fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Augnablik óvissunnar

Fjöldi bóka kemur út á aldarafmæli rússnesku byltingarinnar – Einhver áhrifamesti atburður í sögu nútímans

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 15. ágúst 2017 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússneska byltingin er líklega einhver áhrifamesti atburður í sögu nútímans. Þegar um hann er rætt er það skiljanlega oft það sem af honum leiddi sem lögð er mest áherslu á: borgarastríð, ráðstjórnarríki, flokksræði, stalínismi, sýndarréttarhöld, gúlagið, fjöldamorð, kalt stríð, uppreisnir í þriðja heiminum, járntjöld og sovésk grámygla.

Við sem erum fædd í kringum og eftir fall Sovétríkjanna – eftir hin margtuggðu „endalok sögunnar“ – höfum verið mötuð á svartbókum kommúnismans og ótal tilraunum til að lýsa ástandinu í alræðisríki Stalíns. Menn eru óþreytandi í að gefa út hryllingssögur frá Sovétríkjunum og Norður-Kóreu og segja þær víti til varnaðar öllu því sem heitir sósíalismi – byltingin borðar alltaf börnin sín, segja menn. Hvort sem okkur líkar betur eða verr enduróma því slíkar klisjur, strámenn og löghyggja um framgang sögunnar í huga okkar flestra þegar við veltum fyrir okkur atburðunum árið 1917.

Það er hins vegar frískandi að skoða þetta kraftmikla augnablik án slíkra eftirádóma, þegar rússnesk alþýða reis upp eftir árhundraðalanga kúgun, í miðri heimsstyrjöld og efnahagskreppu. Á þeim tíma var alls ekki ljóst hvað myndi leiða af þessari allt að því óhjákvæmilegu uppreisn, fyrst gegn hinu 300 ára og gjörspillta Romanov-keisaradæmi í febrúar og átta mánuðum síðar gegn getulausri bráðbirgðastjórninni sem við hafði tekið.

Víða um heim nýta menn sér aldarafmæli atburðanna til að velta fyrir sér merkingu byltingarinnar fyrir nútímann en það er allra síst í Rússlandi sjálfu sem þeir eru til umræðu. Ástæðan er mótsagnakennd tengsl rússneskra yfirvalda í dag við byltinguna árið 1917. Pútín hefur frekar tengt sig við keisaraveldið sem alþýðan steypti af stóli heldur en þær hugsjónir sem lágu byltingunni til grundvallar – jöfnuð, lýðræði, jafnrétti kynja og sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Byltingaraugnablikið áður en persónudýrkun og alræði urðu ofan á er því þyrnir í augum Pútíns. Til að taka broddinn úr því vill hann gelda Lenín og staðsetja í ættartölu sterkra rússneskra leiðtoga sem hafa stýrt landinu í gegnum aldirnar: Romanov-ættin, Lenín, Stalín og Pútín – rússneska þjóðin þarf sterkan hálfguðlegan leiðtoga frekar en lýðræði.

Annars staðar en í Rússlandi hafa hins vegar komið út fjölmargar nýjar og áhugaverðar bækur um efnið. Fæstar innihalda þær mikið af nýjum upplýsingum heldur reyna að nálgast söguna á nýjan hátt fyrir nýjar kynslóðir. Í ritgerðasafninu Historically Inevitable? velta nokkrir sérfræðingar fyrir sér hvort atburðarásin árið 1917 hafi verið óhjákvæmileg, Helen Rappaport skrifar bók upp úr persónulegum frásögnum vestrænna sjónarvotta í Petrograd árið örlagaríka í Caught in the Revolution, Robert Service skrifar um Nikolas II í The Last of the Tsars og S.A. Smith skrifar um aðdraganda og afleiðingar byltingarinnar í Russia in Revolution. John Medhurst veltir fyrir sér gagni lenínískrar hugsunar fyrir vinstrimenn 21. aldarinnar í No less than mystic og Tariq Ali endurmetur aðstöðu og ákvarðanir Leníns í Dilemmas of Lenin. Af hinum væng stjórnmálanna varar Sean McMeeki við lýðskrumurum sem vilja endurvekja sósíalismahugtakið í The Russian Revolution: A new history, og þá skrifar Victor Sebestyen nýja ævisögu byltingarleiðtogans með beinskeyttum titli: Lenin the dictator.

Bækurnar tvær sem eru hér til umfjöllunar forðast að nánast öllu leyti að dæma atburðina árið 1917 út frá því sem átti sér síðar stað heldur skoða þá ótrúlegu atburðarás sem átti sér stað, þetta einstaka andartak, sprenginguna í púðurtunnunni, sjálft byltingaraugnablikið.


Harðsoðin spennusaga

October: The Story of the Russian Revolution
Höfundur: China Mieville.
Útgefandi: Verso Books
320 bls.

Breski furðu- og vísindaskáldsagnahöfundurinn og aktívistinn China Mieville rekur sögu ársins 1917 í Rússlandi og þá sérstaklega höfuðborginni Petrograd í bókinni October. Sagan byggir ekki á nýjum rannsóknum heldur er tilraun til að kynna hina sögu októberbyltingarinnar fyrir nýjum lesendum.

Með örlitlum inngangi rekur October hina lygilegu sögu frá falli vanhæfa og áhugalausa keisarans Nikulásar II Romanov í febrúar og lýkur nóttina sem Bolsévíkaflokurinn hrifsar völdin til sín endanlega 25. október sama ár. Sagan er rakin á mjög strangan línulegan hátt, hver kafli tekur fyrir atburðarásina í tilteknum mánuði. Mieville leggur sig fram við að greina og útskýra af hverju ákvarðanir voru teknar, draga fram flókna og síbreytilega flokkadrætti og pólitískar þrætur, bæði stofnanalegar og hugmyndafræðilegar, hvernig bandalög breyttust og skoðanir manna þurftu að eltast við atburðarásina þegar raunveruleikinn umturnaðist ítrekað og kom jafnvel Lenín sjálfum á óvart með róttækari tækifærum en hann hafði nokkurn tímann búist við. Kannski er ágætt að frásagnarmátinn sé einfaldur því efniviðurinn gerir bókina oft og tíðum erfiða aflestrar.

Eftir uppreisn verkalýðsins í febrúar varð annars vegar til bráðabirgðaríkisstjórn skipuð borgaralegum þingmönnum ráðgjafaþingsins, Dúmunnar, og svo þing fulltrúa verkafólks, vinnustaða, sjómanna og hermanna, Pétursborgarsovétið. Í átta mánuði vó hið raunverulega vald salt milli þessara tveggja stofnana. Verkalýðurinn sem stóð fyrir byltingunni var aldrei sáttur við borgaralegu ríkisstjórnina og vildi að fulltrúar verkalýðsins í sovétinu tækju við völdum í landinu, en hinir varasamari sósíalistar sem voru í forsvari fyrir það vildu frekar láta völdin í hendur bráðabirgðastjórnarinnar, enda túlkuðu þeir kenningar Marx sem svo að rússneskt samfélag væri ekki nógu þróað fyrir sósíalíska byltingu – það þyrfti fyrst að verða borgaralegt lýðræði áður en verkalýðurinn öðlaðist nægilegan þroska til að geta stjórnað sér sjálfur.

Mótmælaaldan sem leiddi til febrúarbyltingarinnar árið 1917 hófst eftir fjölmenn mótmæli kvenna í Petrograd á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Konurnar mótmæltu bágum kjörum, hungri og stríðsrekstri.
Konur mótmæla Mótmælaaldan sem leiddi til febrúarbyltingarinnar árið 1917 hófst eftir fjölmenn mótmæli kvenna í Petrograd á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Konurnar mótmæltu bágum kjörum, hungri og stríðsrekstri.

Eins og góðri rússneskri stórsögu sæmir kemur gríðarlegur fjöldi skrautlegra karaktera fyrir í bókinni, en þrátt fyrir það er frásögnin allt annað en þurr. Umfram allt er October stórskemmtileg frásögn af ótrúlegri atburðarás. Stíllinn er harðsoðinn og textinn oft drepfyndinn, enda teiknar Mieville persónur og leikendur sterkum litum, dregur fram lítil og stór karaktereinkenni þeirra í örfáum orðum og sér meinhæðnina í örlögum þeirra. Oftar en ekki eru það lýsingarnar á minna þekktum aukapersónum sem eru hvað skemmtilegastar, eitt dæmi er anarkistinn Shelma Asnin: „svartskeggjaður fyrrverandi þjófur sem klæddi sig alltaf eins og gotneskur kúreki […] með barðastóran hatt, byssur og allt.“

Þó að bókin sé tyrfin í upphafi eykst spennan og hraðinn þegar líður á árið 1917, upplausnin í landinu eykst, fyrri heimsstyrjöldin dregst á langinn, hungrið verður harkalegra, skoðanaskiptin verða beinskeyttari, og við færumst nær hinum örlagaríka októbermánuði. Fyrir okkur sem þekkjum ekki atburðarásina í þaula, verður hún að síðu-fletti á síðustu mánuðunum og blaðsíðunum. Gangur sögunnar er æsilegur og hryggilegur, óvæntur og miskunnarlaus.

Mieville er alls ekki hlutlaus sögumaður – enda væri það eflaust ómögulegt í svona frásögn – hann á sér sínar hetjur og sína skúrka, án þess þó að falla í gryfju ógagnrýnna helgisagna. Hann er róttækur vinstrimaður, hefur samúð með byltingarsinnum og álítur þá í meginatriðum hafa aðhafst af réttmætum ástæðum – þó að oft hafi persónugallar eða nærsýni tímans byrgt þeim sýn. Hann dregur upp þá mynd að bráðabirgðastjórn hinna borgaralegu afla hafi hreinlega verið að glutra völdunum úr höndum sér vegna hins óvinsæla stríðsreksturs sem hún hélt til streitu, vegna þess hversu ósáttir hermenn voru við sinn hlut, hversu langþreyttur og sveltur verkalýðurinn var orðinn og vegna þess að hún var ófær um uppfylla væntingarnar. Ef árangurinn af valdaskiptunum hafði verið einhver var hann of lítill fyrir bændur og verkafólk og gerðist of hægt.

Samúð höfundarins liggur með byltingarsinnum sem álitu að ef fulltrúar verkalýðsins tækju ekki völdin af hinni getulausu stjórn myndi einhver sterkur leiðtogi þjóðernissinna rísa upp – og þannig myndi hið alþjóðlega orð yfir fasisma hafa komið úr rússnesku frekar en ítölsku, eins og Trotsky orðaði það víst. Hið nýja lýðveldi virtist fljótt og örugglega vera að láta undan þrýstingi þjóðernissinna, og flest virtist stefna í átt að nýju einveldi. Seinni forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, Alexander Kerensky, – jafnframt hressilegasta og aumkunarverðasta fígúra bókarinnar: „fæddur sviðsmaður“ og sanntrúaður á sjálfan sig sem einu von Rússlands – hafði sýnt örvæntingu sína þegar hann lét æ meiri völd í hendur hershöfðingjans Kornilov sem vildi ólmur verða einráður. Það samstarf endaði reyndar á farsakenndan hátt með farsakenndum misskilningi og símskeytum.

Síðasti kafli bókarinnar er sá eini sem inniheldur einhverja pólitíska greiningu og er hann barmafullur af afturlitstrega. Hann rekur í risastórum dráttum hvernig oktbóberbyltingin þróaðist yfir í gerræðishyggju Stalíns, en fræ hennar voru þegar orðin sýnileg í kjölfar október þegar breytingum á rússnesku samfélagi skyldi ýtt áfram með byssuhlaupinu. Mieville leggur áherslu á þá trú Leníns að rússneska byltingin myndi aldrei endast nema sams konar byltingar ættu sér stað víðar í Evrópu – eins og virtist raunhæfur möguleiki árið 1917. Þegar fjaraði undan þeirri alþjóðahyggjuvon leituðu bolsévíkar skjóls í þeirri óheillatrú að bara ef ógnarstjórnin væri nógu sterk væri hægt að koma á raunverulegum sósíalisma í þessu eina landi.

Mieville virðist telja að byltingaraugnablikið hafi ekki þurft nauðsynlega að leiða af sér hrylling og alræði. Sovétið hefði átt að taka við völdunum þegar verkalýðurinn krafðist þess í stað þess að treysta á hina borgaralegu ríkisstjórn. Þá hefði eflaust verið möguleiki á breiðara sósíalísku samstarfi frekar en einsflokksræði. Þrátt fyrir að vera almennt illsveigjanlegir voru ýmsir í flokksforystu bolsévíkaflokksins hlynntir slíku samstarfi um tíma – en ekki tókst að finna rétta jafnvægið á réttum tíma.


Í hringiðu heimsstyrjaldarinnar

Lenin on the Train
Höfundur: Catherine Merridale
Útgefandi: Allen Lane og Penguin.
291 bls.

Þó að aðstæðurnar sem bændur og verkamenn bjuggu við í Rússlandi hafi verið hörmulegar í upphafi 20. aldarinnar og róttækar breytingar nánast óhjákvæmilegar var það ekki síst fyrri heimsstyrjöldin sem gerði uppreisnina árið 1917 mögulega. Sagnfræðingurinn Catherine Merridale hefur skrifaði mikið um Rússland í gegnum tíðina, en ólíkt Mieville er það þó alþjóðlegt samhengi heimsstyrjaldarinnar sem er upphafspunktur hennar í að rekja sögu byltingarársins í auðlesanlegri og aðgengilegri nýrri bók sinni Lenin on the train.

Eins og nafnið gefur til kynna er hinn miðlægi atburður bókarinnar, háleynileg lestarferð Leníns og nokkurra félaga úr útlegð í Sviss, yfir Þýskaland (í landlausum vagni) í gegnum alla Skandinavíu og til Pétursborgar – lestarferð sem hefur áður orðið fólki innblástur til bókarskrifa, auk þess sem sjónvarpsmynd var gerð um ferðina með Ben Kingsley í hlutverki byltingarleiðtogans.

Staða Leníns í útlegðinni og möguleikar hans á því að komast heim eftir að keisaranum var steypt af stóli í febrúar ultu að stórum hluta á vilja eða mótspyrnu hinna stríðandi fylkinga í heimsstyrjöldinni. Til að skilja afstöðu og athafnir ríkjanna skyggnist Merridale inn í leyniþjónustur og njósnanet Breta, Frakka og Þjóðverja. Hver í sínu horni velta diplómatar og leyniþjónustumenn fyrir sér hvort og hvernig uppreisnir og byltingar í Rússlandi myndu hafa áhrif á stríðsreksturinn.

Það má segja að meginspurning bókarinnar sé að hversu miklu leyti Þjóðverjar aðstoðuðu Lenín og bolsévíkaflokkinn við að auka upplausnina og ná völdum í Rússlandi. Þýska keisaradæmið átti í stríði við Rússland og sá sér leik á borði að hleypa leiðtoga róttækasta byltingarflokks landsins aftur í púðurtunnuna Petrograd. Lenín var sá stjórnmálamaður sem talaði hæst gegn stríðsrekstrinum og vildi að honum yrði hætt umsvifalaust enda væri stríðið drifið áfram af þjóðrembingi og auðvaldsstefnu – þetta var tónlist í eyrum Þjóðverja sem vildu gjarnan geta einbeitt sér að vesturvígstöðvunum. Lenín var auðvitað ekki hollari undir þýskan keisara en rússneskan, þvert á móti taldi hann að bylting myndi fljótlega eiga sér stað í Þýskalandi – og það var að mörgu leyti skiljanleg trú. Það var því að mörgu leyti eðlilegt að Lenín væri tilbúinn að þiggja ósýnilega hjálparhönd til að komast heim og byrja að brjóta niður alheimskapítalismann, niðurrifsstarfsemi sem ætti á endanum einnig að leiða til falls þýska keisaraveldisins.

Þó að engin bein sönnunargögn virðist vera til um það þá dregur Merridale þá ályktun að einhver peningur hafi farið frá þýska ríkinu, líklega í gegnum skrautlegar fígúrur á borð við glamúrsósíalistann Parvus, og til Bolsévíkaflokksins sem hafi notað Þjóðverjagullið til að fjármagna áróður og byltingarstarfsemi. Þegar hann var sakaður um að samstarf við óvininn neitaði Lenín hins vegar alltaf.

Merridale sér í lygi hans um lestarferðina og meintan stuðning frá Þýskalandi fræ af því sem koma skyldi. Hún skilur rökvísina í athöfnum Leníns – auðvitað þáði hann aðstoðina – en telur að sú afstaða hans að treysta ekki almenningi til að dæma um réttmæti þeirra hafi gefið forsmekkinn af þeim andlýðræðislegu harðstjórnartöktum sem leiðtoginn fór að sýna í síauknum mæli.

Þrátt fyrir nafn bókarinnar fáum við ekki að vita mikið um hvað átti sér stað inni í lokuðum vagni Leníns og félaga á átta daga lestarferðalagi þeirra gegnum Evrópu nema þá helst litlar anekdótur um hvernig Lenín skammaðist í partíglöðum nágrönnum sínum og skipulagði hvernig klósett- og reykingaferðum fólks skyldi háttað á oftroðnum lestarkömrunum. Hvort að þetta eigi að varpa einhverju sálfræðilegu ljósi á persónu Leníns og þannig útskýra það sem á eftir kom er óljóst.

En sagan um lestina er á annan hátt notuð til að varpa ljósi á óhugnaðinn sem á eftir kom. Í lokakaflanum rekur Merridale hvernig samferðamenn Leníns úr lestinni voru á valdatíma Stalíns einn af öðrum teknir af lífi, sendir í útlegð, svívirtir eða kúgaðir til að ljúga opinberlega og svíkja félaga sína. Lenin on the train er auðlesin og aðgengileg, skýr og áhugaverð, en áherslan á leyniþjónustumenn og njósnara annarra stríðsríkja gera það að verkum að bókin er síðri byrjunarpunktur en October fyrir þá sem vilja kynna sér byltingaraugnablikið.

Málverk M.G. Sokolovs sem sýnir lest Leníns koma til Finnlandsstöðvarinnar í Pétursborg í apríl 1917. Listamaðurinn hefur bætt eftirmanninum Stalín bak við byltingarleiðtogann í lestinni – en Stalín var þó ekki með í hinni raunverulegu lestarferð.
Frækin lestarferð Málverk M.G. Sokolovs sem sýnir lest Leníns koma til Finnlandsstöðvarinnar í Pétursborg í apríl 1917. Listamaðurinn hefur bætt eftirmanninum Stalín bak við byltingarleiðtogann í lestinni – en Stalín var þó ekki með í hinni raunverulegu lestarferð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum
Aftur sektaðir af KSÍ
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram