fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024

Arkitektar varpa ljósi á vopnuð átök og mannréttindabrot

Forensic Architecture rannsaka drónaárásir, sprengjutilræði og náttúruvá – Stefán Laxness starfar hjá rannsóknarmiðstöðinni

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 16. júlí 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir sem hafa horft á sakamálaþætti í sjónvarpinu kannast við réttarmeinafræði – þar sem læknar taka þátt í rannsókn glæpa með því að leita að vísbendingum eða sönnunargögnum á líkum og löskuðum líkömum. Færri hafa eflaust heyrt um réttar-arkitektúr, ungt og óhefðbundið rannsóknarsvið þar sem þekking og færni arkitekta er notuð til að komast nær sannleikanum í málum sem varða mannréttindabrot og ofríki hinna ýmsu yfirvalda.

Rannsóknarmiðstöðin Forensic Architecture í London er fyrsta sinnar tegundar í heiminum, en þar notast arkitektar, hönnuðir, lögfræðingar, fræðimenn og fjölmiðlafólk við hin ýmsu verkfæri byggingarlistarinnar til að rannsaka möguleg mannréttindabrot stjórnvalda, vopnuð átök og umhverfisglæpi – sprengjuárásir á spítala á Sýrlandi, ólöglegar aftökur í Palestínu eða náttúruvá í Suður-Ameríku.

Teymið notar teikningar, fréttamyndir, snjallsímamyndbönd og frásagnir vitna sem sönnunargögn, rannsakar þau og setur fram í mismunandi samhengi, fyrir dómstólum eða sannleiksnefndum, hjá mannréttindasamtökum, sjálfstæðum baráttuhópum – eða þá á nútímalistasöfnum og listhátíðum.

Einn starfsmaður þessarar einstöku rannsóknarstofnunar er arkitektinn Stefán Laxness. Blaðamaður DV ræddi við Stefán og fékk hann til að útskýra af hverju arkitektúr væri gagnlegur til að rannsaka vopnuð átök og afhjúpa mannréttindabrot.

Stefán Laxness

Stefán Laxness

Stefán er alinn upp í Frakklandi og á Íslandi. Hann er sonur Halldórs E. Laxness, leikstjóra, og barnabarnabarn nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness.

Lærði arkitektúr í Architecture Association í London. Eftir að hann lauk námi vann hann um skeið hjá PLP arkitektum áður en hann færði sig yfir til rannsóknarmiðstöðvarinnar Forensic Architecture.

Stefán hefur einnig látið að sér kveða í listheiminum en hann var einn nokkurra arkitekta sem sendu verkefni fyrir hönd Suðurskautslandsins á Feneyjatvíæringinn í myndlist í ár.

Sönnunargögnin í arkitektúrnum

„Arkitektúr getur skipt miklu máli þegar átök og pólitískt ofbeldi er rannsakað vegna þess að slíkir atburðir eiga sér yfirleitt stað í einhverju manngerðu umhverfi – rannsóknir á því hafa því oft mikið með efnislega og landfræðilega þætti að gera. Þar að auki eiga átök sér í auknum mæli stað í hönnuðu borgarumhverfi,“ segir Stefán.

„Við beitum því þekkingu okkur á arkitektúr og hinu byggða umhverfi til að reyna að skilja og draga ályktanir um tiltekin atvik eða fyrirbæri. Öll aðferðafræðin okkar reiðir sig á hluti sem arkitektar hafa grunnþekkingu á, þetta getur verið tvívíddar- og þrívíddarteikning, ýmiskonar tæknileg þekking og skilningur á því hvernig skipulagi húsnæðis og borga er háttað. Við getum því oft skilið hvernig smáatriði tengjast skipulagi byggingar eða borgarskipulaginu í heild sinni,“ segir Stefán, en á vefsíðu miðstöðvarinnar má til dæmis sjá hvernig rýnt er í rústir bygginga og þekking starfsmanna á efni og byggingarlist notuð til að greina hvernig flugskeyti voru notuð og þar af leiðandi hverjir bera ábyrgðina og einnig hvernig tölvulíkön eru notuð til að púsla saman myndum og misgóðum símamyndböndum sem tekin eru af voðaverkum til að varpa ljósi atburðarásina og gerendurna.

„Rannsóknirnar snúast ekki einungis um byggingar heldur eru verkefnin á mjög misstórum skala. Við höfum rannsakað allt frá morðum á einstaklingum til stórra landfræðilega fyrirbæra – skógareyðinga og annars slíks.“

Forensic Architecture

Sjálfstæð rannsóknarstofnun við Goldsmiths-háskóla í London, Bretlandi.

Stofnuð af ísraelska arkitektinum Eyal Weizman árið 2011.

Notar þekkingu arkitekta til að rannsaka rýmisleg sönnunargögn um mannréttindabrot, vopnuð átök og ýmis önnur fyrirbæri sem varða almenna borgara.

Niðurstöðurnar eru birtar fyrir dómstólum, í sannleiksnefndum, hjá mannréttindasamtökum, í fjölmiðlum eða á listasöfnum.

Hafa meðal annars rannsakað loftárásir á spítala í Sýrlandi, skógareyðingu í Indónesíu, drónaárásir Bandaríkjahers í Pakistan, morð ísraelskra hermanna á Palestínskum mótmælanda, leynifangelsi Sýrlandsstjórnar og vitneskja þýsku lögreglunnar um yfirvofandi morð nýnasista á ungum innflytjenda.

Skoða má verk og verkefni Forensic Architecture á vefsíðunni www.forensic-architecture.org

Rannsóknin í höndum borgaranna

Forensic Architecture er sjálfstæð rannsóknarmiðstöð sem hefur það að markmiði að komast til botns í og vekja athygli á málum þar sem valdamiklir aðilar hafa brotið á rétti almennra borgara. Eftir því sem hróður miðstöðvarinnar hefur aukist hafa sífellt fleiri mannréttindasamtök og baráttuhópar falast eftir samstarfi við teymið.

„Hin réttarfræðilega rannsókn hefur almennt verið í höndum ríkisins en í þeim verkefnum sem við tökum að okkur eru það oftar en ekki ríkin sjálf sem eru sökuð um að vera gerendurnir. Það er augljóslega auðveldara að komast í botns í málum þar sem einstaklingur brýtur af sér – rænir og myrðir einhvern til dæmis – heldur en þegar það er ríkið sjálft sem er sekt um brotið. Ríkið er mun betur í stakk búið til að neita glæpnum, fela slóðina og gera rannsóknina erfiðari. Hlutverk okkar er því oft að andmæla opinberum skýringum stjórnvalda og bjóða þeim byrginn,“ segir Stefán.

„Sögulega hafa stjórnvöld haft upplýsingalega yfirburði yfir borgarana, glæpamennina og alla þá sem ekki eru skilgreindir sem ríkið. Við teljum hins vegar að það megi beita ýmsum aðferðum dag til að færa þessa framkvæmd frá ríkinu og til almennra borgara – nota réttarfræðilegar rannsóknir í þágu borgaranna. Auðvitað getur ekki hver sem er tileinkað sér allar okkar aðferðir á stuttum tíma, en í grunninn erum við þó að nota verkfæri sem eru aðgengileg öllum – einmitt vegna þess að þau eru smíðuð með eitthvað allt annað í huga. Þannig ætti hver sem hefur áhuga að geta framkvæmt réttarfræðilega rannsókn og kynnt á einhverjum vettvangi.“

Við teljum að það megi beita ýmsum aðferðum dag til að færa þessa framkvæmd frá ríkinu og til almennra borgara – nota réttarfræðilegar rannsóknir í þágu borgaranna.

Vilja hafa áhrif á umræðuna

Nokkrar af rannsóknum miðstöðvarinnar hafa verið notaðar frammi fyrir alþjóðlegum- eða landsdómsstólum, til að mynda rannsóknir á aðskilnaðarmúr Ísraela í Battir, rannsókn á notkun ísraelska hersins á hvítum fosfór í sprengjuárásum á Gaza, og rannsókn á morði Ísraelskra hermanna á palestínskum mótmælanda í Bil‘in. Stefán segir þó að þetta sé ekki alltaf og endilega markmið rannsóknanna.

„Markmiðin eru mjög mismunandi eftir verkefni. Góð niðurstaða er fyrst og fremst ef umrætt atvik kemst í umræðuna eða ef rannsóknin getur haft áhrif á hana,“ segir Stefán og nefnir til dæmis rannsókn á því hvort þýskur leynilögreglumaður hafi – þvert á það sem hann sjálfur sagði – orðið vitni að morði nýnasísku hryðjuverkasamtakanna NSU á ungum starfsmanni internetkaffihúss í Kassel í Þýskalandi árið 2006. Myndband um rannsóknina var sýnt á hinni virtu listahátíð Documenta í Kassel í sumar og í kjölfarið breyttist umræðan og þrýstingur á stjórnvöld um að taka upp málið að nýju jókst.

„Jafnvel þó myndbandið sem við unnum hafi ekki verið tekið inn í dómsmálið sjálft sem sönnunargagn þá skipti það gríðarlega miklu máli í að virkja almenning í umræðu um málið. Við erum alltaf mjög ánægð ef upplýsingarnar eru notaðar á einhvern uppbyggilegan hátt, ef þær nýtast þeim sem eru að berjast fyrir réttlæti í því tiltekna máli. Sú barátta getur svo haft raunveruleg áhrif á hlutina – og það eru dæmi um að upplýsingar sem við höfum grafið upp hafi þannig haft áhrif á stefnu stjórnvalda.“

„Þegar við unnum að verkefni um Saydnaya-leynifangelsið í Sýrlandi vorum við svo fyrst og fremst ánægð að geta komið frásögnum fanganna fyrrverandi til umheimsins – það var mjög gott fyrir þá persónulega að fá að segja sína sögu og deila sinni vitneskju. Í því tilfelli þurfti Bashar Al-Assad, forseti Sýrlands, svo reyndar að bregðast við að einhverju leyti. Eftir að verkefnið hafði vakið athygli spurði svissneskur fréttamaður hann út í fangelsið í viðtali – þetta var alls ekki eitthvað sem við höfðum búist við.“

Þýski leynilögreglumaðurinn Andres Temme var staddur á 77 fermetra internetkaffihúsi í Kassel, 6. apríl árið 2006, þegar afgreiðslumaðurinn, hinn 21 árs Halit Yozgat, var myrtur af nýnasísku hryðjuverkasamtökunum NSU. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir morðinu, en með því að skoða atvikaröðina og rannsaka hvernig hljóð og lykt barst um kaffihúsið sýndi Forensic Architecture fram á að það væri nánast ómögulegt að hann hafi ekki orðið var við neitt óvenjulegt. Horfa má á myndband um rannsóknina á vefsíðu Forensic Architecture: www.forensic-architecture.org/case/77sqm_926min/
Rannsaka hvernig lykt og hljóð berst Þýski leynilögreglumaðurinn Andres Temme var staddur á 77 fermetra internetkaffihúsi í Kassel, 6. apríl árið 2006, þegar afgreiðslumaðurinn, hinn 21 árs Halit Yozgat, var myrtur af nýnasísku hryðjuverkasamtökunum NSU. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir morðinu, en með því að skoða atvikaröðina og rannsaka hvernig hljóð og lykt barst um kaffihúsið sýndi Forensic Architecture fram á að það væri nánast ómögulegt að hann hafi ekki orðið var við neitt óvenjulegt. Horfa má á myndband um rannsóknina á vefsíðu Forensic Architecture: www.forensic-architecture.org/case/77sqm_926min/

Innsýn í háleynilegt fangelsi

Í áðurnefndri rannsókn á Saydnaya-leynifangelsinu í Sýrlandi var vitnisburðum fyrrverandi fanga fangelsisins safnað saman, þrívíddarlíkan af þessari háleynilegu fangelsisbyggingu smíðað eftir frásögnum vitnanna og í kjölfarið gátu áhugasamir farið inn á vefsíðu mannréttindasamtakanna Amnesty International, ferðast um stafræna endurgerð fangelsisins og hlustað á frásagnir fórnarlambanna.

„Við byrjuðum á því að rýna í vitnisburði sem Amnesty hafði safnað frá fyrrverandi föngum fangelsisins og skoðuðum hvert einasta smáatriði sem hafði með rýmið sjálft að gera. Það var hins vegar nokkuð erfitt að staðsetja hvar í fangelsinu hvert atvik hafði átt sér stað enda var yfirlitsmynd úr gervihnetti það eina sem við gátum séð af því. Næst settumst við niður með fimm fanganna í Istanbúl í Tyrklandi og byrjuðum að teikna upp líkön eftir vitnisburðum þeirra í rauntíma. Smám saman þróuðum við aðferð þar sem viðmælandann tók virkan þátt í að búa til tölvulíkanið af byggingunni. Við uppgötvuðum að í þessari vinnu rann upp fyrir vitnunum ýmis smáatriði sem voru mjög mikilvæg – ekki bara til að skilja hryllinginn sem fangarnir gengu í gegnum heldur einnig til að skilja hvernig arkitektúr byggingarinnar var í raun notaður sem kúgunartæki.“

Engar myndir eða teikningar voru til af háleynilegu sýrlensku fangelsi sem var meðal annars notað við pyntingar. Forensic Architecture smíðaði þvívíddarlíkan af fangelsinu í samstarfi við fyrrverandi fanga. Á vefsíðu mannréttindasamtakanna Amnesty International var svo hægt að ferðast um stafræna endurgerð af fangelsisinu og hlusta á frásagnir fórnarlambanna.
Saydnaya-leynifangelsið Engar myndir eða teikningar voru til af háleynilegu sýrlensku fangelsi sem var meðal annars notað við pyntingar. Forensic Architecture smíðaði þvívíddarlíkan af fangelsinu í samstarfi við fyrrverandi fanga. Á vefsíðu mannréttindasamtakanna Amnesty International var svo hægt að ferðast um stafræna endurgerð af fangelsisinu og hlusta á frásagnir fórnarlambanna.

úr einu myndbandinu um Saydnaya-leynifangelsið.
Átakanlegar frásagnir úr einu myndbandinu um Saydnaya-leynifangelsið.

Mynd: thyssen

um þrívíddarlíkan af leynifangelsinu í Saydnaya á vefsíðunni https://saydnaya.amnesty.org/
Taktu túrinn um þrívíddarlíkan af leynifangelsinu í Saydnaya á vefsíðunni https://saydnaya.amnesty.org/

Með rannsókn sinni sýndi teymið hvernig sambandið milli rýmis og minninga getur verið gagnvirkt. Minningar vitnanna voru notaðar til að endurskapa rýmið sem tölvulíkan en þegar þessi sviðssetning á rýminu blasir við á tölvuskjánum rifjast svo upp fyrir vitnununum minningar sem annars hefðu verið glataðar. Þær eru svo aftur notaðar til að bæta líkanið af fangelsinu og svo framvegis.

„Vissulega getur minni fólks oft verið svolítið brenglað í kjölfar áfalls á borð við það sem menn upplifðu í Saydnaya, en það var samt magnað hvað það var í mörgum tilfellum ótrúlega nákvæmt. Einn fanginn mundi til dæmis nákvæmlega hversu mikinn hluta fangaklefans hans dagsljósið lýsti upp, hann gat rifjað upp nákvæmlega hversu margar flísar á veggnum sólin lýsti upp. Ég endurskapaði þetta í tölvunni og fannst augljóst að hann væri eitthvað að ruglast en eftir smá tíma áttaði ég mig á því að það var ég sem hafði gert mistök í útreikningunum og um leið og ég lagaði það stóðst frásögn fangans nákvæmlega.“

„Fangarnir gátu mjög lítið notað sjónina, voru hafðir í myrkri og einangrun, og þurftu því oft að reiða sig á önnur skilningarvit. Með hjálp hljóðlistamanns reyndum við að endurgera hljóðin sem þeir mundu eftir að hafa heyrt – og að rifja þau upp og heyra aftur hefur áhrif. Allt þetta gerði okkur kleift að skilja betur þær aðferðir sem beitt var við kúgunina í fangelsinu,“ segir Stefán.

„Að lokum söfnuðum við öllum þessum nýja vitnisburði á myndbönd sem var hægt að nálgast í þrívíddarlíkaninu. Á vefsíðunni getur maður því ferðast um rýmið í þrívídd, smellt á tiltekin rými og heyrt frásagnir fanganna af því hvað gerðist á þeim tiltekna stað. Tölvulíkanið sýnir okkur það sem átti sér stað, það er safn vitnisburðar fanganna en á sama tíma það sem sem kveikti þessar minningar.“

Rannsaka loftárásir á spítala

Annað eftirtektavert verkefni sem Stefán hefur tekið þátt í er rannsókn á loftárás á spítala sem tengdist alþjóðasamtökunum Læknar án landamæla í Idlib í Sýrlandi – en sama dag áttu sér stað árásir á nokkrar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Niðurstöðurnar voru kynntar í nokkrum myndböndum síðasta haust.

„Hugmyndin var að skoða nýlega atburði svo að rannsóknin gæti verið innlegg í umræðu sem var enn að eiga sér stað. Sjálfstæðar rannsóknir á borð við þessa eru sérstaklega mikilvægar í samhengi Sýrlandsstríðsins þar sem gerendurnir hafa yfirleitt gripið til algjörrar afneitunar þegar þeir eru sakaðir um einhver brot. Með því að nota upplýsingar sem voru aðgengilegar öllum almenningi á samfélagsmiðlum og efnisveitum eins og Youtube gátum við hins vegar byrjað að greina atburðarásina, teikna upp líkön og setja niður atvikaröð á mjög flóknum og viðburðaríkum degi þar sem nokkrir spítalar voru sprengdir. Okkur tókst því miður ekki að staðfesta með óyggjandi hætti hver árásáraðilinn var en okkur tókst að minnsta kosti sanna að þessi tiltekna árás átti sér stað – það er fyrsta skrefið í að mótmæla afneituninni. Við sýndum líka fram á að ráðist var á fleiri heilbrigðisstofnanir sama dag og gátum þannig séð að þetta voru skipulagðar árásir sem fylgdu ákveðnu mynstri. Það er því ekki lengur hægt að láta eins og þetta hafi bara verið einstakt slys. Og þó við séum ekki með óyggjandi sannanir fyrir því að Rússar og sýrlenski stjórnarherinn hafi verið að verki getum við engu að síður sagt að vegna ýmissa þátta sem tengjast og samræmis milli mismunandi gagna séu mjög miklar líkur á því.“

Aukaatriðin geta skipt öllu máli

Rannsóknarblaðamenn og kvikmyndagerðarmenn koma einnig að rannsóknum á borð við þessa en þarna gefst þeim færi á að kafa ofan í mál sem hefðbundnir fjölmiðlar geta æ sjaldnar sinnt vegna hinnar miklu tímapressu og manneklu.

„Vandamálið er að krafan um að nýjar fréttir birtist stöðugt í fjölmiðlum í dag er miklu meiri en sá tími sem það tekur að framkvæma svona rannsókn. Í hvert skipti sem höfum sett okkur það markmið að halda í við fréttirnar þá höfum við átt í miklum erfiðleikum. Ég er ekki viss um að fjölmiðlar geti nokkurn tíman notað þessar aðferðir almennilega því hraðinn þarf einfaldlega að vera svo mikill á þeim vettvangi.“

Annað vandamál sem blasir við fólki á Vesturlöndum er gríðarlega mikið magn af misvísandi upplýsingum, til dæmis má nefna myndir sem áttu að sýna efnavopnaárásir sýrlenska stjórnarhersins en voru fljótlega gerðar tortryggilegar í rússneskum fjölmiðlum – þar birtust aðrar myndir og myndbönd sem áttu að sýna fram á allt aðra atburðarás.

„Það er rétt að þó vandamálið sé stundum skortur á upplýsingum er vandamálið æ oftar of mikið magn upplýsinga sem maður þarf að setja í eitthvað röklegt samhengi. Það verður sérstaklega vandkvæðum bundið í stríði á borð við það sem er í gangi í Sýrlandi. Ef ég bið þig um að fara og gera sjónvarpsfrétt um efnavopnaárásina Al-Lataminah – eins og átti sér stað nýlega – þá byrjar þú auðvitað að gúggla. Þá rekst þú hins vegar á svo rosalega mikið af misvísandi upplýsingum. Í þokkabót hefur sá staður orðið fyrir árásum linnulaust í mörg ár, svo þú þarft að sía burt nýja efnið frá öllu því gamla. Þetta veldur oft miklum misskilningi,“ segir Stefán.

Með tölvulíkönum af átakasvæðum og annarri tækni geta starfsmenn Forensic Architecture hins vegar sannreynt hvort tiltekin myndbönd séu tekin á þeim stað og stund sem þau er sögð hafa verið tekin.

„Oft þurfum við að vera útsjónarsöm til að geta notað upplýsingarnar sem eru aðgengilegar. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að oft eru það hlutir sem virðast vera algjör aukaatriði sem geta skipta mestu máli. Í myndböndum er til dæmis mikið af upplýsingum á undan og eftir tilteknu atviki sem geta nýst okkur – þar gætum við séð skuggann af einhverju og reiknað út hvenær myndbandið er tekið, eða séð skuggamynd af flugvél eða einhverju fyrirbæri sem nýtist okkur. Þetta getur oft sparað okkur margra daga vinnu.“

Í rannsókn á drónaárás í Miranshah í Pakistan árið 2012 þar sem fjórir létust notast Forensic Architecture einungis við 43 sekúndna símamyndband sem smyglað var út af svæðinu og birtist í fjölmiðlum til að finna nákvæma staðsetningu hússins og skapa líkan af byggingunni. Með því að greina hvar sprengjubrotin sjást í myndbandinu gat teymið fundið út hvar í rýminu sprengjan sprakk, hvar manneskjur voru í rýminu og hvernig vopn var notað við árásina. Líkan í fullri stærð var sýnt á arkitektatvíæringnum í Feneyjum í fyrra.
Drónaárásir rannsakaðar Í rannsókn á drónaárás í Miranshah í Pakistan árið 2012 þar sem fjórir létust notast Forensic Architecture einungis við 43 sekúndna símamyndband sem smyglað var út af svæðinu og birtist í fjölmiðlum til að finna nákvæma staðsetningu hússins og skapa líkan af byggingunni. Með því að greina hvar sprengjubrotin sjást í myndbandinu gat teymið fundið út hvar í rýminu sprengjan sprakk, hvar manneskjur voru í rýminu og hvernig vopn var notað við árásina. Líkan í fullri stærð var sýnt á arkitektatvíæringnum í Feneyjum í fyrra.

.
.

Niðurstöður sýndar í listasöfnum

Rannsóknarmiðstöðin hefur kynnt niðurstöður sínar á ólíkum vettvangi, meðal annars í listasöfnum og listahátíðum. Nú stendur til að mynda yfir sýning í nútímalistasafninu í Barcelona (MACBA) og eins og áður segir er myndband frá miðstöðinni til sýnis á einni áhrifamestu myndlistarsýningu heims, Documenta, sem fer nú fram í fjórtánda skipti í Kassel í Þýskalandi.

Eyal Weizman, stofnandi Forensic Architecture, hefur sjálfur sagt að listinni hafi á undanförnum áratugum tekist að sýna hversu sannleikurinn getur verið miklum vandkvæðum bundinn og flóknari en margir vilja vera láta. En í stað þess að láta listina varpa skugga efans á alla hluti segist hann vilja nýta hana til að takast á við efann og nota listrænar aðferðir til að yfirheyra og komast til botns í málum. „Listasýning snýst ekki bara um fegurð, heldur líka um sannleikann.“

Stefán bætir við að rými listarinnar sé oft opnara heldur en hinn hefðbundni pólitíski og lagalegi vettvangur fyrir tilraunakenndri starfsemi á borð við þessa. „Sumir myndu spyrja af hverju við einblínum ekki á pólitískan eða lagalegan vettvang, ráðhús eða dómssali, til að kynna efnið. Vandamálið er hins vegar að slíkir staðir eru sjaldnast mjög opnir fyrir því að hýsa svona umræðu, á meðan listastofnanir eru það. Latneska orðið forensis er dregið af orðinu forum sem þýðir einfaldlega vettvangur – þetta eru því gögn sem eru lögð fram til umræðu á einhverjum vettvangi. Listasafnið er umræðuvettvangur þar sem maður getur byrjað að dreifa hugmyndum og hvetja til umræðu milli borgaranna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allt að verða klárt fyrir fyrstu kaup Amorim til United – 17 ára ungstirni

Allt að verða klárt fyrir fyrstu kaup Amorim til United – 17 ára ungstirni
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
EyjanFastir pennar
Fyrir 7 klukkutímum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot