Í dag kemur út bókin Gleðilega fæðingu, sem Tobba Marinósdóttir skrifar í samstarfi við Hildi Harðardóttur fæðingarlækni og Aðalbjörn Þorsteinsson gjörgæslu og svæfingarlækni.
Í bókinni er farið yfir það allra helsta sem þarf að hafa í huga þegar farið er á fæðingardeildina og er hún hugsuð sem uppflettirit fyrir verðandi foreldra.
Það eru þó ekki einu gleðitíðindin hjá Tobbu, því hún á sjálf von á sínu öðru barni með Karli Sigurðssyni, en fyrir eiga þau dótturina Regínu, sem verður fjögurra ára í júlí.
„Þessi bók tók rúmlega þrjú ár í skrifum og er því ekkert annað en stórkostleg. Enda eru Hildur og Alli meðal fremstu lækna landsins og í raun ekkert sem þau geta ekki svarað um þessi mál. Svo eru líka skemmtilega teikningar og skýringarmyndir í bókinni í bland við reynslusögur. Þetta er í raun eina bókin sem segir frá því sem gerist á fæðingarstofunni, hvaða valkosti hefur hin verðandi móðir og hvað í fjandanum er töng, hvernig virkar ferildeyfing og hvernig lýtur sogklukka út? Ég sjálf hafði aldrei komið inn á fæðingarstofu þegar ég var ólétt og sá í raun fyrir mér skilrúm milli rúma eins og ég hafði séð í sjónvarpinu,“ segir Tobba.
Útgáfuhófið bókarinnar er í dag kl. 17 og allir velkomnir. Fyrstu 50 barnshafandi konurnar sem mæta í boðið fá gjafapoka.
Viðburður á Facebook.