David Grossman verðlaunaður fyrir skáldsöguna A Horse Walks into a Bar
Fyrr í vikunni var tilkynnt að skáldsagan A Horse Walks into a Bar eftir ísraelska rithöfundinn David Grossman hljóti alþjóðlegu Man Booker verðlaunin árið 2017. Grossman deilir 50 þúsund punda verðlaununum – sem samsvarar tæplega 6,5 milljónum íslenskra króna – með enskum þýðanda sínum, Jessicu Cohen.
Bókin fylgir eftir hugsunum og gjörðum meinhæðins uppistandara eina kvöldstund á sviði í ísraelskum smábæ. Brátt koma í ljós djúp hjartasár uppistandarans sem leiða til þess að hann brotnar andlega saman á sviðinu.
„David Grossman leggur af stað í virkilega djarfan skáldsagnalegan línudans en tekst stórkostlega upp,“ sagði Nick Barley formaður dómnefndarinnar um bókina. „A Horse Walks into a Bar varpar ljósi á áhrif sorgarinnar en án nokkurrar væmni. Aðalpersónan er ögrandi og ófullkomin en algjörlega sannfærandi. Við vorum alveg forviða yfir því hversu reiðubúinn Grossman var á að taka tilfinningalegar jafnt sem stílrænar áhættur. Hver einasta málsgrein telur og hvert einasta orð skiptir í máli í bókinni – sem sýnir hversu óviðjafnanlega ritfær höfundurinn er.“
Skáldsagan Fiskarnir hafa engar fætur eftir Jón Kalman Stefánsson var ein þrettán bóka sem var tilnefnd til verðlaunanna í ár, á lengri tilnefningalistanum svokallaða (e. longlist), en þetta var í fyrsta skipti sem íslenskur rithöfundur var tilnefndur til verðlaunanna.
Frá 2005 til 2015 voru alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin veitt annað hvert ár fyrir heildarverk höfundar utan Bretlands, en í fyrra voru þau veitt í fyrsta skipti fyrir eitt þýtt skáldverk. Þá var það kóreyski rithöfundurinn Han Kang sem hlaut verðlaunin fyrir bókina The Vegetarian.