Musa, nýjasta skáldsaga Sigurðar Guðmundssonar, fjallar um myndlistarmann í krísu – Ellin, dauðinn og sköpunarkrafturinn
Þetta er morguninn eftir útgáfuhófið. Einhverjir hafa setið að sumbli fram eftir. Nokkur botnfull rauðvínsglös, sígarettustubbar og tóbaksdósir standa enn á borðinu í lítilli spartískri íbúð í verkamannabústöðunum við Hringbraut. Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður afsakar draslið og byrjar að tína saman glösin en fær síðan hugboð: „Eigum við ekki að vera almennilegir menn, fara út á Hótel Sögu og fá okkur kaffi?“ spyr hann og blaðamaður tekur vel í tillöguna.
Sigurður Guðmundsson er fæddur árið 1942 og vakti fyrst athygli sem hluti af SÚM, hópi ungra og framsækinna listamanna sem hristu upp í íslensku menningarlífi undir lok sjöunda áratugarins. Hann flutti ungur til Hollands, kvæntist og starfaði þar um langt skeið – undanfarin ár hefur hann hins vegar verið búsettur í Kína. Þó að Sigurður sé hvað þekktastur fyrir ljósmyndaverk sín og höggmyndir er ástæða Íslandsferðarinnar og kveikja viðtalsins listaverk af öðrum toga: fjórða skáldsaga hans, Musa.
Musa fjallar um myndlistarmann í krísu. Hann er kominn af léttasta skeiði og finnur hvernig sköpunarkrafturinn dvínar með stöðugt dýpri og alvarlegri myndlistarkrísum. Hann ferðast til eyjunnar Hainan í Suður-Kínahafi til að skrifa sig út úr krísunni. Þegar hann sest við tölvuna finnur hann hins vegar í fyrsta skipti einnig fyrir ritstíflu. Hann reynir að kalla fram skáldskapargyðjuna sína, Musu, til að hjálpa sér úr þessu ófremdarástandi. Í þeim tilgangi endurskoðar sögumaðurinn og endurnýtir gamla texta eftir sig, texta sem birst hafa í fyrri bókum Sigurðar Guðmundssonar eða hafa leynst í hugarfylgsnum hans og á hörðum diskum í áratugi. Bókin verður þannig skáldleg og persónuleg vangavelta um sköpunarkraftinn, mannlega tilveru, ellina og jafnvel dauðann.
„Líf mitt ræðst ekki af ákvörðunum eða hugmyndum um hvað ég eigi að gera,“ svarar Sigurður þegar ég spyr hann af hverju hann ákvað að ferðast til kínversku eyjunnar Hainan og skrifa þar skáldsögu. Við erum búnir að panta okkur kaffi og sestir í djúpa stóla í anddyrinu á Hótel Sögu.
„Ég er meira eins og kýrnar. Mmmmmuuuu,“ baular hann djúpt. „Kýrnar standa og bíta gras, horfa svo sljóum augum í aðra átt og færa sig svo. Mmmmuuu! Ef það er gott þarna lengra í austri eða vestri þá staldra þær svolítið lengur við. Það er eiginlega þannig sem ég lifi. Hainan kom fyrst til mín í þess konar hugboði. Ég vaknaði einn morguninn og sagði bara Hæ-Nan! Ég þekkti staðinn ekki neitt og hafði aldrei komið þangað. Ég veit ekki hvort þetta er bara eitthvað „fónetískt“ en þá þurfti ég að minnsta kosti ekki að hugsa meira um það,“ segir hann og bætir við að allar fyrri bækur hans – Tabula rasa (1993), Ósýnilega konan (2000) og Dýrin í Saigon (2010) – hafi verið skrifaðar á stöðum sem hann þekkti ekki og hafði aldrei dvalið á áður.
„Þetta er ákveðin tækni sem hentar mér vel. Ég þekki sjálfan mig mjög vel og veit hvað hentar mér, enda hef ég verið að vinna með sjálfan mig „intensíft“ í hálfa öld. Maður hefur því lært svolítið á dýrið og veit hvernig það virkar. Ég hefði til dæmis aldrei fengið hugboð um að skrifa bókina í Amsterdam – sem ég þekki betur en Reykjavík. Hainan virkaði vel, svo ég sé ekkert eftir því að hafa fylgt hugboðinu. En hver nákvæmlega staðurinn er skiptir ekki máli, þessi bók minnist nánast ekkert á Hainan nema kannski helst hótelgluggann.“
Bókin fjallar um mikil vandræði sem fylgja sköpunarþurrð. En þú ert orðinn 75 ára gamall og gætir eflaust verið sestur í helgan stein ef þú vildir. Af hverju skiptir svona miklu máli að halda áfram að skapa?
„Ef ég er ekki sískapandi líður mér bara eins og rotnandi kjötstykki. Ég hef alltaf unnið við sköpun og hræðslan við að missa sköpunargáfuna er svolítið dramatísk hjá mér. Ég held að það sé nokkuð algengt að listamenn glími við þetta – það er svo ennþá verra ef þeir eru mjög þekktir.
Það sem gerir krísuna sem sagt ennþá pínlegri fyrir sögupersónuna í Musu er að á sama tíma og andlegt getuleysi er að verða algjört þá rís virðing hennar og velgengni í öfugu hlutfalli. Þetta minnir hann helst á Myndina af Dorian Gray,“ segir Sigurður og vitnar í þekktasta verk írska rithöfundarins Oscars Wilde. Sagan fjallar um hinn engilfagra nautnasegg Dorian Gray sem óskar þess að geta haldið í líkamlega fegurð sína en látið málverk af sér eldast og breytast í hans stað. Á meðan hinn síungi Dorian sekkur sífellt dýpra í líf nautna og siðspillingar verður hið málaða andlit stöðugt eldra, ljótara og illilegra. „Hjá mér eru það listaverkin sem eru hætt að fæðast en lófaklappið heldur samt áfram.“
„Þegar við sköpum listaverk tökum við eitt skref fram á við,“ segir Sigurður um almennt mikilvægi sköpunarinnar.
„Öfugt við sagnfræðingana sem líta til baka á söguna gogga listamenn inn í framtíðina. Kannski er þetta ekkert annað en manns eigin prívat framtíð – og eins manns framtíð er annars manns fortíð – en listir eru alltaf mólekúlin inni í breytingum. Listirnar framkvæma ekki breytingarnar heldur eru bara mólekúl í þeim. En þetta mólekúl er smitandi. Það getur smitað bæði aðra listamenn og annað fólk. Þetta sést til dæmis mjög vel í popptónlistarheiminum. Popptónlistin er svo öflug að hún fer rakleitt inn í hjörtu unga fólksins og gegnsýrir þau. Ég get ímyndað mér að hún sé mikill áhrifavaldur á það hvernig hver ný kynslóð þróast, hvað þetta fólk hugsar, hvernig það les, hvað það horfir á í kringum sig og hvaða stjórnmálaflokka það kýs. Þetta hræðast stjórnmálamenn auðvitað.“
Ef listsköpun teygir sig inn í mögulega framtíð, smitar okkur af hugmyndum og hvetur okkur þannig til að breyta umhverfi okkar, getum við þá jafnvel kallað hana útópískan verknað?
„Já, það getur verið útópískur verknaður að búa til gott popplag eða teikna teikningu. Aðalkikkið fyrir listamann er að gera eitthvað sem er komið lengra en hann sjálfur. Þetta er alltaf ferðalag, þú hrærist sjálfur og hreyfist. En svo erum við öll á mismunandi hraða. Þú getur líka farið í þetta ferðalag með því að njóta listar annarra, skoða framsækna geirann þar sem nýju hlutirnir eru að gerast. Og popptónlistin er mjög góð til þess að gera þetta – hún er langhraðskreiðust af listunum. Myndlistin fer bara á skjaldbökuhraða miðað við hana.“
Verða sköpunarkrísur á borð við þá sem þú fjallar um í bókinni algengari með aldrinum?
„Þegar listamenn eldast þá hægja þeir á sér. Þetta er náttúrulögmálið. Það er ekki þetta fjöruga fjör eins og þegar maður er ungur. En gæinn í þessari bók streitist á móti, hann vill gera hið ómögulega mögulegt, hann vill breyta gangi himintunglanna og gefa guðunum langt nef. Þetta er hægt, og þetta er það sem ég er að gera,“ segir Sigurður og segir frá því hvernig bókarskrifin hafi að lokum opnað fyrir flóðgáttir sköpunarkraftsins og myndlistarverk fæðst á fullum hraða.
Þú býst því ekki við að hætta að vinna eins og manneskja í hefðbundnu skrifstofustarfi myndi eflaust gera?
„Það verður að minnsta kosti ekki meðvituð ákvörðun, enda byggist líf mitt ekki á þeim. En ég mun kannski hætta að ferðast – ég ferðast allt of mikið fyrir minn smekk. Ef mér endist aldur til að verða gamall karl þá sé ég fyrir mér að ég geti setið og málað litlar vatnslitamyndir, setið með svona barnaliti og undirskál með vatni, kannski skrifað einstaka orð í myndirnar. Þá myndi ég ekkert vera með sýningar, væri bara eins og barn með litabók. Það þætti mér ágætis lending.“
Í þessari líkt og í fyrri skáldsögunum minnir aðalpersónan mikið á þig sjálfan og manni finnst maður fá að kynnast þér svolítið persónulega. Er þetta öðruvísi en í myndlistarverkunum þínum sem eru óhlutbundnari?
„Nei. Ég er fyrst og fremst skáld. Öll mín verk, hvort sem þau eru skúlptúrar, ljósmyndir eða bækur, eru skáldverk. Ég er myndskáld sem yrkir myndir í fyrstu persónu eintölu. Ég var stundum skammaður fyrir það að vinna alltaf út frá sjálfum mér þegar ég var yngri, en þetta er samt allt annað en einhver narsissismi. Ég held að aðgang að almennum sannleika, sannindum sem skipti lífið máli, sé að finna í hverri og einni manneskju. Til að sækja efnivið í listaverk fer maður því djúpt, djúpt niður í sjálfan sig, á einhvern stað sem er allt og allir eiga.“
Í bókinni fær aðalpersónan aðstoð frá hjálpardís sem hún finnur á internetinu, Hakký, til að takast á við ritstífluna. Hún hjálpar honum að tengjast gömlum textabrotum sem hún grefur upp í tölvunni en dregur hann svo að lokum sjálfan inn í bókarhandritið í fartölvunni. Hann vafrar stefnulaust um handritið, upplifir dramatíska martröð en finnur loks einhvers konar alsælu í listaverkinu. Listamaðurinn hverfur úr hinum efnislega veruleika en lifir áfram í verkinu.
„Forsendan fyrir raunverulegri sköpun er að eyða sjálfum sér og verða ekkert. Þá ert þú í besta ástandinu til að skilja allt, til að skilja allt það stóra. Þetta er kannski það sem á sér stað þarna í bókinni. Gæinn verður holdlaus, horfir niður á bringuna en sér bara jörðina fyrir neðan sig. Hann er orðinn svo smár að hann er ekki neitt. En ekkert er auðvitað næsti bær við allt.“
Þú segist hafa upplifað þetta, að sjálfið hverfi við sköpun listaverks. En bókin fjallar líka um ellina og þar af leiðandi um nálægðina við eyðingu hins líkamlega sjálfs. Er það eitthvað sem þessi reynsla af listsköpun hefur búið þig undir eða óttastu það?
„Sá sem ekki getur dáið er ekki til. Það sem lifir hlýtur, verður og á að deyja. Þá breytist maður bara í ösku – ef maður lætur brenna sig – eða breytist í ánamaðka í moldinni ef maður lætur jarða sig eins og ég ætla að gera. „Ormarnir skríða inn um eyrun og út um augun, ahh ahh ahh ahh,“ raular Sigurður. „Þetta er gamalt draugalag frá því að ég var krakki,“ útskýrir hann og hlær.
„En maður lifir samt áfram, í öllum sporunum sem maður skilur eftir sig. Það skiptir ekki máli hvort þetta séu listaverk eða eitthvað annað, og þetta hefur ekkert með frægð að gera. Frægð skiptir engu máli – frægðin er bara feik, mjög mikið feik og frekar flatt feik meira að segja. Það væri best ef listamenn uppgötvuðu þetta á unga aldri. Fólk lifir áfram í börnunum sínum, og það getur skilið eftir sig ástarspor og svo framvegis. Ég held að þetta sé bara ágæt „fúnksjón“ í lífi einstaklings.“