Jóhann Helgi Heiðdal, heimspekingur, gerir upp menningarárið 2017
Í menningarannál ársins 2017 sem birtist í áramótablaði DV verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2017 og greina stöðuna í menningunni í árslok.
Heimspekingur
Hvað var eftirminnilegasta listaverk eða menningarafurð ársins 2017?
Nú veit ég ekki hvort hún teljist með, hún kom raunar út alveg í lok 2016. En sáu hana ekki langflestir á þessu ári? Ég man ekki eftir neinni umræðu um hana á síðasta ári. Ég myndi allavega vilja segja Hjartasteinn. Hún brýtur svo sem ekki nein blöð í frumleika, og er einnig aðeins of löng miðað við efnið. En magnaður leikurinn er mjög eftirminnilegur, ásamt fallegri myndatöku. Frábær notkun á íslenskri tónlist einnig. Þetta er auðvitað að verða mjög þreytt í íslenskri kvikmyndagerð: allar þessar myndir um vesælt líf í íslenskum sjávarþorpum. En Hjartasteinn gerir það mjög vel og er kannski sú besta af þeim myndum.
Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu (gott eða slæmt, viðburður, atvik, bransafrétt, trend, nýliði, listræn átök, menningarpólitísk ákvörðun eða hvað sem þér dettur í hug)?
Í framhaldi af þessu um íslenskar kvikmyndir þá myndi ég vilja nefna Undir trénu. Nú er sú mynd langt frá því að vera gallalaus (hvað er með þennan endir?). En ég var samt virkilega ánægður með hana þar sem hún prófaði þó að gera eitthvað nýtt. Það heppnaðist þó ekki alveg, en það er samt sem áður margt áhugavert í henni. Ég myndi vilja sjá fleiri svona tilraunir. Annars sá ég líka alveg magnaða stuttmynd á árinu, Atelier eftir Elsu Maríu Jakobsdóttir. Það er leikstjóri til að fylgjast með.
Í bókmenntunum á ég eftir að lesa mikið. Myndi samt vilja nefna Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl. Ég les vanalega lítið af ljóðabókum, en sú samfélagsgagnrýni sem hann reiðir þar fram í gegnum afbyggingu tungumálsins og orðræðunnar er mjög kröftug og eftirminnileg. Mér fannst þetta annars vera óvenju sterkt ár með tilliti til þýðinga. Ekki aðeins á samtímahöfundum eins og Juan Pablo Villalobos, Ko Un, Margaret Atwood og nýlegri verkum eins og eftir Sergej Dovlatov, heldur sérstaklega á heimsbókmenntunum: Henry David Thoreau, Virginia Woolf, Herman Melville, Vladimir Nabokov, Seneca, rússneskar smásögur og fleiri. Þetta er alveg til fyrirmyndar.
Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2017?
Sjálfhverfan. Hún verður bara verri og verri og því mætti segja að hvert einasta ár sé sjálfhverfasta árið. Hún birtist með ýmsum hætti. Samskiptamiðlarnir auðvitað, en nóg hefur verið rætt um þá. Vægi sjónvarpsþátta einnig sem verður sífellt meira. Nú er svo komið að fólk er ekki einungis hætt að lesa bækur heldur eru kvikmyndirnar einnig farnar að vera í hættu. Fólk er farið að hætta að fara í bíó og upplifa kvikmyndir í sameiningu og því hafa þær ekki nánast sömu stöðu í menningunni lengur. Það er þá kannski einhver sjónarspil eins og Star Wars í mesta lagi. Fólk er farið að kjósa að horfa á sjónvarpsþætti í einrúmi meira og meira. Nú er ég ekkert alfarið á móti sjónvarpsþáttum, margir eru mjög góðir (Twin Peaks voru alveg hreint magnaðir), en þetta er uggvænleg þróun fyrir menninguna, að hún upplifi ekkert í sameiningu lengur. Hvar á þetta eftir að enda?
Ef það er þá svo gott reyndar. Nú sjáum við einnig til dæmis upprisu Snapchat stjarna. Nú er ég ekki með Snapchat, en það sem ég hef kynnt mér af þessu hræðir mig.
Alexander Roberts, sviðslistamaður
Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld
Birta Guðjónsdóttir, myndlistarmaður og sýningastjóri
Brynja Pétursdóttir, danskennari
Dýrfinna Benita (Countess Malaise), tónlistar- og myndlistarkona
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA
Guðni Valberg, arkitekt
Jóhann Helgi Heiðdal, heimspekingur
Jóhannes Gunnar Þorsteinsson, tölvuleikjasmiður og tónlistarmaður
María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri HA magasín
Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og leikhúsgagnrýnandi
Sjón, rithöfundur
Stefán Baldursson, leikstjóri
Yean Fee Quay, sýningastjóri