Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður sendir frá sér skáldsöguna Musa
Á föstudag kemur út hjá bókaútgáfunni Crymogeu skáldsagan Musa eftir Sigurð Guðmundsson. Það er fjórða skáldsagan frá Sigurði, sem er einn þekktasti myndlistarmaður þjóðarinnar, en áður hefur hann sent frá sér bækurnar Tabula Rasa (1993), Ósýnilega konan (2000) og Dýrin í Saigon (2010). Eins og fyrri verk Sigurðar dansar bókin á mörkum skáldsagnagerðar og ljóð- og myndlistar, en í henni rekur Sigurður sögu sköpunarinnar frá aldingarðinum Eden til okkar daga, og er aðalsöguhetjan fyrsti listamaðurinn, Eva.
Þegar bókarhöfundur ætlar að byrja að rekja söguna lendir hann hins vegar fljótt í mikilli sköpunarþurrð og getur hvorki skapað myndlist né skrifað texta. Til að vinna á vandanum kallar hann til hjálpardís af netinu sem hjálpar honum við að tengja sig gömlum textabrotum, ljóðum og sögum sem smám saman tengja höfundinn betur við hina miklu kvenmynd hans, músuna sem er upphaf sköpunarinnar og guðleg vera.