fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Einar Kárason: Skólaljóðin

og meinhollur páfagaukalærdómur

Ritstjórn DV
Laugardaginn 8. júlí 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég rakst um daginn á eina af þessum bókum úr bernskunni sem fylla mann minningum, og það var engin önnur en „Skólaljóð“ – þessi þykka bláa sem manni var gefin í barnaskóla, Kristján J. Gunnarsson valdi kvæðin en Halldór Pétursson teiknaði myndirnar. Þarna komst maður á sínum tíma í kynni við margt af því sem best hefur verið sagt og hugsað í ljóðmælum síðari alda á Íslandi. Og án þess kannski að skilja það fyrst þegar maður var krakki hverskonar perlur maður var með í lúkunum, þá síaðist það inn. Það var legið yfir myndunum, lesið um skáldin og svo ljóðin, margt lærði maður utan að og kann enn. Og samt hvarflaði ekki að okkur hvílíkt örlæti það var að gefa okkur öllum svona ljóðasafn.

Ég held að fljótlega eftir að ég og mín kynslóð hættum í grunnskóla hafi nýjar tískur mjög farið að ryðja sér til rúms í barnakennslu á Íslandi, og eflaust ekki allar til bóta. Við höfðum verið látin læra utan að, kannski meira en skynsamlegt var, ég veit það ekki, margföldunartöflur og ártöl og plöntuheiti og þannig úr náttúrunni, og svo öll kvæðin. En gáfaðra og menntaðra fólk í uppeldis- og kennslufræðum kom svo á vettvang og sagði að það væri verið að kenna krökkum eins og páfagaukum, á meðan mun nær væri að kenna þeim að skilja hlutina, en ekki bara að kunna að þylja þá upp í belg og biðu. Og skólastarf í landinu fór að taka mið af þessum nýju hugmyndum.

Hvað sögðu hestarnir?

„Sagði sinni hrjúfu röddu: „Já hvað ætli hestarnir hafi sagt?“
Sigfús Daðason „Sagði sinni hrjúfu röddu: „Já hvað ætli hestarnir hafi sagt?“

Mynd: Kolbrún Bergþórsdóttir

Ég geri mér ljósa þá hættu að nú fari ég að tala eins og roskinn rausari um að allt hafi verið betra í mínu ungdæmi, en ég held að ég hafi náð gamla utanaðbókarlærdómstímanum í gegnum alla skólagönguna, þökk sé klassískt hugsandi kennurum sem urðu á minni leið. Í Menntaskólanum við Tjörnina vildu lærimeistarar eins og Aðalsteinn Davíðsson að maður lærði utan að svona kveðskap eins og allar lausavísur Egils Skallagrímssonar, og helst Sonartorrek eða Arinbjarnarkviðu að auki. Og í bókmenntasögu sem ég lærði í HÍ þá var lögð áhersla á að við læsum sem flest af lykilverkum heimsbókmenntanna, læsum að gagni þannig að við kynnum bækurnar sæmilega. Þannig var maður á munnlegu prófi hjá Kristjáni Árnasyni spurður á þann hátt út í efni Ilionskviðu að ljóst væri að maður hefði ekki bara skautað yfir það helsta eða lesið endursagnir af köflunum, heldur tileinkað sér líka öll smáatriði. Mig minnir að ég hafi dregið nítjánda kafla og munað strax að í honum hafi Akkilles loks stokkið upp á sinn stríðsvagn og ákveðið að halda út á vígvöllinn á ný. En það gátu allir vitað svo að Kristján spurði um hvaða óvenjulegi viðburður hefði orðið á leið hans út í bardagana. Og ég mundi að þá hefðu hestarnir sem hann beitti fyrir sinn stríðsvagn snúið sér við og ávarpað kappann. En þetta var ekki nógu nákvæmt svar fyrir Kristján svo hann spurði enn, nú aðeins óþolinmóður, „Já, en hvað sögðu hestarnir?!“ Þá hló prófdómarinn, Sigfús Daðason, sem fram til þessa hafði setið þögull, og sagði sinni hrjúfu röddu: „Já, hvað ætli hestarnir hafi sagt?“

Þetta voru meginsnillingar.

Rómversku keisararnir

Því rifja ég þetta nú upp að skömmu seinna var held ég öllum áherslum í bókmenntakennslu í HÍ breytt, í anda nýtískulegri hugsunar, og farið að leggja áherslu á þannig greiningar- og túlkunarfræði að menn þyrftu ekki að hafa gleypt í sig bókmenntaverk heimsins, heldur nægði að vera tilbúnir til að greina það eftir Hómer, Cervantes eða Dostojevskí sem kynni síðar að bera fyrir augu þeirra. Rétt eins og á yngri skólastigum þar sem hætt var að láta krakka „þylja ljóð eins og páfagaukar.“

Ég hinsvegar held að það sé óvitlaust að láta börn æfa og þroska þann hæfileika sem þau hafa í svo ríkum mæli, að læra utan að og muna. Einn minn helsti vinur hóf sína barnaskólagöngu í kaþólskum skóla í Þýskalandi, faðir hans var við nám þar í landi, og þar var þessi vinur minn meðal annars látinn muna utanbókar nöfn allra rómversku keisaranna í réttri röð, og valdaár þeirra held ég líka. Kannski mun einhver segja að það sé þarflítil vitneskja, að minnsta kosti í praktískum skilningi, en þessi umræddi vinur minn átti svo eftir að brillera á öllum prófum það sem eftir var á langri skólagöngu, og ég held að hann telji að páfagaukalærdómurinn í kaþólska skólanum í Þýskalandi hafi ekki spillt fyrir. Það er líka reynsla margra að krakkar sem á máltökutímabilinu alast upp við tvö tungumál, eitt heima og annað í leikskólanum til dæmis, eigi auðveldara með að læra ýmislegt síðar meir, ekki síst tungumál. Það hefur oft hvarflað að mér hvort sveitastjórnaryfirvöld hér á landi, þar sem búa margir útlendingar, ættu ekki að pæla í því að opna, segjum, leikskóla með pólskumælandi starfsfólki, og að þangað færu íslenskir krakkar og aðrir sem ekki tala pólsku heima hjá sér. Eða enskumælandi dagheimili, eða þar sem væri töluð tælenska, filippeyska, norska eða sænska, það er ekki aðalatriðið, heldur bara veita börnunum þann munað að fá að læra tvö tungumál í æsku, í staðinn fyrir bara eitt.

Hér með er þessari hugmynd komið á framfæri.

Læpuskaps ódyggðir

En það voru Skólaljóðin. Það skal alveg játað að sumt sem maður lærði þar utanbókar er ekki víst að maður hafi skilið til fulls. Þetta er úr Ísland eftir Bjarna Thorarensen:

    Þú nafnkunna landið sem lífið oss veittir,    landið sem aldregi skemmdir þín börn,    hvert þinnar fjærstöðu hingað til neyttir,    hún sé þér ódugnaðs framvegis vörn.    /.../    Ef læpuskaps ódyggðir eykjum með flæða    út yfir haf vilja læðast þér að,    með geigvænum logbröndum Heklu þær hræða    hratt skalt þú aftur að snáfa af stað.

Elsta skáldið í bókinni er Hallgrímur Pétursson, fæddur 1614, en yngstur Steinn Steinarr, frá 1908, þannig að þarna eru ljóð frá þremur öldum. Langmest eru það kallar, þannig var það nú, en með endurskoðaðri útgáfu væri auðvitað sjálfsagt að reyna margt til að rétta þann halla eins og hægt er. Flest fá skáldin eina til fjórar opnur, en þau stærstu meira eins og eðlilegt er, og Jónas Hallgrímsson fær heilar átta eða níu.

Maðkur en ei maður sýnist sá

Grímur Thomsen og Bólu-Hjálmar urðu mjög fljótt mínir menn. Það var eitthvað kabbojlegt við kvæði Gríms í bókinni, um manninn sem var einn á hesti á Sprengisandi, að maður tali nú ekki um: Þeir eltu hann á átta hófa hreinum – Skúlaskeið. Ég valdi meðal annars að læra ljóðið um Þorbjörn Kólka sem reri einn á áttæringi og sat ávallt á dýpstu miðum, og í huganum hvarf ég inn í myndirnar sem fylgja. Og einmanaleiki Hjálmars og orðkynngin sem fylgdi var þannig að mann langaði til að læra að tala einhvernveginn þannig. Í mínum skóla, hjá Pálma Péturssyni í Æfingaskólanum, sem nú er kenndur við Háteig, var frjáls keppni í að læra sem flest og sem lengst kvæði. Gulla systir var tveimur árum á undan mér og í forystu í sínum árgangi og til að tryggja stöðu sína þá lét hún sig ekki muna um að læra gervallan Gunnarshólma Jónasar, og litli bróðir var auðvitað settur í að hlýða yfir, og kannski var það í og með svo að drengurinn missti ekki einbeitinguna yfir svo óralöngu kvæði að hún fór með það á ógnarhraða; ég gat þess á öðrum stað að sá kvæðaflutningur hefði minnt mig á það sem síðar var kallað rapp, og styrktist það hugboð enn þegar hinn gamansami dúett að norðan, Hundur í óskilum, tók sína rappversjón af þessu ljóði listaskáldsins góða. Ég hlýddi henni líka yfir ljóð Matthíasar um Hallgrím Pétursson, en gat aldrei til fulls fellt mig við línuna „Maðkur en ei maður sýnist sá“.

Fordæðan forn og grá

Nú þegar ég fletti bókinni þá dugir manni að lesa fyrstu línurnar úr fjöldanum af þessum ljóðum, og þá koma allar hinar til manns með hlýjum minningum. Og þau sem voru gjarnan sungin koma þá líka með röddum bekkjarfélaganna, og dugir að nefna Nú er frost á fróni, Ó blessuð vertu sumarsól, Fljúga hvítu fiðrildin, og svo heyrir maður þulin orðin úr Tunglið tunglið taktu mig. Önnur kvæði hefðu aldrei verið sungin, eins og hin strifnu Grettisljóð Matthíasar Jochumsonar um glímu hans við Glám, þó lærði ég þetta líka, ekki síst vegna hrifningarinnar á hetjunni:

    Svo takast þeir á,    hreystin og fordæðan forn og grá,    ofurhuginn og heiftin flá,    æskan með hamstola hetjumóð    við heiðninnar dauðablóð...

Svo gerði ég það snjallræði í keppni okkar í skólanum um að læra sem mest af ljóðum að ég skellti mér á Fjallgöngu Tómasar Guðmundssonar, Urð og grjót / upp í mót… Bæði var þetta skemmtilega ljóð auðvelt að læra, enda öllu taktfastara en Grettisljóðin, en svo var hitt að línurnar voru stuttar en á móti fjölmargar, og það skipti máli. Stundum þarf að spila taktískt.

Ég tel að menntamálayfirvöld eigi að tryggja að öll grunnskólabörn fái gefna svona bók eða sambærilega, ef það er hægt.

„Þó lærði ég þetta líka, ekki síst vegna hrifningarinnar á hetjunni."
Úr Grettisljóðum „Þó lærði ég þetta líka, ekki síst vegna hrifningarinnar á hetjunni."

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar

Þetta er síðasta myndin af henni á lífi: Fór spennt á Tinder-stefnumót en hryllingur beið hennar
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum
Aftur sektaðir af KSÍ
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp

Áttu fund vegna Rashford – Þurfa að leysa þessi tvö mál svo skiptin gangi upp
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið

Fyrrum Liverpool-maðurinn fékk stígvélið
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram