fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Fókus

Kona fer í stríð stendur fyrir sínu: Einlægur spennufarsi

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 24. maí 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

NÝTT Í BÍÓ

Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Framleiðendur: Marianne Slot, Benedikt Erlingsson o.fl.
Handrit: Ólafur Egilsson, Benedikt Erlingsson
Kvikmyndataka: Bergsteinn Björgúlfsson
Tónlist: Davíð Þór Jónsson
Klipping: David Alexander Corno
Aðalhlutverk: Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Juan Camillo Roman Estrada

Í stuttu máli: Hraust, fyndin og beitt saga nýstárlegrar fjallkonu.

Segja má að frumraun Benedikts Erlingssonar í kvikmyndagerð, Hross í oss, hafi alls ekki verið allra. Sumir áhorfendur sáu í henni frumlegt, séríslenskt listaverk, aðrir samansafn flottra en flatra stuttmynda. Hins vegar hefur tilraunasemi Benedikts verið minnisverð og áhugi hans fyrir nýjum vinklum í frásagnarformi og tengsl manneskjunnar við náttúru og eðli. Kona fer í stríð kemur aðeins inn á þann hluta, með skelmislegum og hádramatískum brag, fínum boðskap, firnasterkri lykilpersónu og breiðu úrvali gamanleikara í kaupbæti.

Auga leikstjórans fyrir grípandi uppsetningum og landslagsrömmum skrifast að mörgu leyti á tökumanninn Bergstein Björgúlfsson, en vinnubrögð hans marka eitt beittasta vopnið sem leikstjórinn hefur. En að sinni deilir hann þeim heiðri með kjarnaleik Halldóru Geirharðsdóttur.

Hugmyndin um fjallkonuna sem þjóðartákn íslendinga tengist rómantísku stefnunni og hugmyndinni um móður jörð. Halldóra leikur hina viðkunnanlegu Höllu, kórstjóra og laumulegan aðgerðarsinna sem í upphafi sögu fremur skemmdir á raflínum sem leiða að álverinu í Straumsvík. Brögð hennar hafa skapað mikinn usla í innlendri og erlendri pressu en hingað til hefur enginn grunað hana. Spennan og gæslan magnast með hverri aðgerð og í miðju alls þess kemst hún að tilvist munaðarlausrar stúlku í Úkraínu. Þá stendur hún frammi fyrir því að bjarga annaðhvort stúlkunni og tileinka sér það sem hún þráir eða berjast áfram nafnlaust fyrir sínu réttlæti gagnvart framkomu stóriðja við náttúruna. En ætli sé val um hvort tveggja, móðurhlutverkið og náttúruna?

Hingað til hefur Halldóra aldrei eignað sér kvikmynd með þessum hætti en hér leikur hún einnig tvíburasystur Höllu. Samspil þeirra systra kemur vel út en þessi aukapersóna jaðrar oft við það að vera ódýr „handritslausn“ og hefði mátt spinna meira með hana. Hið sama á við um Juan Camillo Estrada, en hannn vefst reyndar skemmtilega í bratt og þægilegt rennsli sögunnar. Ef út í það er farið er lokasena myndarinnar, þó hún sé táknræn á sinn máta, sama og óþörf.

Myndin fær plússtig fyrir frábæra tónlist en stíllinn gengur stundum fulllangt í því að sýna hljómsveitina eða kórsöngvara í ramma (ekki ósvipað því sem var nýlega gert í báðum Paddington-myndunum). Þetta er hressandi mótíf en verður fljótlega þreytandi, bætir í rauninni engu við nema skrauti og stelur á köflum þrumunni frá öllum þunga.

Jóhann Sigurðarson stelur hverri senu sem skilningsríkur bóndi sem þekkir sína arfleið. Svo má sjá heilan haug grínleikara dúkka upp í gestahlutverkum. Þetta ýtir enn meira undir kómískan brag myndarinnar fyrir okkur landsmenn á meðan áhorfendur erlendis finna sjálfsagt ekkert fyrir því. Myndin er reyndar cirka tveimur leikurum frá því að teljast sem óbein en dásamleg laumusamkoma Fóstbræðra.

Kona fer í stríð snýst á yfirborðinu um innri baráttu sem ytri, flótta, fórnir, litla sigra og viljann til að þiggja hjálp eða veita. Með frásögnina veður Benedikt í einlægt drama, léttan þriller og gamanfarsa til skiptis og tekst sæmilega til með samsuðunni þegar á heildina er litið. Benedikt og Ólafur Egilsson salta handritið með nokkrum bráðfyndnum uppákomum, vænum predikunum en það er umfram allt mannúðleiki sögunnar og hinn hetjulegi stuðningur sem áhorfandinn sýnir baráttu og togstreitu Höllu sem heldur öllu gangandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafþór birtir nýjar myndir sem hneyksla marga fylgjendur – „Þetta hefur gert þig 15 árum eldri“

Hafþór birtir nýjar myndir sem hneyksla marga fylgjendur – „Þetta hefur gert þig 15 árum eldri“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þorgrímur Þráins svarar fyrir sig – „Fyrir þá sem ná ekki upp í nefið á sér og gera lítið úr skóla lífsins“

Þorgrímur Þráins svarar fyrir sig – „Fyrir þá sem ná ekki upp í nefið á sér og gera lítið úr skóla lífsins“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulda og Þorsteinn hjóla í Þorgrím Þráins – Kalla hann „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan karl“

Hulda og Þorsteinn hjóla í Þorgrím Þráins – Kalla hann „risaeðlu“ og „forréttindafirrtan karl“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Varalesari afhjúpar hvað fór á milli Amy Schumer og Blake Lively

Varalesari afhjúpar hvað fór á milli Amy Schumer og Blake Lively
Fókus
Fyrir 3 dögum

Algengustu kynlífsmeiðslin og hvaða stellingu skal forðast

Algengustu kynlífsmeiðslin og hvaða stellingu skal forðast
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rihanna missti sig þegar dómur var kveðinn upp í máli kærasta hennar – Sjáðu myndbandið

Rihanna missti sig þegar dómur var kveðinn upp í máli kærasta hennar – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórhildur glímdi við mígreni í nokkur ár og prófaði óhefðbundna aðferð – „Ég hef ekki fengið mígreni síðan“

Þórhildur glímdi við mígreni í nokkur ár og prófaði óhefðbundna aðferð – „Ég hef ekki fengið mígreni síðan“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn opnar sig um viðtalið umdeilda – „Ég er auðvitað bara einhver gaur, með alls konar bresti“

Þorsteinn opnar sig um viðtalið umdeilda – „Ég er auðvitað bara einhver gaur, með alls konar bresti“