fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024

Vísindaskáldskapur eða raunveruleiki

Sjónvarpsþættirnir Black Mirror eru martraðakenndur vísindaskáldskapur sem fer ansi nærri raunveruleikanum – en hversu nálægt?

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 13. janúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Black Mirror birtist okkur oftar en ekki ógnvænleg en óþægilega raunsæ framtíðarsýn, hver þáttur er sjálfstæð saga sem veitir okkur leiftursýn inn í tiltölulega nálæga en tæknivæddari framtíð. Hver þáttur skartar mismunandi leikurum og leikstjóra, mismunandi umhverfi og gerist jafnvel í mismunandi sagnaheimi, en þættirnir eiga þó sitthvað sameiginleg.

„Þeir fjalla allir um það hvernig við lifum í dag – og það hvernig líf okkar gæti orðið eftir tíu mínútur ef við pössum okkur ekki,“ hefur maðurinn á bak við þættina sagt, breski sjónvarpsmaðurinn og ískaldhæðni samfélagsrýnirinn Charlie Brooker. Þættirnir vekja þannig upp spurningar og vara okkur við gagnrýnislausri nálgun á tækniþróun samtímans. Þeir byggja oft á raunverulegum tækjum og tækninýjungum sem gætu orðið ráðandi í heiminum á næstu árum og áratugum, en vara okkur við hvernig þau geta haft áhrif á okkur.

DV ákvað að taka saman þau tæknifyrirbæri sem nýjasta sería Black Mirror fjallar um og athuga hversu nálægt þættirnir fara veruleikanum. Í þeim tilgangi var rætt við þá Ólaf Andra Ragnarsson, aðjunkt í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, og Gunnlaug Reyni Sveinsson, ritstjóra Tæknivarpsins á Kjarnanum. Taka skal fram að samantektin er hvorki hávísindaleg né tæmandi. Við vörum við að greinin inniheldur mikilvægar upplýsingar um söguþráð þáttanna, „Spoiler alert!“


.
USS Callister .

Algjör sýndarveruleiki

Sería 04. Þáttur 01

Nafn: CSS Callister

Leikstjóri: Toby Haynes

Hér fylgjumst við með óframbærilegum tölvuleikjasmið sem er aðalforritari vinsæls fjölnotenda-nettölvuleiks (MMO), leikurinn er spilaður í háþróuðum sýndarveruleika í viðvarandi stafrænum heimi. Sýndarveruleikagræjan tengist inn í heila fólks og lætur því líða eins og það sé að upplifa heiminn í raun og veru. Forritarinn hefur svo notað heim leiksins sem grunn til að hanna sinn eigin einkaheim byggðan á gömlum sjónvarpsþáttum, sem minna meira en lítið á Star Trek. Þessi heimur er hýstur í einkatölvu hans, er ónettengdur svo enginn hefur aðgang nema hann sjálfur. Með því að ná í erfðaefni úr einstaklingum getur hann klónað þá stafrænt eða endurskapað inni í tölvuheiminum.

Orðið að veruleika:
Gunnlaugur Reynir Sveinsson, ritstjóri Tæknivarpsins á Kjarnanum, segir að þó að tenging tölvuleikja við heilann sé eflaust langt undan sé sýndarveruleikatæknin í þættinum alls ekki fjarri lagi: „Það eru til dæmis komnar græjur sem virka þannig að í stað þess að horfa á skjá er myndinni varpað á sjónhimnu sem gerir þetta mun raunverulegra. Það er líka verið að þróa hanska, peysur og alls konar hluti sem þú klæðir þig í og þú skynjar það sem gerist í sýndarveruleikanum. Meiri sýndarveruleiki er augljóslega á næsta leiti. Þetta er þannig tækni að þegar þetta er gert vel getur þú orðið algjörlega háður. Það sem þarf hins vegar að gerast næst er að tækin verði betri og ódýrari. Þá er ekkert ólíklegt að margir fari að lifa að stórum hluta í sýndarveruleika. Áhrif þess að lifa í sýndarheimi geta verið mjög mikil, við þekkjum þetta bara frá Eve Online sem er sýndarheimur þó það sé ekki sýndarveruleiki. Þú býrð til persónu sem nær árangri og það eru dæmi um að menn komi hingað á Fanfest og sé fagnað eins og rokkstjörnum, en fara svo bara aftur heim til Bandaríkjanna að vinna í einhverju þjónustufyrirtæki.“

Sýndarveruleikabúningur frá Nullspace VR gerir þér kleift að finna fyrir áhrifum úr sýndarveruleikanum á eigin skinni.
Stöðugt fullkomnari sýndarveruleiki Sýndarveruleikabúningur frá Nullspace VR gerir þér kleift að finna fyrir áhrifum úr sýndarveruleikanum á eigin skinni.

Mynd: J. Adam Fenster/University of Rochester

Fjarlæg framtíð:
En þó að tækni sem tengir sýndarveruleika inn í heilann sé kannski fjarlæg í augnablikinu bendir Ólafur Andri á að þetta geti vel orðið mögulegt í framtíðinni: „Skynfæri okkar nota rafefnaboð til að skynja og menn hafa verið að finna út hvernig þessar bylgjur hafa áhrif á þau. Heilinn er bara einhver efnasamsetning, flókið net margra tegunda fruma, og til að virkja hann eru rafboð að flæða um heilann. Þá geta menn ályktað að ef hægt er að herma eftir þessum rafefnaboðum, mætti þá búa til hugsanir eða myndir í heilanum. Eða jafnvel eins og í þessu dæmi fá menn til að vera í einhverjum sýndarveruleika. Ofskynjunarlyf fara langt með þetta en hugsanlega mætti líka nota tæki sem gefa rafboð frá sér, eins og lítið tæki sem sett er á gagnaugað. Sem dæmi þá hafa menn þróað gerviauga (e. bionic eye) sem notar myndavél til að taka myndir af raunveruleikanum og varpa þeim yfir í rafboð sem tengd eru við heilann.“

Mynd: Getty

Fjarstæðukennt:
Það sem er fjarstæðukenndast í þættinum er hvernig hægt er að klóna manneskjur inn í stafrænan heim með því einu að skanna erfðaefni þeirra, eða eins og Gunnlaugur orðar það: „Þarna eru heilar manneskjur klónaðar í tölvu bara út frá DNA í slefi þess. Ég er ekki viss um að þú getir fengið allar hugsanir manneskju, minningar og tilfinningar bara úr slefinu.“


.
Arkangel .

Njósnatæki í heila barns

Sería 04. Þáttur 02

Nafn: Arkangel

Leikstjóri: Jodie Foster

Hér er sögð saga af móður sem óttast að einkadóttir sín fari sér að voða í hinum hættulega heimi. Hún skráir dóttur sína í tilraunaverkefni þar sem tæki er komið fyrir í heila hennar með sprautu í gagnaugað. Í spjaldtölvu sem er tengd tækinu getur móðirin fylgst með staðsetningu dóttur sinnar og heilsu. Tækið getur líka miðlað því sem stúlkan sér og getur móðirin fylgst með því í tölvunni. Þá getur hún lokað fyrir skynrænt áreiti sem hún telur geta haft slæmt áhrif á hana – ógnir, klám, ofbeldi, blótsyrði og svo framvegis – þannig að þegar hún upplifir eitthvað slíkt gerir tækið það óskýrt og ógreinilegt í huga hennar.

Orðið að veruleika:
Þátturinn byggir nokkuð augljóslega á eftirlitstækni sem margir foreldrar í dag eru farnir að nýta sér til að fylgjast með og vernda börn sín. Þetta eru bæði GPS-armbandsúr (til dæmis frá Wonlex) sem gefa foreldrum upp nákvæma staðsetningu barns og eru með innbyggðum hljóðnemum sem gerir þeim kleift að hlusta og snjallsímaforrit á borð við Teensafe eða Mamabear. „Það er mjög einfalt í dag að láta barnið þitt fá snjallsíma og setja forrit í hann þannig að þú getur fylgst nákvæmlega með öllu því sem það gerir. Með því að hafa bakdyraleið inn í símann getur þú vitað mjög mikið um líf barnsins án þess að það viti. Ég held að þetta sé hættuleg slóð, þú opnir ýmsar ormagryfjur. Það getur orðið mikill trúnaðarbrestur því þú færð svo mikinn aðgang. Nú á ég 13 ára dóttur sjálfur og hún eyðir örugglega meiri tíma í að spjalla við vini sína á Instagram frekar en í eigin persónu. Svo er jafnvel til hugbúnaður þar sem þú getur kveikt á myndavélinni og hljóðnemanum í tækinu. Þetta er líklega sá þáttur sem er næstur okkur í tækni,“ segir Gunnlaugur Reynir.

Vinsæl armbandsúr gera foreldrum kleift að fylgjast nákvæmlega með staðsetningu barna sinna og hlusta á þau að þeim forspurðum.
Fylgst með börnunum Vinsæl armbandsúr gera foreldrum kleift að fylgjast nákvæmlega með staðsetningu barna sinna og hlusta á þau að þeim forspurðum.

Í náinni framtíð:
Næsta skref í þessa átt gæti verið að notast við snjalllinsur á borð við þær sem Google hefur verið að þróa undanfarin ár. Það er hins vegar umtalsvert flóknara að tengjast heilanum á þann hátt að tækið geti séð það sama og augu barnsins og svo miðlað því í spjaldtölvu. Möguleikinn gæti þó opnast fyrir slíkt með stórstígum framförum í því hvernig tölvur eiga í samskiptum við heila (e. brain-computer interfaces) en mikil þróun á sér stað á því sviði um þessar mundir. Ólafur Andri bendir á að ef þetta takist ætti ekki að vera mikið mál að ritskoða það sem barnið sér, enda geti gervigreind nú þegar greint inntak mynda í rauntíma: „Gervigreind getur í dag greint myndir og séð nákvæmlega hvað er á þeim. Það er til dæmis hægt að þekkja klám og blokka það út. Þetta meðal annars gert í vöfrum sem hægt er að stilla þannig að allt klám verði óaðgengilegt.“


.
Crocodile .

Minningar endursýndar

Sería 04. Þáttur 03

Nafn: Crocodile

Leikstjóri: John Hillcoat

Í þættinum Crocodile, sem er tekinn upp á Íslandi, er sögð saga af konu á flótta undan skuggalegri fortíð sinni. Hún neyðist til að takast á við fyrri gjörðir sínar eftir að hún verður lykilvitni að óhappi þar sem sjálfakandi pítsubökunarbíll slasar ungan mann. Í kjölfarið vill starfsmaður tryggingafélags fá aðgang að minningum hennar. Hún festir sérstakan tölvuhnapp við gagnauga konunnar og fær þar með aðgang að minningunum og færir yfir á sjónrænt og hljóðrænt form á skjá. Stundum er hins vegar betra að muna ekki.

Orðið að veruleika:
Sjálfakandi bílar eru auðvitað handan við hornið og ýmsar spurningar varðandi siðferðilega og fjárhagslega ábyrgð þegar þeir valda slysum hljóta að verða áberandi á næstu árum. „Þetta er mjög nálægt okkur í tíma, kannski bara 5 til 10 ár. Af hverju að vera með sendil frá Domino’s ef það er einhver róboti sem getur séð um það. Og þá er spurningin, hvernig höndlum við það ef þessi tæki verða völd að slysum,“ segir Gunnlaugur.

Aðeins tíu dögum eftir að sjálkeyrandi pítsasendillinn birtist í Black Mirror tilkynntu Pizza Hut og Toyota að fyrirtækin væru að vinna að því að þróa slíkt tæki.
Sjálfkeyrandi pítsasendill Aðeins tíu dögum eftir að sjálkeyrandi pítsasendillinn birtist í Black Mirror tilkynntu Pizza Hut og Toyota að fyrirtækin væru að vinna að því að þróa slíkt tæki.

Í náinni framtíð:
Það er eflaust umtalsvert lengra í að það komi fram tæki sem geta grafið upp minningar fólks en Ólafur Andri telur þó að það geti vel verið mögulegt í einhverri mynd í framtíðinni: „Nú þegar hefur verið þróuð tækni sem getur séð hvað fólk er að hugsa, þannig er hægt að taka upp drauma fólks og hugsanir.“

Það má ímynda sér að með þeirri tækni sem Ólafur nefnir og nú er verið að þróa við Kaliforníuháskóla í Berkeley þar sem vísindamönnum hefur tekist að varpa upp óskýrum myndum af hugsunum og draumum fólks geti verið hægt að miðla myndrænt þeim minningum sem rifjaðar eru upp. En hvort minningarnar sjálfar séu svo áreiðanlegar er svo önnur spurning: „Heilinn er óáreiðanlegur með minningar og þær breytast með tímanum, eru varla staðreyndir þegar frá líður. Það mætti hins vegar hugsa sér tæki í framtíðinni sem komið er fyrir í heilanum sem „tekur upp“ allar hugsanir og sendir í skýjalausn til varðveislu. Þá gæti maður skoðað líf sitt aftur í tímann. Ef hægt væri að geyma líka stöðu rafboða sem framleiða tilfinningar, þá mætti líka endurskapa tilfinningar, til dæmis vellíðan eða upplifun á ást eða sorg.“

Vísindamönnum við Berkeley-háskóla hefur tekist að endurskapa myndir af því sem einstaklingar eru að horfa á með því einu að rýna í taugaboðin í heilanum.
Myndir af hugsunum Vísindamönnum við Berkeley-háskóla hefur tekist að endurskapa myndir af því sem einstaklingar eru að horfa á með því einu að rýna í taugaboðin í heilanum.

.
Hang the DJ .

Ástin reiknuð út

Sería 04. Þáttur 04

Nafn: Hang the DJ

Leikstjóri: Tim Van Patten

Í þessum þætti erum við stödd í framandlegum afgirtum heimi þangað sem einstaklingar fara til að finna sér maka. Við erum stödd inni í stefnumótaforriti. Einum á eftir öðrum er einstaklingum úthlutað tímabundnum mökum til prufu, en loforðið felst í því að forritið reikni að lokum út hinn fullkomna maka og pari rétta fólkið saman. Stefnumótaforritið er sagt reikna út með 99,8 prósenta nákvæmni hvort tveir einstaklingar eigi saman.

Stefnumótaforritið Belong notar algóryþma til að reikna út hver sé líklegastur til að henta þér sem maki.
Hjálp með makavalið Stefnumótaforritið Belong notar algóryþma til að reikna út hver sé líklegastur til að henta þér sem maki.

Orðið að veruleika:
Ólafur Andri bendir á að stefnumótaforrit á borð við þetta séu nú þegar komin fram: „Belong er til dæmis stefnumótaapp sem notar gervigreind til að para saman einstaklinga.“

Úr öllu því upplýsingamagni sem við skiljum eftir okkur sé hægt að greina hver við erum og jafnvel spá fyrir um hegðun okkar og langanir betur en við sjálf gætum gert. „Facebook gerði könnun um persónuleika fólks byggða á „likes.“ 86.220 sjálfboðaliðar tóku persónuleikaprófið. Facebook tók prófið líka fyrir þá og notaði þá „like“ sögu þeirra, hvaða síður þeir fóru á og hvaða myndir voru skoðaðar og áframsendar og svo framvegis. Niðurstöðurnar voru að algóryþminn þurfti aðeins 10 like til að vera nákvæmari en vinnufélagi, 70 like til að vera nákvæmari en vinur, 150 fyrir fjölskyldu og 300 fyrir maka. Sem sagt, Facebook veit meira um þig en makinn, fjölskyldan og allir sem þú þekkir. Í næstu kosningum ættum við að láta Facebook bara kjósa fyrir okkur.“

Ómögulegt:
Ólafur Andri og Gunnlaugur álíta þó báðir að erfitt sé fyrir forrit að sjá algjörlega um makavalið fyrir okkur enda sé það ekki endilega rökleg og útreiknanleg ákvörðun þegar maki er valinn. „Ég held að þetta sé eins og með alla svona útreikninga, það vanti alltaf þennan tilfinningalega mannlega þátt,“ segir Gunnlaugur.

„Þegar við veljum eitthvað er það ekki bara byggt á skynsemi eða rökum heldur bara þeim tilfinningum sem við upplifum á þeim tímapunkti.“


.
Metalhead .

Vélhundar taka yfir

Sería 04. Þáttur 05

Nafn: Metalhead

Leikstjóri: David Slade

Í þessum þætti erum við stödd í tómlegum, eftir-heimsendalegum heimi. Svo virðist vera sem mannkynið hafi misst stjórn á ógnvænlega harðgerum og vopnuðum öryggisvélhundum sem eiga í samskiptum sín á milli og hundelta allar manneskjur sem þeir finna.

Orðið að veruleika:
Það er ekki laust við að það fari um mann hrollur þegar maður ber vélhundana í þessum þætti saman við vélhunda sem fyrirtækið Boston Dynamics hefur þróað. Myndbönd af hundunum sýna þá hlaupa, halda jafnvægi þrátt fyrir þung högg og jafnvel nota sérstakan arm til að setja í uppþvottavél. „Þeirra hugmynd er að hanna vélar sem geta farið yfir erfitt landslag og þurfa ekki vegi. Slíkt gæti nýst í alls kyns aðstæðum eins og fjallgöngu, leitum, eða hernaði,“ segir Ólafur. „Tækni til að láta vélmenni tala saman er líka komin og notuð. Þannig gæti gervigreind stýrt fjöldanum öllum af vélhundum. Slík gervigreind veit á hverri sekúndu hvar hver hundur er og á hve miklum hraða. Þá veit hún hvar fórnarlambið er og getur leiðbeint þessum vélhundum í rauntíma í að ná bráð sinni.“

Í náinni framtíð:
Enn sem komið er vandamálið við hin ýmsu vélmenni hins vegar hvað líftími rafhlaðanna er stuttur, en að þessu er gert nokkuð grín í þættinum. „Það fer svo rosaleg orka í þetta, og það er kannski ástæðan fyrir því að vélmennin hafa enn ekki gert neitt af viti og demóin sem Boston Dynamics sýnir eru bara örfáar mínútur,“ segir Ólafur.

Spotmini er nýjasti vélhundurinn frá Boston Dynamics, fyrirtæki sem tekst stöðugt að koma fólki á óvart með ótrúlegum róbotum.
Snati litli Spotmini er nýjasti vélhundurinn frá Boston Dynamics, fyrirtæki sem tekst stöðugt að koma fólki á óvart með ótrúlegum róbotum.

Mynd: Boston Dynamics


.
Black Museum .

Meðvitundin lifir áfram

Sería 04. Þáttur 06

Nafn: Black Museum

Leikstjóri: Colm McCarthy

Í síðasta þætti seríunnar eru sagðar nokkrar samtengdar sögur sem snúa að huganum og meðvitundinni. Í einni er sagt frá mistækum lækni sem fær heilaígræðslu sem er tengd við skynjara sem eru settir á höfuð sjúklinga, og gera honum þannig kleift að finna sársauka sambærilegan við þann sem sjúklingar hans upplifa. Í öðrum hluta sögunnar er það ung móðir sem lendir í dái en hugurinn starfar enn. Með nýstárlegri tækni er hægt að hlaða niður huga hennar og koma fyrir í öðrum líkama. Þriðja sagan fjallar svo einnig um meðvitundina, en þar er það fangi á dauðadeild sem selur huga sinn að aftöku lokinni til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Huganum er hlaðið niður og hann tengdur við heilmynd (e. hologram) af manninum, og er hafður til sýnis í safni. Þar geta gestir svo gerst böðlar og sett fangann í rafmagnsstólinn aftur og aftur.

Fjarlæg framtíð eða ómögulegt:
Það er óhætt að segja að enn sem komið er sé þetta fjarstæðukenndasti þátturinn þó að framtíðarspámenn á borð við Ray Kurzweil og Michio Kaku telji að einn daginn verði hægt að hlaða niður huga fólks og færa milli líkama. „Það er rosalega lítið vitað í dag hvað meðvitundin er, það er hvernig hún virkar. Samkvæmt því sem menn halda þá er meðvitund sköpuð af viðbrögðum við rafefnaboðum í heilanum. Hugsanlega mætti mæla þessi boð og endurgera þau. Ég held að rannsóknir á þessu séu stutt komnar þótt „brain-computer interfaces“ sé mjög áhugavert sem vaxandi fræðigrein,“ segir Ólafur.

Hann bendir líka á að menn séu farnir að þróa gervigreind sem hagar sér eins og ákveðinn einstaklingur, safna miklu magni upplýsinga um hvað hann segir, hvernig hann talar og svo framvegis. Síðan er hægt að eiga í samskiptum við gervigreind sem líkir eftir einstaklingnum – hvenær gervigreindin hættir að haga sér eins og einstaklingurinn og fer að upplifa sig sem þennan einstakling er svo önnur og heimspekilegri spurning.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Juventus byrjað að eltast við leikmann United – Vilja hann á láni í janúar

Juventus byrjað að eltast við leikmann United – Vilja hann á láni í janúar
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Áður heilsuhraustur unglingur þungt haldinn vegna fuglaflensu

Áður heilsuhraustur unglingur þungt haldinn vegna fuglaflensu