Bíódómur: The Hitman´s Bodyguard
Kvikmyndin The Hitman´s Bodyguard fjallar um lífvörðinn Michael Bryce, leikinn af Ryan Reynolds, en Bryce hefur átt betri daga. Í byrjun myndarinnar klúðrar hann verki, sem veldur því að hann tapar öllu sem hann á. Tveimur árum síðar fær hann símtal um nýtt starf, að vernda leigumorðingjann Darius Kincaid, leikinn af Samuel L. Jackson, og koma honum heilum á húfi frá London til Haag þar sem leigumorðinginn er lykilvitni stríðsglæpadómstólsins gegn einræðisherra Hvíta-Rússlands, Vladislav Dukhovich, leikinn af Gary Oldman. Hljómar einfalt ekki satt?
Þegar fundum þeirra félaga ber saman byrjar fjörið, því þeir eiga sér báðir fortíð saman og við tekur hrein rússibanareið og því betra að spenna bara beltin og maula poppkornið hratt.
Bæði Reynolds og Jackson hafa átt brokkgengan feril í bransanum, Reynolds hefur svona verið „sæti gaurinn“ sem lítið reynir á og Jackson átt sinn frasa „mother fuc….“ endalaust í öllum myndum. Stundum eru þeir frábærir, stundum bara svona „lala.“ Reynolds, nýlega kominn á fimmtugsaldurinn, er loksins kominn í þann gír að maður bíður spenntur eftir mynd með honum, Deadpool 2. Ég get ekki sagt það sama með Jackson og man varla einu sinni hvaða mynd hann var í síðast. Eins og áður sagði hann er einhvern veginn alltaf eins, með blótfrasann sinn í bakpokanum.
Gary Oldman á engan stórleik sem vondi gaurinn, en er samt nógu vondur til að maður vonar að hann fái bara sem fyrst að gjalda fyrir glæpi sína. Salma Hayek á svo skemmtilegar, mis tilþrifamiklar innkomur, sem eiginkona Kincaid. En hún og prinsipregla Kincaid: „með 250 leigumorð á samviskunni, drepur hann bara vonda gaura,“ eru ástæða þess að hann vill bera vitni.
Handrit Tom O´Connor var upphaflega skrifað sem drama, en á tveimur vikum sléttum var því breytt yfir í grín og er sú vending pottþétt betri, því Reynolds og Jackson ná bara nokkuð vel saman í gríninu, á milli þess sem þeir hata hvor annan eða berjast við glæpamennina, sem vilja þá feiga.
Fjöldi mynda hafa verið kvikmyndaðar um félagasamband tveggja ólíkra einstaklinga, myndirnar Lethal Weapon ber líklega þar hæst, bæði í vinsældum og leik aðalleikara. The Hitman´s Bodyquard er alls ekki sú besta í þessum geira, en alls ekki sú versta heldur. Hún nær að lenda vel fyrir ofan miðju. Félagarnir henda frá sér frösum hægri vinstri og maður skellti margoft upp úr, það er líka kostur að vera á mynd, þar sem að maður er ekki búin að sjá alla brandarana í stiklunni. Jackson stendur sig meira að segja svo vel í gríninu að hann gleymir að haltra í sumum atriðum.
Tónlistin er eitthvað sem minnast má á, en fjöldi þekktra laga er notaður til að auka á stemninguna og/eða hraðann. Lag Lionel Richie, Hello, fær til dæmis alveg nýjan vinkil hér. Og maður stóð sig oft að því að slá taktinn með, svona eins og til að keyra með því bílana hraðar áfram.
Niðurstaða: Galsafengin grínrússíbanareið sem skemmtir þér konunglega eina kvöldstund, en skilur kannski ekki mikið eftir sig.
Kvikmyndin The Hitman´s Bodyguard er komin í sýningar í Sambíóunum.