The Nights of Zayandeh-Rood var bönnuð árið 1990
Kvikmynd eftir einn virtasta kvikmyndagerðarmann Írana, Mohsen Makhmalbaf, verður sýnd í breskum kvikmyndahúsum á næstu vikum, 27 árum eftir að lokið var við gerð myndarinnar.
Myndin sem um ræðir heitir Shabhaye Zayendeh-Rood, eða The Nights of Zayandeh-Rood, og segir hún frá írönskum fornleifafræðingi og dóttur hans á árunum í kringum írönsku byltinguna árið 1979 þegar stjórnarfar Írans breyttist úr keisaradæmi í íslamskt lýðveldi.
Myndin var mjög umdeild á sínum tíma og fékk Mohsen ógrynni af líflátshótunum eftir að tökum lauk.
Breska blaðið Guardian fjallaði um þetta á vef sínum og ræddi við leikstjórann, Mohsen, sem býr í London eftir að hafa farið í útlegð frá Íran. „Mér tókst að stela myndinni en ég get ekki farið nánar í það,“ sagði hann. Myndin verður sýnd í kvöld í Curzon Bloomsbury-kvikmyndahúsinu í London.
Myndin var 100 mínútur að lengd en írönsk yfirvöld klipptu 25 mínútna kafla úr myndinni áður en myndin var fyrst sýnd á Fajr-kvikmyndahátíðinni í Tehran árið 1990. Myndin fór þó aldrei í almenna sýningu enda var sýning á henni bönnuð samkvæmt ákvörðun íranskra dómstóla á þeim tíma. Búið var að klippa tólf mínútur til viðbótar af því eintaki sem Mohsen fékk fyrir skemmstu.
Sjálfsvíg koma nokkuð við sögu í myndinni og eru þau sett í samhengi við brostna drauma írönsku þjóðarinnar eftir byltinguna. Stjórnvöld litu svo á að í myndinni kæmi fram hörð gagnrýni á íslam, stjórnkerfi landsins og byltinguna.