fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Týndi íslenski „költarinn“: Hvar er Blossafólkið í dag?

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 3. maí 2018 18:00

Blossi 3~Scream

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blossi 810551, pönkaða glæpagamanmyndin í leikstjórn Júlíusar Kemp, sýnir tvo unglinga í íslensku neyslu- og auglýsingasamfélagi, á flótta undan lífinu en í leit að skemmtun. Myndin varð tvítug á síðasta ári og hefur átt farsælt líf sem íslenskur „költari“ á liðnum árum, þrátt fyrir að erfitt sé að nálgast eintak af henni með löglegum hætti. Eina leiðin til að nálgast myndina í þokkalegum gæðum virðist vera að reyna komast yfir VHS-spólu, vonandi óslitna.

Heitustu aðdáendur Blossa hafa lengi krafist þess að myndin fái í það minnsta dreifingu á skjáleigum. Að því gefnu var stofnuð Facebook-síða sem nefnist „Við krefjumst þess að stórverkið Blossi verði gefin út á stafrænu formi“. Íslenskir kvikmyndaáhugamenn vitna margir í myndina enn í dag og hefur stuðningshópur hennar vaxið töluvert á ári hverju.

„Ísland á morgun“ fyrir 20 árum

Mörgum þykir nokkuð einkennilegt að Blossi hafi verið framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 1998. Myndin hlaut sæmilega aðsókn við frumsýningu en blendnar viðtökur áhorfenda. Myndin var þónokkuð vinsæl á myndbandaleigum og var tónlistarplata hennar afar umtöluð á sínum tíma, enda var þar að finna flott safn af smellum sem slógu í gegn. Þá tóku nokkrar af vinsælustu sveitum þjóðarinnar þátt í að skapa tónlist myndarinnar en í þeim hópi var að finna Quarashi, Botnleðju, Maus, Bang Gang og Sykurmolana.

Myndin var gefin út árið 1997 en gerist tæknilega séð í framtíðinni. Að sögn aðstandenda er sögusviðið „Ísland á morgun“. Við leggjum í ferðalag með eirðarlausum borgarbörnum þegar leiðir hinnar undurfögru Stellu og fíkilsins Robba liggja saman. Þau enda í hringferð um landið á stolnum bíl og við taka ýmiss konar uppákomur og samræður um allt milli himins og jarðar, eins og fyrirbærið „déjà vu“, einkamál, hvert heimurinn stefnir eða hvað gerist við myndun naflakusks.

Fólkið á bakvið Blossa:

JÚLÍUS KEMP- leikstjóri

„Hugmyndin var að gera mynd um X-kynslóðina sem við erum sjálfir hluti af,“ segir Júlíus Kemp í samtali við DV. „Okkur fannst sú kynslóð vera stefnulaus og almennt áhugalaus um flest allt nema kannski sjálfa sig.“

Áður en Júlíus lagði í Blossa hafði hann slegið í gegn með kvikmyndinni Veggfóður, sem hátt í 45 þúsund Íslendingar sáu árið 1992. Júlíus er í dag annar eigenda framleiðslufyrirtækisins Kisa, sem farið hefur um víðan völl frá stofnun þess árið 1991 og framleitt kvikmyndir á borð við Veggfóður, 101 Reykjavík, Íslenska drauminn, Astrópíu og Vonarstræti.

Hvað Blossa varðar segir Júlíus í samtali við DV að verkefnið hafi byrjað hjá félaga hans, Lars Emil Árnasyni, og handriti sem hann hafði unnið að. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en leikstjórinn segist þó ekki hafa horft á myndina í áraraðir.

„Ég horfði á hana síðast á frumsýningunni 1997. Það er nú þannig að frumsýningin er oftast síðasta skiptið sem leikstjórar horfa á verkin sín, fyrir utan kannski eina og eina sýningu á kvikmyndahátíðum erlendis, enda hafði ég þá séð hana minnst fimmtíu sinnum fram að því,“ bætir hann við.

Seinasta kvikmynd í leikstjórn Júlíusar var hrollvekjan Reykjavík Whale Watching Massacre frá 2009.

 

PÁLL BANINE – Robbi

Páll Banine lauk námi úr myndlistadeild Listaháskólans og var lengi þekktur sem söngvari hafnfirsku hljómsveitarinnar Bubbleflies. Páll var þáttakandi á Art Basel árið 2012 á vegum gallerís í Brussel. Páll mætti sem sérstakur heiðursgestur þegar Bíó Paradís tók upp á því að halda nokkrar sýningar á myndinni vorið 2016, en þá var myndin sýnd af filmueintaki. Páll hefur verið starfandi myndlistarmaður síðustu árin en mest erlendis.

 

ÞÓRA DUNGAL – Stella

Í myndinni leikur Þóra hina ævintýragjörnu Stellu. Þóra hefur starfað sem söngkona, leikkona og fyrirsæta og vakti mikla athygli þegar hún sat fyrir í tímaritinu Playboy árið 1998. Þóra hefur haldið sig frá sviðsljósinu síðustu árin.

 

FINNUR JÓHANNSSON – Úlfur

Líkt og hjá skjáparinu markaði Blossi fyrsta kvikmyndahlutverk Finns Jóhannssonar, sem leikur bráðláta eiturlyfjasalann Úlf. Finnur hefur unnið sem framleiðslustjóri og rekið erlendu deildina hjá SagaFilm og starfar í dag hjá True North. Hann hefur komið að fjölmörgum stórmyndum sem voru kvikmyndaðar hér á landi, til dæmis Prometheus, Fast & Furious 8, Justice League og undanförnum þremur Star Wars-myndum.

 

 

LARS EMIL ÁRNASON – handrit

Sagan segir að tilurð Blossa megi rekja til þess tíma þegar Lars Emil var grunnskólakennari í unglingadeild. Neistinn kviknaði þegar hann fór að skoða amerískar staðalmyndir þar sem allt snýst um útlit, frasa og tilgerð. Höfundurinn sá ekki aðeins um handritið að Blossa, heldur líka leikmynd, búninga og grafík. Lars skrifaði seinast sjónvarpsmyndina Ó blessuð vertu sumarsól sem sýnd var um páskana á RÚV árið 2014. Hann er þessa dagana búsettur í Reykjavík, starfar við skrif og handritsráðgjöf og er nú að undirbúa nýja sjónvarpsseríu sem til stendur að hann leikstýri.

 

 

Frasar úr Blossa:

„Það sem við þurfum að gera er að finna aðra plánetu og halda partíinu gangandi…“

„Lífið er pitsa … með engu nema sósu.“

„Heimurinn er í þenslu og tíminn og allt stefnir fram á við. Þú veist líka að eftir nokkur þúsund ár, mun heimurinn dragast saman aftur. Þá stöndum við alveg í sömu sporum.“

„Robbi, ég þekki þig og þínar hundakúnstir.“

„Áfengi, dóp, þetta er allt sama stöffið, mar!“

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt … kjark til að breyta því, sem ég get breytt … og vit til að greina þar á milli.“

„Það er örugglega búið að stela bensínstanknum, því tankurinn lekur.“

„Eru glasabörn með nafla?“

„Got the boogie!!“

„Það er sama hvað pappír er stór, það er bara hægt að brjóta hann sjö sinnum saman.“

 

Blossamolar

Með aukahlutverk í myndinni fara Sigurjón Kjartansson sem ferskur göngumaður, Hafís Huld í hlutverki pönkara og Gísli Rúnar Jónsson sem hinn dularfulli Rúnki. Vilhjálmi Árnasyni bregður líka fyrir sem svonefndri Stálmús og Erlingur Gíslason leikur vafasaman sölumann sem verður á vegi parsins.

Útvarpsraddir: Jón Gnarr, Svali Kaldalóns, Gunnlaugur Helgason og fleiri.

Blossi var gefin út eftir að sjö stafa símanúmer voru tekin upp á Íslandi. Fyrst myndin gerist í framtíðinni ætti raunheiti myndarinnar þá að vera „Sblossi – 5810551“ þar sem númerið vísar í heimasíma.

Í myndinni sést ekki í fyrsta staf Shell stöðvarinnar sem Robbi fer á. Tilviljun?

Bragi Þór Hinriksson, leikstjóri Sveppamyndanna og Vítis í Vestmannaeyjum, vann sem ljósamaður á Blossa.

DV sagði um myndina á sínum tíma:

„Á margan hátt minnir Blossi dálítið á Börn náttúrunnar, sem lýsir sams konar ráðvilltu ferðalagi um auðnir Íslands, nema nú eru það ekki gamalmenni í leit að bernskunni, heldur ungmenni í leit að einhverju til að hafast að … góð viðbót í íslenska kvikmyndasögu og menningarumræðu almennt.“ – Úlfhildur Dagsdóttir

Mogginn var ekki alveg jafn hrifinn:

„Blossi er köld mynd. Hún líður hjá sem falleg ímynd en skilur ekki mikið eftir, ekki ósvipað og auglýsing. – Anna Sveinbjarnardóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife