fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Pólitísk mannvera

Í nýrri ljóðabók eftir Eirík Örn Norðdahl er fjallað um ýmis samfélagsleg málefni

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 7. maí 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óratorrek er ný ljóðabók eftir Eirík Örn Norðdahl en undirtitillinn er Ljóð um samfélagsleg málefni. Þarna er til dæmis að finna ljóð um ástandið á Gaza, fátækt, betri heim og hryðjuverk. Það liggur beint við að spyrja Eirík hvort hann vilji skilgreina sig sem pólitískt skáld.

„Já og nei,“ segir hann. „Ég vil ekki boða pólitík, en af því að ég er mjög pólitísk mannvera og upptekinn af samfélagslegum málefnum, þá væri sá skáldskapur sem fjallaði ekki um slík málefni ekki minn skáldskapur heldur skáldskapur einhvers annars. Hinn pólitíski veruleiki verður að vera með í skáldskap mínum af því hann skiptir mig máli.“

Þú ert harður vinstri maður, er það ekki rétt?

„Ég get alveg gengist við því að vera sósíalisti. En ég vil ekki endilega vera það í bókunum mínum. Þar hef ég öðrum skyldum að gegna. Í skáldskap sínum þarf höfundur ekki endilega að taka pólitíska afstöðu en hann á að kanna heiminn og veruleikann. Skoða hvað það þýðir að vera undirokaður, hvað það merkir að vera kúgari og gera það af heiðarleika. Skáldskapurinn á ekki að vera pólitískur í þeirri merkingu að hann fari í eina átt, en hann getur verið pólitískur í þeirri merkingu að hann fjalli um pólitíska hluti. Þar er númer eitt, tvö og þrjú að leggjast ekki í predikun. Ef maður ætlaði að skrifa þannig bækur gæti maður eins unnið á auglýsingastofu. Þá er skáldskapurinn orðinn að farartæki fyrir málstað og um leið orðinn rammóheiðarlegur.“

Tækifærið er núna

Þú segist vera sósíalisti. Hvernig líst þér á stofnun Sósíalistaflokks?

„Ég meðlimur númer 473 í honum. Það sem mér finnst áhugaverðast er að það sé verið að stofna flokk þremur og hálfu ári fyrir kosningar. Þar þarf að fara fram eitthvert pólitískt starf sem snýst ekki bara um að koma fólki á þing. Ef ekki tekst að byggja upp það starf á næstu þremur og hálfu ári þá hefur flokknum mistekist. Þá er það bara þannig. En tækifærið er núna.“

Hverju viltu breyta í þjóðfélaginu?

„Ég held að meinsemdin liggi fyrst og fremst í efnahagslegum ójöfnuði. Það felst mikið vald í því að eiga peninga og því valdi er mjög misskipt í þjóðfélaginu. Við sjáum líka alls kyns félagslegar meinsemdir sem mér finnst að skáldskapurinn geti ekki horft framhjá. Það eru alls konar grá svæði og skerjagarðar sem skáldskapurinn getur siglt um og það er mikilvægt að hann geri það.“

Eiríkur Örn verður 39 ára í sumar. Þegar blaðamaður spyr hann hvort hann haldi að hann muni eldast á þann hátt að hann verði ekki eins pólitískur og á unga aldri segir hann ekki mikla hættu á því. „Ég á kyn til að vera svona. Mjög margir í fjölskyldu minni, sérstaklega föðurfjölskyldu, hafa verið sósíalistar frá fæðingu fram á dánardægur.“

Hló að Vigni

Eiríkur Örn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012 fyrir Illsku sem óhætt er að segja að sé ögrandi skáldsaga. Hann er spurður hvernig viðbrögð honum finnst hann fá við verkum sínum. „Ég fæ allt litrófið. Sumum þykir ég þreytandi og ég sýni því skilning. Ég get verið þreytandi. Ég er að reyna að gera tiltekna hluti sem þurfa ekki að vera allra. Þeir eru samt þarna og ég ætla ekkert að fara að breyta mér. Svo þarf ég heldur ekki að bera mig illa. Ég hef fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin og það er alltaf verið að klappa mér á bakið.“

Skipti máli fyrir þig að fá Íslensku bókmenntaverðlaunin?

„Já, ég skuldaði svo mikinn skatt að milljónin bjargaði mér fyrir horn!

Ég var mjög lengi að skrifa Illsku. Mér fannst ég hafa spennt bogann mjög hátt og það hefði verið hryllilegt hefði bókin floppað. Ég veit ekki hvað ég hefði gert. Ég vann að henni í fjögur ár og á tímabili var hún gjörsamlega búin að heltaka mig. Tilhugsunin um að þetta væri kannski ekki til neins varð óskaplega þrúgandi á lokametrunum.“
Illska varð að leikriti sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar og fékk góðar viðtökur. „Bókin er þannig að það er ekki hægt að setja hana alla á svið. Ég hló að Vigni þegar hann sagði mér að hann ætlaði að gera leikrit upp úr henni. En svo fannst mér óskaplega gaman að sjá hvernig leikhópurinn gat leikið sér með hluti á sviðinu og gert svo margt sem hefði ekki getað verið í bók.“

Nær ekki sambandi við Reykjavík

Lestu mikið og hvers konar bókmenntir lestu?

„Ég les talsvert og í seinni tíð finnst mér mikilvægt að lesa hægt. Ég, sem krefst mikillar þolinmæði af lesendum mínum, les yfirleitt stuttar bækur. Ég er ekki viss um að ég væri minn besti lesandi hvað þetta varðar. Á tímabili las ég eiginlega ekkert nema mjög skrýtna framúrstefnuljóðlist en hef skilið við það í bili. Nú les ég allan fjárann.“

Eiríkur Örn býr á Ísafirði þar sem hann ólst upp. „Ég bjó lengi erlendis, bæði í Berlín og Helsinki og meira að segja stuttan tíma í Víetnam. Svo hef ég gert nokkrar tilraunir, tvær alvarlegar, til að búa í Reykjavík. Ég næ ekki alveg sambandi við þessa borg. Foreldrar mínir eru á Ísafirði, ég bý við hliðina á bróður mínum og systir mín er þarna í grennd. Margir æskuvinir mínir hafa flutt aftur til Ísafjarðar. Það er miklu meira við að vera nú en þegar ég var unglingur. Þarna eru kaffihús, stöðugar tónlistar- og leiklistarhátíðir og stutt á skíði. Ég vil hvergi annars staðar vera en á Ísafirði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum