Auk þess var Guðmundur Arnar Guðmundsson verðlaunaður fyrir bestu frumraunina
Kvikmyndin Hjartasteinn vann til tveggja verðlauna á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Belgrad í Serbíu. Tilkynnt var um vegsemdina í dag en íslenska myndin hlaut bæði dómnefndarverðlaun hátíðarinnar auk þess sem hún hlaut verðlaun fyrir bestu fyrstu mynd leikstjóra.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, var gestur í Vikunni með Gísla Marteini síðastliðinn föstudag. Hann fékk símtalið frá Serbíu skömmu fyrir þáttinn og þurfti að bóka miða í grænum hvelli til þess að veita verðlaununum viðtöku. Í spjalli hans við Gísla Martein kom fram að myndin væri innblásin af tímabili í hans eigin lífi þar sem hann bjó tímabundið í litlu þorpi úti á landi en að sagan sjálf væri skáldskapur.
Hinir ungu leikarar myndarinnar hafa fengið mikið lof fyrir frammistöðuna og um þá sagði Guðmundur: „Við æfðum gríðarlega vel, í um átta mánuði. Við pössuðum okkur að velja einlæga og metnaðarfulla krakka sem voru tilbúin til að leggja allt sitt í verkefnið,“ sagði Guðmundur Arnar.
Viðurkenningin í Serbíu þýðir að kvikmyndin hefur núna unnið til 24 alþjóðlegra verðlauna frá heimsfrumsýningu myndinnar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í september 2016. Myndin hlaut þrettán verðlaun á þessum síðustu fjórum mánuðum ársins 2016 og hefur nú bætt við sig um 11 verðlaunum til viðbótar á fyrstu mánuðum ársins 2017.
Þá eru ótalin þau níu EDDU-verðlaun sem Hjartasteinn hlaut á dögunum sem og skandinavísk netverðlaun hjá Cinema Scandinavia Awards.