Raflistahátíðin RAFLOST hefst í dag, en þetta er í tólfta sinn sem hún er haldin. RAFLOST er framsækin hátíð fyrir nýja tónlist og miðlalist þar sem rafmagn og tækni eru notuð við sköpun eða flutning.
Í ár er áhersla á tölvulist og tónlistarforritun í rauntíma. Breski snarkóðarinn Alex McLean verður aðalatriðið á fyrsta „Algorave“ sem haldið verður á Íslandi á laugardagskvöldið kemur í Mengi. Algorave eru viðburðir þar sem dansvæn raftónlist er kóðuð á staðnum, hreyfingin byrjaði á Englandi og hefur síðan verið að berast út um allan heim. Kóðanum er varpað á tjald jafnharðan og geta áheyrendur ráðið hvort þeir fylgjast með kóðanum eða bara dansa. Einnig stíga á stokk á þessum vettvangi hinn danski Lars from Mars og Hlöðver Sigurðsson, fremsti snarkóðari Íslendinga.
Kvöldið áður, föstudagskvöld verður uppákoma, líka í Mengi, þar sem fram kemur fjöldi innlendra rafrænna mynd- og tónlistarmanna. RAFLOST opnar á fimmtudagskvöldið kemur í Sölvhóli, tónleikasal Listaháskólans á horni Klapparstígs og Skúlagötu. Þar verða í boði veitingar og raflistaviðburðir af ýmsu tagi.
Heildardagskrána er að finna
hér.
Alex McLean að snarkóða.