María hefur um árabil verið virk í tónlistarlífi hér á landi. Hún flutti fyrir ekki svo löngu aftur á landsteinana eftir tónlistarnám erlendis en hefur verið fljót að láta til sín taka í íslensku tónlistarlífi með fjölmörgum tónleikum, bæði sem jazzsöngkona og í eigin verkefnum síðustu misseri.
María stundaði sína grunnskólagöngu í Garðabæ og steig sín fyrstu skref í tónlist í Skólakór Garðabæjar og í Tónistarskóla Garðabæjar. María lauk burtfarar- og kennaraprófi frá Tónlistarskóla FÍH 2008. Áður en hún hélt utan í frekara nám í tónlist starfaði hún hér á landi sem tónlistarkennari, stýrði og útsetti fyrir Gospelkór Jóns Vídalíns, Gospelkór Árbæjarkirkju og Sönghóp Garðaskóla. María söng um árabil með Gospelkór Reykjavíkur og kom þar fram margoft á stórtónleikum kórsins og í stærri verkefnum, meðal annars sem einsöngvari á stórtónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í Laugardalshöll 2006 og 2008.
Neðri röð frá vinstri: Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, María Magnúsdóttir bæjarlistamaður Garðabæjar 2018, Torfi Geir Símonarson fulltrúi í menningar- og safnanefnd Garðabæjar. Efri röð frá vinstri: Sigríður Finnbjörnsdóttir fulltrúi í menningar- og safnanefnd Garðabæjar, Gunnar Valur Gísllason formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar.
Á árunum 2011 – 2016 bjó María fyrst í Hollandi þarsem hún lauk Bachelor prófi í jazzsöng og tónsmíðum við Konunglega listaháskólann í Haag.. Eftir það lá leiðin til London þar sem María lauk gráðunni Master of Popular Music með áherslu á hljóðupptökur og tónsmíðar fyrir miðla.
María hefur komið víða við í tónlist, hefur starfað sem söngkona og flutt eigið efni og annarra síðan 2006. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2009 sem bar heitið Not Your Housewife. Platan kom út í sjálfstæðri útgáfu á Íslandi, tekin upp í samstarfi við Börk og Daða Birgisson. María samdi kórverkið Guðnýjarljóð við þrjú af ljóðum Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum fyrir Kvennakórinn Kötlu á haustmánuðum 2015 með styrk frá Tónskáldasjóði 365 og STEF, en verkið var frumflutt á Listasafni Íslands við hátíðlega athöfn í apríl 2016.
Lestu einnig: Þykir sláandi lík Saara Aalto:María flytur ábreiðu af Monsters
María er frábær jazzsöngkona og kemur reglulega fram ásamt jazzkvartett/kvintett. Hún hefur komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, jazzklúbb Múlans , tónleikaröð Jómfrúnnar og á Jazzhátíð Garðabæjar. María hefur síðustu ár samið og útsett orchestral-popptónlist undir listamannsheitinu MIMRA. Fyrsta plata MIMRU kom út í október 2017 og ber heitið Sinking Island. Platan er heildstætt verk út í gegn þar sem María er ekki eingöngu flytjandi og höfundur heldur sá einnig um upptökustjórn og hljóðhönnun. Framundan hjá Maríu er tónleikaferðalag um landið dagana 9.-21. júní næstkomandi.
María starfar nú á nýjan leik á Íslandi sem virk og skapandi tónlistarkona og sem söng- og lagasmíðakennari í Tónlistarskóla FÍH, Menntaskóla í Tónlist og við Listaháskóla Íslands.
Fylgjast má með MIMRU á heimasíðu hennar, Facebook og Instagram.