Listahátíð í Reykjavík fer fram dagana 1. – 17. júní næstkomandi. Þann 10. júní fer fram risavaxið þátttökuverkefni, R1918, þar sem hátt í 200 almennir borgarar á öllum aldri sameinast í áhrifamiklum viðburði í miðborginni. Þann dag birtast Reykvíkingar frá árinu 1918 í stórum hópum, líkt og leiftur úr fortíð, á götum borgarinnar.
Öllum er frjálst að skrá sig til leiks og eru fjölskyldur boðnar sérstaklega velkomnar. Þátttakendur þurfa að mæta í búningamátun og á 2–3 æfingar. Íslenskukunnáttu er ekki krafist, þar sem viðburðurinn er alfarið án orða.