Sigurður Guðjónsson verðlaunaður fyrir sýninguna Inniljós
Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson hlýtur Íslensku myndlistarverðlunin – sem voru afhent í fyrsta skipti í Listasafni Reykjavíkur á fimmtudag – og þar með nafnbótina Myndlistarmaður ársins. Auður Lóa Guðnadóttir hlaut hvatningaverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna.
Fjórir myndlistarmenn voru tilnefndir til verðlaunanna sem eru veitt íslenskum myndlistarmanni eða myndlistarmanni með búsetu á Íslandi sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðastliðnu myndlistarári. Sigurður hlýtur verðlaunin fyrir sýninguna Inniljós sem sett var upp í kappellu og líkhúsi St. Jósepsspítala. En í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að hann hljóti verðlaunin „fyrir ákaflega sterkar og heilsteyptar innsetningar á óvenjulegu sýningarsvæði í St. Jósefsspítala. Sýningin er sjónræn upplifun þar sem áhorfandinn verður meðvitaður um eigin tilvist og líkama. Verkin Fuser 2017, Scanner 2017 og Mirror Projector 2017 eru dularfull og voldug í senn og kalla fram óræða skynjun sem þó er full af vísunum í vélræna virkni.“ Verðlaunaféð sem Sigurður hlýtur er ein milljón króna.
Hvatningaverðlaunin og 500 þúsund króna verðlaunafé hlýtur Auður Lóa Guðnadóttir, en hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan þá verið virk í sýningarhaldi . Í rökstuðningi dómnefndar segir að Auður sé „óhrædd við að leita efniviðar á óvæntum stöðum og túlka viðfangsefni sín af innsæi og frumleika. Öll vinna hennar og framsetning leiftrar af hlýju og fyrirheitum um áframhaldandi hugmyndaflug og óvenjulega sýn á lífið.“
Það er Myndlistarráð sem stendur að verðlaununum og er tilgangurinn „að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi. Verðlaununum er ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og styðja við myndsköpun þeirra.“
Eftirfarandi aðilar sátu í dómnefnd verðlaunanna í ár: Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, myndlistarmaður (SÍM), Sigrún Hrólfsdóttir, deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, Magnús Gestsson, formaður Listfræðafélags Íslands, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, fulltrúi safnstjóra íslenskra safna og Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður Myndlistarráðs.