Allar áhyggjur hverfa og þreytan líður úr manni þegar maður hlustar á óperutónlist. Útvarpsþátturinn Heimur óperunnar, sem er á dagskrár Rásar 1 á laugardögum í umsjón Guðna Tómassonar, minnir alla á hversu fögur óperutónlistin er. Það þarf reyndar ekkert að sannfæra mig, ég hef haft yndi af óperutónlist allt frá því ég var smástelpa og heyrði hana iðulega á Rás 1.
Þetta var á þeim tímum þegar hlustað var á þá rás alla daga og hún átti stóran þátt í því að ala mann upp í menningaráhuga. Ég er viss um að í dag finnast stelpur og strákar í sömu sporum og ég var fyrir áratugum og verða uppnumin þegar þau heyra í fyrsta sinn Maríu Callas syngja Casta Diva og Pavarotti syngja Nessun Dorma.
Þættirnir Heimur óperunnar eru fluttir í tengslum við kosningu sem stendur yfir á RÚV þar sem hlustendur geta valið eftirlætis óperuaríur sínar. Allir tónlistarunnendur ættu að kjósa sínar aríur á ruv.is. Það hef ég þegar gert og er sannfærð um að flestar mínar eftirlætisaríur njóta hylli annarra kjósenda.
Hvernig á annað að vera, jafn stórkostlegar og þær eru. Ég er samt ekki alveg viss um að Söngurinn til tunglsins eftir Dvorak njóti nægilegrar hylli. Það væri synd því í þeirri aríu býr guðdómleg fegurð. Maður verður beinlínis lotningarfullur.