Braut á sínum tíma blað í breskum kvikmyndum
Þann 8. ágúst fagnaði Earlston J. Cameron 100 ára afmæli. Earl fæddist á Bermúda og kom í fyrsta sinn til Bretlands árið 1939. Í nýlegu viðtali ræddi hann um hve erfitt það hafi verið á þeim tíma fyrir blökkumann að sjá sér farborða, en tilviljun ein réð því að hann fékk hlutverk í söngleiknum Chu Chin Chow.
Earl braut blað í breskri kvikmyndagerð þegar hann rauf kynþáttamúrinn í þarlendri kvikmyndagerð, árið 1951, í kvikmyndinni Pool of London. Þar var á ferðinni fyrsta breska kvikmyndin sem sýndi blandað samband; samband hvítrar konu og blökkumanns.
Earl lék félaga Sean Connery í myndinni Thunderball árið 1965 en hin síðari ár hefur mátt sjá honum bregða fyrir í misveigamiklum hlutverkum, meðal annars The Interpreter, Queen og Inception með Leonardo DiCaprio.
Á sinni löngu ævi hefur Earl komið víða við. Hann hefur meðal annars verið farmaður, uppvaskari á hóteli og selt ís, en að stærstum hluta hefur hann unnið sem leikari.
Earl var sæmdur CBE-orðunni, The Commander of the Order of the British Empire, árið 2009 og varð þess heiðurs aðnjótandi árið 2012 að leikhús á Bermúda var nefnt í höfuðið á honum.
Þrátt fyrir háan aldur segir hann í fyrrnefndu viðtali. „Og ég er ekki viss um að ég sé sestur í helgan stein enn.“