Allavega eftir Ernu Agnesi Sigurgeirsdóttur er persónuleg, berorð og grátbrosleg saga um unga konu sem glímir við að koma böndum á hugsun sína og líf. Hvernig er hægt að ná tökum á sjálfri sér? Niðurstaða hennar er sú að lykillinn að lífshamingjunni felist í því að vera góð manneskja. Allavega er ekki sjálfshjálparbók, ekki skáldsaga, og þó!
Tinder match eftir Hörð Andra Steingrímsson segir frá ungum háskólanema sem skráir sig með hálfum huga á stefnumótaforrit í símanum þar sem hann kemst í samband við stelpu. Samtal þeirra fer út um víðan völl, þenur út skilningarvit hans og kitlar tilfinningarnar, en ruglar hann líka í ríminu.
Undir yfirborðinu eftir Tönju Rasmussen fjallar um unga konu sem er laus úr ofbeldissambandi, en aðeins að nafninu til. Í huganum og í draumum sínum er hún ennþá föst og hefur verið brotin niður svo rækilega að hún getur ekki risið upp. Ekki fyrr en hún hleypir Övu inn í líf sitt.
Þetta er i fyrsta sinn sem Forlagið gefur út titla eingöngu í formi rafbóka. Allar bækurnar koma út sem rafbók sem fá má fyrir allar tegundir lesara, á vefverslun Forlagsins Amazon og öðrum stöðum þar sem rafbækur eru seldar.
Stefnt er að því að endurtaka leikinn í haust og gefa út fleiri nýjar raddir á rafrænu formi að ári.
Rafbókin hefur verið sækja í sig verðið hérlendis, fyrstu árin hægt og bítandi – en síðasta eitt og hálft ár hefur orðið gríðarmikil aukning í sölu þeirra. Hvað Forlagið varðar var 30% aukning í sölu rafbóka á árinu 2017 miðað við árið 2016. Aukningin hefur haldið áfram það sem af er þessu ári, til að mynda 47% söluaukning í janúar í ár miðað við janúar í fyrra. Rafbókasalan fer að langstærstum hluta gegnum vefverslun Forlagsins og Amazon (fyrir Kindle lesbrettin).