fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025

Fólkið í blokkinni

David Barreiro ljósmyndaði umhverfi og mannlíf löngu blokkarinnar í Efra-Breiðholti

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 11. mars 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breiðholtið var byggt á sjöunda og áttunda áratugnum út frá hugsjónum um byggingu ódýrs en góðs húsnæðis fyrir verka- og láglaunafólk í hinni ört stækkandi höfuðborg. Hugmyndirnar átti módernískur arkitektúr svo að gera að veruleika: nota til þess ný, ódýr byggingarefni, einföld form með engu óþarfa skrauti og gera einsleitar íbúðir sem hver íbúi átti þó að geta gert að sinni. Allir áttu skilið gott heimili og nútímalegur arkitektúr átti að sjá til þess.

Hverfið spratt ekki upp af sjálfu sér heldur var hver hluti þess skipulagður sem heild, út frá nýjustu hugmyndum um hvernig lífvænlegt umhverfi væri – með grænum svæðum og aðskilnaði gangandi vegfarenda og bílaumferðar. Eins og víða erlendis leiddu útópískar hugmyndir módernistanna um gott en ódýrt húsnæði fyrir láglaunafólk til mikillar samþjöppunar hinnar lægst settu í samfélaginu, láglaunafólks og innflytjenda.

Víða erlendis urðu hin nýju svæði að kaldranalegum blokkahverfum í ómanneskjulegum stærðarskala, þar sem ýmis félagsleg vandamál urðu áberandi. Þó að Efra-Breiðholtið og Fellahverfið hafi stundum haft slíkt orð á sér er hverfið langt frá því að vera eymdarlegt. Án vafa er þar fjölbreyttasta hverfi borgarinnar, fjölmenningarlegur suðupottur með ríkri menningu og auðugu samfélagi.

Þekktasta einstaka bygging hverfisins er 320 metra blokkarlengja með tuttugu stigaganga og 200 íbúðir sem tilheyra ýmist Iðufelli, Gyðufelli eða Fannarfelli – blokk sem er svo löng að hún er einfaldlega kölluð „langa blokkin“ en hefur einnig fengið viðurnefnið „langavitleysa“. Blokkin er fjölþjóðlegt samfélag – líklega býr þar fólk af fleiri þjóðernum en í flestum stærri bæjarfélögum landsins.

Spænski ljósmyndarinn David Barreiro hefur á undanförnum árum ljósmyndað löngu blokkina í Efra-Breiðholti að innan og utan, bæði bygginguna sjálfa og sál hennar – íbúana. Um þessar mundir eru ljósmyndirnar sýndar í Þjóðminjasafni Íslands, auk þess sem þær eru komnar út á bók sem gefin er út af safninu.

Eins og langur virkisveggur

„Ég hafði haft svolítinn áhuga á sögu og skipulagningu hverfisins sjálfs. En eftir að hafa heimsótt Breiðholtið og séð þessa byggingu fannst mér þetta miklu áhugaverðara,“ segir David sem hefur búið meira og minna á Íslandi undanfarinn áratug, en nú stundar hann framhaldsnám í ljósmyndum og listum við Royal College of Art í London.

„Það sem kveikti áhuga minn var í fyrsta lagi fagurfræði byggingarinnar sjálfrar. Hún er svo flöt en býr yfir svo miklu af mynstri – og svo er hún auðvitað svo ofboðslega löng,“ segir David.

Blokkin var byggð árið 1974 en hönnun hennar mótaðist meðal annars af þeirri staðreynd að gaflarnir voru dýrasti hluti hverrar byggingar og því var reynt að hafa sem fæsta gafla í öllu hverfinu. Blokkin er algjörlega án uppbrota. Frá norðurhliðinni, þar sem bílastæðin eru staðsett og gengið er inn í stigagangana, skapar þetta henni kalda og innilokandi ásýnd, hún er eins og virkisveggur sem lokar hverfið af og verndar frá bílaumferð.

Reynt er að brjóta upp virkisvegginn með því að mála hann í mismunandi litum, einn sterkan lit á hvern stigagang. „Ég held að blokkin hafi ekki verið máluð þessum litum fyrr en á tíunda áratugnum. Litirnir búa til ákveðinn breytileika í bygginguna sem hægt er að nota til viðmiðunar – ef hún væri öll hvít væri nánast erfitt að finna tiltekinn stigagang.“

Um þessar mundir sýnir spænski ljósmyndarinn myndir sínar af íbúum og umhverfi „löngu blokkarinnar“ í Efra-Breiðholti í Þjóðminjasafninu.

David Barreiro Um þessar mundir sýnir spænski ljósmyndarinn myndir sínar af íbúum og umhverfi „löngu blokkarinnar“ í Efra-Breiðholti í Þjóðminjasafninu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stýring og viðbragð

„Eftir að hafa skoðað framhliðina fór ég bak við og þá kom mér á óvart hvað bakhliðin var full af lífi, svalir íbúða voru svo ótrúlega ólíkar og það var augljóst að íbúar blokkarinnar voru virkilega fjölbreyttur hópur. Maður sér það meðal annars af því hvernig íbúðirnar eru skreyttar og upplýstar að flestir íbúanna hafa annan bakgrunn en íslenskan. Þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei séð áður í úthverfum Reykjavíkur, sem eru yfirleitt mjög einsleit,“ segir David.

Ein ástæðan fyrir hinni miklu lengd blokkarinnar og skorti á uppbroti í byggingunni er að markmiðið var að stýra umferð gangandi vegfarenda, en sunnan megin við blokkina er gangstígur í fjarlægð frá allri bílaumferð og leiðir hann alla íbúa hverfisins að gangbraut við Fellaskóla og tómstundasvæði hverfisins. Þetta er dæmi um hvernig borgarskipulag er notað til að reyna að stýra hegðun og hreyfingu fólks – en það er eitt af því sem David hafði áhuga á.

„Ég hugsaði svolítið um bygginguna eins og tæki ríkisvaldsins – ekki ósvipað skóla eða fangelsi – til að stýra fólki. Ég upplifði að það væri ákveðið vald fólgið í þessari byggingu. Það er verið að stýra fólki með nákvæmu skipulagi umhverfisins, hvernig sameiginleg rými eru nýtt og svo framvegis. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert var spennan milli þessarar virkni arkitektúrsins og svo fölbreytileika mannlífsins sem var svo mikill í blokkinni,“ segir hann, en bendir einnig á að andsvar við stýringunni birtist líka í fagurfræði umhverfisins.

„Eitt af því sem ég tók eftir var að í kringum alla bygginguna voru litlar rispur í byggingunni eins og fólk gengi framhjá henni með lyklana uppi og rispaði hana. Mér fannst þessi árásargirni í garð umhverfisins svolítið áhugaverð. Það er stundum talað um að fólk sem búi í svona umhverfi hafi mjög mótsagnakenndar tilfinningar til þess, fólk lætur reiði sína bitna á þeim sem þeir finnst vera að ráðast á sig – og ég held að umhverfið geti stundum gegnt því hlutverki.“

Mynd: Simone de Greef

Fjölþjóðlegt samfélag

Upphaflega tók hann bara myndir af byggingunni utan frá. En eftir að hafa hlotið styrk úr sjóði Hjálmars R. Bárðarsonar til að mynda hana jafnt að utan sem innan varð hann að reyna að kynnast fólkinu í blokkinni.

„Aðferðin var í raun einfaldlega að ganga um og taka myndir af húsinu. Oft var ég í raun bara að taka myndir til þess að skapa aðstæður þar sem fólk myndi nálgast mig. Ég var með stóra og frekar undarlega útlítandi myndavél og þegar maður er með svoleiðis græju veit maður að fólk mun verða forvitið og byrja að spyrja hvað maður sé að gera. Það er það sem gerðist,“ segir David.

„Þegar það var orðið of kalt til að hanga þarna fyrir utan að taka myndir í tíma og ótíma varð ég svo að finna aðrar leiðir til að nálgast fólk. Mér fannst of ágengt að hringja dyrabjöllunni hjá fólki eins og Vottar Jehóva. Ég prófaði að hringja í nokkra íbúa beint upp úr símaskránni en það gekk illa og eftir nokkur misheppnuð símtöl gafst ég upp á því. Þá reyndi ég að finna íbúa á samfélagsmiðlum og senda þeim skilaboð og það gekk betur.“

Íbúarnir sem David kynnist og fékk að ljósmynda voru með mjög mismunandi bakgrunn, áttu ættir að rekja til Víetnam, Filippseyja, Marokkó, Póllands og Serbíu svo eitthvað sé nefnt. Í stað þess að nálgast þá eins og hefðbundinn heimildaljósmyndari sem fær að fylgjast með fólki og taka myndir af því í raunverulegum aðstæðum ákvað David að setja upp aðstæður ásamt fyrirsætunum.

Mynd: David Barreiro

„Ég ákvað að notast ekki við mjög náttúrulegt umhverfi heldur fara í algjörlega andstæða átt. Myndirnar eru mjög uppsettar. Mér fannst verkið á margan hátt fjalla um sjálfsmynd fólks þannig að mér fannst áhugavert að hafa myndirnar svolítið skáldaðar. Hver maður er alltaf einhvers konar skáldskapur. Ég hef smám saman misst trúna á algjöra hlutlægni í ljósmyndun. Ljósmyndun er ekki góð leið til að segja sannleikann – en hún getur verið frábær til að tala um ýmis mál.“

David segir að þótt orðspor hverfisins hafi ekki alltaf verið gott hafi hann fundið fyrir samkennd og samfélagi meðal íbúanna, þvert á bakgrunn og menningarheima. „Auðvitað er fólk mikið í sambandi við annað fólk af sama þjóðerni, en mér sýnist samt vera frekar gott samfélag í hverjum stigagangi. Í gegnum eina manneskju fékk maður tengingu við aðra af öðru þjóðerni og svo framvegis,“ segir hann.

„Það sem mér sýnist hafa hvað mest áhrif á að fólk með ólíkan bakgrunn tengist og myndar raunverulegt samfélag eru börnin. Krakkarnir eru allir í sama skóla og eignast þar vini óháð uppruna foreldranna. Flestir krakkanna eru fæddir á Íslandi og velta ekkert mikið fyrir sér þessum mismun. Ég held að það séu fyrst og fremst börnin sem skapa samfélagið.“

Mynd: David Barreiro
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Segist hafa banað dóttur sinni af einskærum fíflagangi

Segist hafa banað dóttur sinni af einskærum fíflagangi
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Söðlar Garnacho um innan Englands?

Söðlar Garnacho um innan Englands?
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Solskjær búinn að landa nýju starfi

Solskjær búinn að landa nýju starfi
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“