sögubyggingu. Myndatakan og almenn palletta er annars vegar dökk og forljót og tónlistin yfirleitt kraftlaus nema þegar John Williams stefin nýtast annað slagið, þessi sem Star Wars-aðdáendur geta raulað í svefni. Þetta hins vegar rænir myndina frá því að bera sinn eigin svip.

Eftirhermur og háfleygar fígúrur

Í titilhlutverkinu er hinn upprennandi Alden Ehrenreich skítsæmilegur en enginn stórsigurvegari. Hann þræðir línuna fínt á milli þess að koma með eftirhermu á Ford og sýna takta sem hann tileinkar sér alveg sjálfur. Verst er bara hvað karakterinn er flatur, hvað framvindan er líflaus og óspennandi eða hvernig kemistrían milli hans og Emiliu Clarke er á pari við frændsystkini að stinga saman nefjum.

Woody Harrelson hefur oft séð betri daga og Donald Glover gerir fátt annað en að apa eftir Billy Dee Williams, en óaðfinnanlega að vísu. Breska leikaranum Paul Bettany er sóað í hlutverki smáskúrks og vélmennið L3-37 er hreint óþolandi viðbót; skemmtileg fígúra á blaði því þarna er í fyrsta sinn rætt um þrælahald vélvera og ójafnrétti í þessum hluta geims en fígúran er framsett af sambærilegri sleggjunálgun og Jar Jar Binks hörmungin.

Veiki nostalgíunnar

Segja má svo sannarlega ýmislegt um síðustu Star Wars-mynd, hina grimmt umdeildu The Last Jedi, en hún að minnsta kosti tók skref með heiminn, leyfði sér ýmsar áhættur og kynnti okkur fyrir einhverju nýju. Fram en ekki aftur, sjáið til. Að þeirri mynd utanskildri voru The Force Awakens og Rogue One óvenju blindaðar af veiki nostalgíunnar, en ekki jafn sterkt og Solo.

Star Wars snýst um melódrama, mikilfenglega geimbardaga, bjartsýni og fjör og möguleika í stórbrotnum bíóheimi. Hinn sami kvikmyndaheimur er bragðlaus og lítill í Solo. Þetta er meinlaus afþreying í sjálfu sér en bætir nákvæmlega engu við heiminn, þó reyndar sé opnað fyrir bráðþarfa umræðu um samræði milli vélmenna og mannfólks. Lengra nær það ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“