fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Sá hluti sem enginn ætti að þurfa að sjá

Hreistur er ný ljóðabók eftir Bubba Morthens – Fjallar um verbúðarlíf

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 19. september 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hreistur er ný ljóðabók eftir Bubba Morthens og þar fjallar hann um verbúðarlíf, sem hann þekkir vel af eigin raun. Hann er fyrst spurður hvort hann hafi lengi haft þörf fyrir að lýsa verbúðarlífi og greina það.

„Já, undanfarin ár hef ég verið að lesa minningabækur fólks sem fæddist um og eftir miðja 19. öldina. Sú seinasta sem ég las var Í verum eftir Theódór Friðriksson. Það sló mig að enginn hefur skrifað um þennan heim farandverkafólks og verbúðarlíf síðan þá – að ég held,“ segir hann.

„Ég var búinn að vinna heilan ljóðabálk um allt annað efni þegar Silja Aðalsteinsdóttir sá brot úr þessum bálki og benti mér á að ég yrði að ljúka við hann því hann fjallaði um horfinn heim. Þessi bálkur gæti því orðið eins konar minnisvarði. Þegar ég gerðist farandverkamaður var ég í hópi þúsunda manna og kvenna sem höfðu öld eftir öld arkað milli verstöðva. Ég var ekki í vistarböndum, en ég vann með háöldruðum karlmönnum sem höfðu átt foreldra sem höfðu verið í vistarböndum.“

Í ljóðabókinni er tilvitnun í Þorpið eftir Jón úr Vör: „En Þorpið fer með þér alla leið“. Það er engin tilviljun að þessi tilvitnun varð fyrir valinu. Við lestur ljóðabókar Bubba er ljóst að verbúðarárin hafa fylgt honum, rétt eins og þorpið fylgdi alltaf Jóni úr Vör. Bubbi segist hafa mikið dálæti á Þorpinu: „Jón úr Vör fjallar þar um æskuþorpið sitt og fólkið þar. Þorpið er að mínu mati vanmetin ljóðabók. Þorpið finnst mér á pari við það besta og á heima í sömu hillu og verk Hannesar Sigfússonar, Sigfúsar Daðasonar og Steins Steinars. Mér hefur alltaf þótt Þorpið vanmetin ljóðabók. Ég held að hún hafi liðið fyrir það að mönnum fannst hún ekki nógu mikill T.S. Eliot.“

Massíf óreiðusinfónía

Heimur verbúðarinnar eins og þú lýsir honum í bókinni er ansi nöturlegur.

„Já, og hann var það. Ég var sextán ára og lífið skolaði mér á stað þar sem ægði saman alls konar fólki. Þarna voru alkóhólistar, fólk sem hafði tapað í lífsbaráttunni og átti hvergi heima nema á verbúð. Síðan voru þarna krakkar sem höfðu orðið undir í skólakerfinu, komu frá ónýtum heimilum og höfðu kynnst ofbeldisveröld. Þarna voru líka frískir skólakrakkar sem komu frá betri heimilum og voru að ná sér í pening. Líka erlent fólk sem kom og kynntist Íslandi í gegnum verbúðarlífið. Svo var hópurinn sem ég tilheyrði, ungt fólk sem fór frá einni verstöð til annarrar.

Í verbúðunum var reynt að búa til heimilisbrag. Það voru sett upp plaköt af Bob Dylan, Maó, Che Guevera og John Lennon. Stelpurnar höfðu dúka á trékössum og þarna voru reykelsi, kerti og rökkurljós. Um helgar var spiluð tónlist: Deep Purple í herbergi 14, Led Zeppelin í herbergi 8, Leonard Cohen í herbergi 11. Þetta var massíf óreiðusinfónía, öskur og læti.

Þetta var sérstakur heimur og þar var líka fullt af fegurð. Ungt fólk var að kynnast og ástin var í loftinu. Ég hef hitt fólk sem var mér á verbúð sem kynntist sextán, sautján ára, tók saman og eignaðist börn og buru og er enn saman í dag.“

„Þeir komu og fóru“

Í bókinni dregur Bubbi upp sterkar og áhrifamiklar myndir, margar fallegar en sumar ógnvekjandi eins og lýsingar á ofbeldi. Í einu ljóði stendur:

Þeir komu og fóru
dyrnar hálfopnar inn
þú sást hvað þeir gerðu við hana
hún reis upp til hálfs hún sá þig
augu hennar sitja föst í brjósti þínu enn í dag

Spurður um þetta atvik segir Bubbi: „Þetta var í kringum 1974. Ég var inni í herbergi þar sem var verið að drekka og og sá inn í hálfopið herbergi beint á móti þar sem líka var verið að drekka. Ég var með gítar og söng og hreyfði höfuðið til hálfs. Allt í einu sá ég stelpuandlit rísa upp á móti mér hinum megin á ganginum. Ég náði augnsambandi við stúlkuna og sá hvað var að gerast en hafði ekki burði eða getu til að bregðast við. Það var bara haldið áfram að drekka og syngja. Þessi mynd hefur sótti á mig hvað eftir annað.

Í verbúð var ofbeldi í öllum myndum. Þar var mjög algengt að sjá menn slást. Menn gerðu sér jafnvel sérstaka ferð í verbúðina til að slást þar við menn. Það var mjög algengt að stelpum væri misþyrmt. Ég sá stelpur slegnar niður af mönnum í ölæði. Þetta var ekki einskorðað við einn stað, ég sá þetta á fleiri stöðum. Ég sá hluti sem enginn ætti að þurfa að sjá.

Frá árunum 1973–79 þá man ég skýrt eftir þremur atvikum þar sem ég varð vitni að grófu ofbeldi. Ofbeldi og drykkja var hluti af tíðarandanum og telst ekki lengur vera í norminu en viðgengst áfram. Það er stöðugt ofbeldi gagnvart konum og stanslaust ofbeldi í hörðum heimi neyslunnar og undirheimum Reykjavíkur. Það er hins vegar ekki algengt nema þegar kemur að heimilisofbeldi að ungt fólk verði vitni að því.“

Myndir koma

Lesandi ljóðabókarinnar hlýtur að sogast inn í heim hennar og verða fyrir áhrifum af hinu sterka myndmáli. „Þetta er ekki heimur sem ég er að skoða utan frá, þetta er nokkuð sem ég lifði,“ segir Bubbi. „Myndir koma til mín en svo er misjafnt hvernig ég set þær í form.“ Hann tekur dæmi um ljóð númer 16 í bókinni sem hefst á orðunum: líkkistan kemur útúr hvítri þokunni. „Það ljóð er byggt á atburði sem gerðist á Bolungarvík. Maður sem var þar í áhöfn, og ég vann með, sagði mér þá sögu.

Þegar upp er staðið eru allir að segja sögur. Þjóðfélagið er fullt af sögum. Ég er að segja þessa sögu og ég lifði hana, hrærðist í henni og hún mótaði mig. Í huga mínum sé ég myndir sem ég tek og set í þannig form að lesandinn sér einnig myndir.“

Hreistur er önnur ljóðabók Bubba. Sú fyrsta Öskraðu gat á myrkrið kom út árið 2015. „Öskraðu gat á myrkrið er endir á ákveðnu tímabili þar sem ég steig inn í normalheim. Hreistur fjallar um unglingsárin. Þá er aðeins bernskan eftir og mjög líklega mun ég yrkja um hana,“ segir hann.

Að lokum er hann spurður um ljóðabálkinn sem hann nefndi í upphafi viðtals en lagði frá sér til að ljúka við Hreistur. „Sá ljóðabálkur, sem ég á aðeins eftir að fínpússa, fjallar um heim flóttafólks sem kemur til Íslands og þær móttökur sem það fær,“ segir Bubbi. Það er því ljóst að fleiri ljóðabækur frá honum eru væntanlegar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Grátbiðja bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að endurskoða áform sín

Grátbiðja bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að endurskoða áform sín
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Ljósmyndavél Útlendingastofnunar „flóknasta maskína landsins“

Ljósmyndavél Útlendingastofnunar „flóknasta maskína landsins“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Slot annar í sögunni til að takast þetta

Slot annar í sögunni til að takast þetta
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Fólk trúir ekki að hann hafi gert þetta á innsetningarhátíð Trump – Sjáðu myndbandið

Fólk trúir ekki að hann hafi gert þetta á innsetningarhátíð Trump – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Óhugnaður í Grafarvogslaug – Meintur barnaníðingur ákærður

Óhugnaður í Grafarvogslaug – Meintur barnaníðingur ákærður
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

María Rut skammar fyrri ríkisstjórn – „Ákvörðunin þegar haft í för með sér afbókanir og fjárhagslegt tjón“

María Rut skammar fyrri ríkisstjórn – „Ákvörðunin þegar haft í för með sér afbókanir og fjárhagslegt tjón“
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum
Aftur sektaðir af KSÍ