fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Óbeizlaðar hugsanir handa raunsæisfólki

Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram skrifa um Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. júní 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með Óratorreki gerist Eiríkur Örn ókrýndur meistari hinnar óbeizluðu hugsunar í íslenskum ljóðaskáldskap. Að vísu hefur samkeppnin daprast, eftir að þá Steinar Sigurjónsson og Dag Sigurðarson leið. Óbeizluð hugsun? Hugsun sem fer á flug – hugarflug. Engum nema meistara hugarflugs og ímyndunarafls dytti í hug að fjalla um fjörbrot kapítalismans og kebab í sömu setningunni. Það gerir Eiríkur Örn og vekur upp löngun í kebab.

Honum er auðvitað ekkert mannlegt óviðkomandi. Það eru bara nánast engin takmörk fyrir því, sem honum finnst mannkyninu viðkomandi. Þar er auðvitað efst á blaði viðkoman. Með öðrum orðum offjölgunarvandamálið. Það er bara ekki pláss fyrir allt þetta fólk. Og hnötturinn ber bara ekki fleiri konur á barneignaaldri, fremur en fleiri offitusjúklinga á sjálflýsandi íþróttaskóm. Ekki heldur fleiri stráka með risvandamál, sem fjölgar þó eins og dagfarsprúðum ungum mönnum á útihátíð. Það er bara ekki meira pláss. Þetta lið étur okkur út á gaddinn. Það klárar allan fiskinn í sjónum – og þarann líka. Eftir stendur svo stóra spurningin: með hverju eigum við þá að vefja súshíið?

Eða fátæktin. Fyrst hin kvenlega skilgreining: Þú ert fátæk, ef þú nennir ekki að horfa á fátækt í sjónvarpinu á kvöldin. Það er nóg að vera fátæk allan daginn. Fátæklingar eru nefnilega alltaf heima hjá sér, meira að segja þeir, sem eiga hvergi heima. Gluggaumslögin halda samt áfram að rata þangað. En ef þú opnar þau ekki, þá ertu fátæk.
Fyrir karlpeninginn er skilgreiningin þessi: Fátækt er að munstra sig á skip, svo maður fái eitthvað að éta og komist ekki áfengi í nokkrar vikur. Niðurstaða þessarar sálfræðifélagspólitískugreiningar er: Fátæklingar mæta ekki í kröfugöngur, birta ekki ljóð og hafa rangar skoðanir á eigin stöðu, kyssa á vöndinn og kjósa hægri menn. Ekki bara í Trumplandi. Líka á Engey.

Svo er það þetta með ábyrgðina. Ber einhver ábyrgð á þessum ósköpum? Jú – þegar beitt er skáldlegu innsæi, er hægt að nálgast sannleikann smátt og smátt. Til dæmis bera karlarnir ábyrgð á kapítalismanum. Þeir bera líka ábyrgð á getnaðarvörnunum, eins og konurnar bera ábyrgð á fóstureyðingunum. Og múslimarnir bera ábyrgð á strætisvagnasprengjunum. Alveg eins og gamlingjarnir bera ábyrgð á seinni heimsstyrjöldinni, og unglingarnir bera ábyrgð á vinnuþrælkuninni í NIKE-verksmiðjunum.

Þar með er svo sem ekki öll sagan sögð: Gyðingarnir bera ábyrgð á fjármálakerfinu, eins og konurnar bera ábyrgð á pillunni. En karlarnir eiga að ábyrgjast smokkana. Það þýðir ekkert að skorast undan ábyrgð. Konurnar bera víst ábyrgð á stuttu pilsunum, eins og karlarnir bera ábyrgð á leðurjökkunum, og múslimarnir bera ábyrgð á höfuðbúnaðinum. Svertingjarnir bera svo ábyrgð á rappinu. En gyðingarnir bera einir ábyrgð á Gaza. En hver ber ábyrgð á fósturjörðinni? Eiginlega enginn, síðan Einar Ben leið.

Og það er margt að varast, sérstaklega þar sem langt er orðið á milli ljósastaura. Svo ber auðvitað að gæta sín á fljúgandi golfkúlum og afgangsjarðsprengjum á hrísgrjónaekrunum. Já, það er margt að varast – ekki síst hugvíkkandi fíknilyf, þar sem langt er í sjúkrahús. En „þá kemur kannski læknir í sveitina með flugi frá Reykjavík aðra hverja viku, og hann getur tekið með sér póstinn, þegar hann fer til baka og kennt börnunum stafrófið“ – meðan hann er. Þetta segir skáldið vera „huggun harmi gegn og óþarfi að gera lítið úr því“. Í þessum punkti sýnir skáldið meira umburðarlyndi gagnvart bæklun heilbrigðiskerfisins en mannvinurinn mikli, Ofur-Kári.

En þrátt fyrir allt og allt er skáldið ekki á því að gefast upp. Hann telur í okkur kjark og við tökum undir og mótmælum öll í mini-pilsum og strá-pilsum (Druslugangan) og setjum fram skýrar kröfur byltingarinnar. Við mótmælum meira að segja fyrir utan Klörubar seint að nóttu, „ælandi bjór og sangríu, áður en sólin rís á frátekna bekki við sundlaugarbarinn, þar sem við rísum á ný til nýrra mótmæla“. Þótt jörðin sé að vísu „tifandi tímasprengja“, hafið orðið að fljótandi sorphaug, og vélarnar taki brátt við af mönnunum, svo að jörðin geti að lokum losað sig við þetta hyski – þá gefumst við samt ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Eins og forfaðir skáldsins, höfundur Völuspár, sér skáldið fyrir sér jörð rísa úr Ægi iðagræna – og Lífið haslar sér völl á ný. Skáldið er með öðrum orðum lausnamiðað og leyfir sér vott af bjartsýni mitt í bölmóðnum. Eða hvað eigum við að kalla þetta? „Svona ímynda ég mér betri heim. Hann brestur í söng. Samsöng byggðan á sannri sögu ótrúlegrar 18 ára einfættrar stríðshrjáðrar afrískrar móður sex fyrrum grimmustu barnahermanna Kongó, sem urðu síðar demantasmyglarar, og það hvernig draumur hennar um að sjá Velvet Revolver live á baki tvíhyrndum snípnegldum einhyrningi varð að veruleika fyrir sakir töfra hópfjármagnaðra smálána. Og þú trúir því aldrei, hvað gerðist næst …“

Viðvörun: Það er óráðlegt af heilsufarsástæðum að lesa meira en eitt ljóð í einu. Það getur haft ófyrirséðar aukaverkanir, eins og jafnvægisleysi eða vott af svima – eða vantrú á framtíð mannkynsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum