„Að vera í kór er erfitt að útskýra fyrir þeim sem ekki hafa prófað. Kórastarf er ekki bara söngur, heldur frábær leið til að fylla orkutankinn, bæta geðið, kynnast skemmtilegu fólki og bæta lífsgæðin,“ segja þær.
Þær leggja mikinn metnað í allt sem þær taka sér fyrir hendur, hvort sem það er söngdagskráin eða búningar fyrir árlega æfingahelgi og árshátíð sem ætíð eru haldnar samtímis með ákveðnu þema. Í ár var það Hollywood þema og mætti sjálfur Óskarinn á svæðið ásamt konum í pallíettukjólum, svanakjólum, persónum úr kvikmyndum, já og sjálfum forseta Bandaríkjanna, svo fátt eitt sé nefnt.
Konurnar í KveKó leggja mikinn metnað í æfingar og læra öll lög og texta utan að og syngja blaðlaust á öllum tónleikum og öðrum viðburðum sem þær taka þátt í. Að jafnaði æfa þær einu sinni í viku og svo eru tvær langar laugardagsæfingar á hverju misseri.
Þriggja landa ferð framundan í sumar
Í júní hyggst hópurinn bregða undir sig betri fætinum og fara í þriggja landa ferð til Ítalíu, Slóveníu og Króatíu. Þar verður að sjálfsögðu sungið við hvert tækifæri sem gefst, eins og KveKó er lagið og að sjálfsögðu keyptir varalitir og fleira til að gera sig sætari. Í síðustu utanlandsferð tæmdu þær nánast ónefnda snyrtivörubúð á Ítalíu, svo um var talað þar í einhvern tíma á eftir. Samkvæmt áræðanlegum heimildum var kórkonum kennt um lítið vöruúrval hálfum mánuði seinna þegar Íslendingar voru þar á ferð.
Þér gefst kostur á að uppfylla fjörið
Laugardaginn 5. maí næstkomandi ætlar kórinn að leyfa áheyrendum að njóta með sér góðrar kvöldstundar í veislusal Valsara í Hlíðarenda. Þar munu kórsystur syngja sín uppáhaldslög, bæði erlend og innlend, nýleg og ekki svo nýleg. Dagskráin verður brotin upp með óvæntum uppákomum þar sem meðal annars er hægt að freista gæfunnar með því að snúa lukkuhjóli. Einnig munu stakar kórkonur stíga út fyrir þann þægindaramma sem kórinn er og flytja lög einar og tvær saman.
Eftir söng og sprell, spilar húsbandið undir dansi fram á nótt. Húsið mun opna kl. 19 og dagskrá hefjast kl. 19:30. Nú er tækifæri til þess að upplifa stemmingu kórsins og mæta á fjöruga kvöldskemmtun þar sem gestir horfa ekki bara á, heldur taka þátt í gleðinni með kórkonum. Allar upplýsingar má finna í viðburði á Facebook.