RÚV endursýnir Orðbragð á þriðjudagskvöldum á besta sýningartíma. Stundum er nöldrað yfir endursýningum en þessari endursýningu er ástæða til að fagna. Á tímum þegar ótal raddir tala í svartsýni um tvísýna framtíð íslenskunnar þá er það einmitt þáttur eins og þessi sem blæs manni siguranda í brjóst. Umsjónarmenn þáttarins hafa lifandi og ástríðufullan áhuga á íslenskunni, eru hugmyndaríkir, skemmtilegir og fyndnir. Upplifun þess sem horfir getur ekki verið önnur en sú að allt sé hægt að segja og hugsa á íslensku.
Þáttur eins og þessi er líklegur til að heilla unga kynslóð eins og þá sem eldri eru. Rétt er að vona að endursýningarnar séu fyrirboði um nýja þætti í haust. Jafn vel heppnaður þáttur og Orðbragð á að lifa lengi, öllum til gleði. RÚV hefur ríkt menningarhlutverk og ræktar það á allra besta hátt með Orðbragði.
Svona í framhjáhlaupi má velta fyrir sér hvort dómsdagsspár um endalok íslenskunnar séu ekki bara dramatík á hæsta stigi. Meðan rithöfundar landsins eru að skrifa góðar og vel stílaðar bækur sem seljast þá er engin ástæða til að örvænta. Og meðan útvarps- og sjónvarpsstöðvar og dagblöð sinna menningarhlutverki þá erum við á réttri leið. Íslenskan tórir ekki bara, hún lifir.