fbpx
Mánudagur 23.desember 2024

Rocky Horror Show: Frelsun eða fordjörfun?

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. mars 2018 19:59

Kynsegin kynsnillingur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram fjallar um sýningu Borgarleikhússins: ROCKY HORROR SHOW sem frumsýnt var 17. Mars

Höfundur: Richard O´Brian
Íslenskur texti: Bragi Valdimar Skúlason
Leikstjórn: Marta Nordal
Leikarar: Arnar Dan Kristjánsson, Björn Stefánsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir,  Páll Óskar Hjálmtýsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Valdimar Guðmundsson, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson
Danshöfundur: Lee Proud
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Filippía I. Elíasdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Leikgervi: Filippía I. Elíasdóttir og Elín S. Gísladóttir


Það var einhver óræð eftirvænting í loftinu þetta kvöld. Allir svo glaðir, brosandi út að eyrum, staðráðnir í að skemmta sér, sleppa fram af sér beislinu. Rocky Horror rétt ófæddur. Ég hafði ekki hugmynd um, hvað ég ætti í vændum – aldei séð Rocky Horror Show áður – believe it or not!

Ég bara man, að við vorum vöruð við þetta kvöld. Það gerði sögumaðurinn sjálfur (Valur Freyr Einarsson) í upphafi – skemmtilega stríðinn og gamansamur náungi, sem heldur utan um atburrðarásina. Hann sagði, að við værum hér á eigin ábyrgð. Of seint að iðrast eftir á. Við yrðum aldrei söm á ný . Þoriði? – Og hann horfði ögrandi út yfir salinn. En nú var of seint að snúa við. Gestir voru sestir. Það átti bara eftir að draga tjöldin frá.

Sætavísan (Brynhildur Guðjónsdóttir) var komin upp á svið, siðprúð og settleg í upphafi kvölds. Og sagði:

„Þið eruð komin á sjúskað sjabbi sjóv, sem veitir fró. Ooooó. Sykurhúðað sýrubað, sjabbí sjóv, þið fáið nóg. Ooooó. Og núna byrjar sumsé sjúskað sjabbi sjóv“.

Áhorfendur byrjuðu strax að klappa – og ekki nóg með það – þeir hrinu eins og graðfolar í ham – eða eigum við að segja hryssur í látum, ( því að konur voru líklega í meirihluta áhorfenda). Og þvílíkt sjóv! Drottinn minn dýri! Annað eins hefur aldrei sést – ekki á íslensku sviði, svo ég muni.

Safarík og sexí

Það var engu líkara en allir bestu listamenn þjóðarinnar hefðu lagst á eitt, allt frá leikmyndahönnuði, leikurum, dönsurum, ljósameistara, búningahönnuði, höfundum leikgerva, tónlistarstjóra, danshöfundi – og leikstjóra, Mörtu Nordal, sem tekst með ólýsanlegum göldrum og töfrum að laða fram það besta í hverjum og einum og skapa ógleymanlegan gjörning úr þessu“ sjúskaða sjabbí sjóvi“ – eins og sætavísan orðaði það. Nota bene: Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar er einstök. Hún er svo safarík og sexí, gamansöm og stríðin, að maður vill helst ekki missa af einu orði. Og það gerist heldur ekki að þessu sinni, því að allir leikendur eru með utanáliggjandi magnara, sem bera hvert orð og hverja (frygðar)stunu á öftustu bekki og svalir.

Hvað er þetta Rocky Horror Show annað en óður til kynlífsnautnarinnar? „Lifðu – ekki leynast“, gefðu tilfinningum þínum lausan tauminn. Ekki bæla niður náttúrulegar hvatir þínar. Ekki fara í felur með þitt innsta eðli. Lifðu – njóttu. Það eru skilaboðin. En er þetta ekki bara gamaldags „hedonismi“ – lífsnautnatilbeiðsla? Forn-Grikkir kunnu svo sem á þessu skil, þegar þeir þreyttust á rökræðum og raunhyggju. Endurómurinn frá erótískum Bakkusarblótum þeirra berst til okkur gegnum söguna. Og þá ekki síður Rómverjar á hnignunarskeiði sínu. Var ekki öllum gefinn laus taumurinn við hirð keisaranna? Og gegndi ekki sama máli um hirð frönsku konunganna fyrir byltinguna, þar sem hirðmeyjarnar voru eiginlega gleðikonur, sem gæddu sér á steiktum hrútspungum með kampavíninu til að örva kynhvötina?

Kannski er Rocky Horror Show eitt af mörgum sýnilegum táknmyndum um „Untergang des Abendlandes“ – hnignun vestrænnar siðmenningar. Þetta gilti jú um hina siðspilltu yfirstétt allra tíma. En nú er öllum almenningi boðið upp í dans líka. Hvað með Me-too byltinguna? Getur þessi vegsömun hins hömlulausa kynlífs í nafni frelsisins samræmst umvöndunum og ákærum Me-too hreyfingarinnar, í nafni siðgæðis og jafnréttis? Er ekki Hollywood-Weinstein sjálfur eins konar Rocky Horror?

Páll fer með himinskautum

Aðstandendur sýningarinnar segja, að verkið sæki sitt lítið af hverju til vísindaskáldskapar fyrir seinni heimsstyrjöld og til kynlífsbyltingar áranna upp úr 1960. Menn eru búnir að gleyma því, að kynvilla – eins og það hét – var skilgreind sem glæpsamlegt athæfi lögum samkvæmt og refsivert með margra ára tugthúsvist, ef upp komst. Það eru mörg þekkt dæmi um ýmsa höfuðsnillinga, sem máttu þola þau örlög að vera refsað fyrir kynhneigð sína og endað sitt líf í sjálfsmorði. Í Rocky Horror Show er hefðbundnum hlutverkum kynjanna vísað á bug. Janet (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) – umhverfist frá því að vera ósköp venjuleg og saklaus stúlkukind í bleiku og hvítu – litum hinnar óspjölluðu meyjar. Eftir ævintýri næturinnar í kastalanum birtist hún okkur í svörtu lífstykki lostaskvendis. Og eftir að Frank (Páll Óskar Hjálmtýsson) hefur flekað hana í skjóli nætur, og kennt henni á galdur kynlífsins, leitar hún sjálf eftir samræði við hinn íðilfagra Rocky (Arnar Dan Kristjánsson) til að svala kynlífsáfýsn sinni. Eiginmaðurinn Brad (Haraldur Ari Stefánsson) upplilfir ámóta lífsreynslu í örmum kynbróður síns.

Þórunn Arna og Haraldur Ari eru eins og fædd í hlutverk hjónaleysanna, svo innilega smáborgaraleg, saklaus og einlæg í upphafi. Samkvæmt Frank er þessi kynslífsupplifun frelsun frá helsi þrúgandi siðavendni og hræsni. Frank er hin tvíkynja ofur-glamúr rokkstjarna. Nærvera hans á sviðinu er allt um lykjandi. Hann er byltingarforinginn í kynlífsfrelsun sjöunda áratugarins. Og það má segja, að Páll Óskar fari með himinskautum í hlutverki ofur-glamúr rokkstjörnunnar. Maður skynjar bókstaflega á sínu eigin skinni, hvað honum finnst gaman. Hann nýtur þess að vaða um sviðið, lymskulegur, grannvaxinn og stæltur, með fullkomið vald yfir rödd og búk. Eins og reyndar verður sagt um alla aðra þátttakendur í þessu verki.

Fangar ástarinnar

Maður dáist að fagmennsku og leikgleði, sem er aðalsmerki þessarar sýningar. Enginn brotinn hlekkur.Dansatriðin eru mögnuð. Allir í góðu formi, ótrúlega fimir og músikalskir, dönsuðu eins og andinn blés þeim í brjóst – þokkafullar meyjar og fagurlimaðir drengir. Hver og einn státaði af litríku gervi og skemmtilegri persónusköpun. Og geðveikt flott voru þau Magenta (Brynhildur), Kólumbía (Vala Kristín Eiríksdóttir) og Riff Raff (Björn Stefánsson), sem öll hafa mikla útgeislun. Ekki má gleyma Arnari Dan, sem var bara hann sjálfur í hlutverki Rockys, fullkominn í nekt sinni, eða Eddie (Valdimar Guðmundssyni) og Dr. Edith Scott (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) ,sem komu bæði skemmtilega á óvart í litlum hlutverkum.

„Láttu þig falla í algjöran unað – Eldheitum nautnum þig gefðu á vald – Holdvotum draumum um munúð og munað – og martraðir fylltar af stunum og losta – Sérðu það ekki? – Ekki leynast – lifðu. Ekki leynast – lifðu. Ekki leynast – lifðu. Ekki leynast – lifðu……“

Það sem mér var efst í hua, þegar ég stóð upp í lokin, voru hugtök eins og fagmennska, glæsileiki, jafnræði, fegurð – já, jafnvel ást. Það var engu líkara en að allir þátttakendurnir í þessu „sjabbi sjóvi“ væru ástfangnir – fangnir af ást. Maður skynjaði hamingju þeirra langt út í sal, sæluhrollinn sem hríslaðist um örþreytta líkama eftir lostafulla nótt. Og það sama verður sagt um okkur, sem sátum úti í sal – eftirvæntingin var horfin, í staðinn var komin þægileg þreyta og notaleg værð í alsælu upplifunarinnar. „ Og svona endar þetta fremur sjabbí sjóv – Það er komið nóg – Oooooó… – Já, það er búið þetta sjúskaða sjabbí sjóv“.

P.s. Leikskráin undir stjórn Hafliða Arngrímssonar er svo efnismikil og ítarleg – skreytt myndum og frábærum þýðingum Braga Valdimars – að maður tímir ekki að leggja hana frá sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Furðulegt mál týnda þingmannsins sem fannst loks á heimili fyrir heilabilaða – Hvers vegna vissi enginn neitt?

Furðulegt mál týnda þingmannsins sem fannst loks á heimili fyrir heilabilaða – Hvers vegna vissi enginn neitt?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Glódís Perla og Orri Steinn knattspyrnufólk ársins

Glódís Perla og Orri Steinn knattspyrnufólk ársins
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Víkingur kaupir Stíg frá Ítalíu

Víkingur kaupir Stíg frá Ítalíu
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

FH-ingar að missa annan lykilmann

FH-ingar að missa annan lykilmann
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“