fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Bestu íslensku bíómyndirnar: 7. til 4. sæti

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 1. mars 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk kvikmyndagerð á sér stutta en áhugaverða sögu. Aðeins tæplega fjörtíu ár eru síðan framleiðsla á íslenskum kvikmyndum fór að taka almennilega við sér og íslenskar myndir að koma reglulega fyrir augu kvikmyndaunnenda. Á nýju árþúsundi hefur íslensk kvikmyndagerð blómstrað, íslenskar myndir náð máli og notið virðingar víða um heim. Nú er kominn tími til að líta yfir farinn veg og hefur DV fengið 18 sérfræðinga til að velja bestu íslensku bíómyndina frá upphafi. Á Topp 11 listanum er tíu myndir eftir karlleikstjóra en aðeins einni mynd er leikstýrt af konu, elsta myndin er 35 ára en tvær nýjustu eru frá árinu 2015, þrjár af ellefu bestu myndunum eru byggðar á skáldsögum, Dagur Kári leikstýrir tveimur myndum á listanum en Friðrik Þór á flestar, þrjár talsins.


7. sæti – Fúsi (2015)

Eftir tvær myndir á erlendum málum sneri leikstjórinn Dagur Kári Pétursson sér aftur að íslenskum veruleika árið 2015 í mynd um hjartahreina einstæðinginn, flugvallarstarfsmanninn og stríðsáhugamanninn Fúsa, leikinn af Gunnari Jónssyni. Sagan segir frá því þegar tvær kvenpersónur hrista upp í vel afmörkuðum þægindahring Fúsa, átta ára stúlka sem flytur í blokkina með föður sínum og kona sem hann kynnist á línudansnámskeiði og verður ástfanginn af. Myndin hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.

„Hér er um einstaklega fallega og hjartnæma mynd að ræða, með ögn af kómík en drama þess á milli,“ segir Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta tjaldsins á ÍNN, um myndina. „Gunnar Jónsson er mjög sannfærandi sem hinn sérkennilegi en barnslega góði Fúsi. Myndatakan er einnig listaverk út af fyrir sig, en hún virðist sækja innblástur til gamalla meistaraverka frá Skandinavíu, Rússlandi og annars staðar frá, sem gerir mikið fyrir andrúmsloft myndarinnar. Líklega besta kvikmynd Dags Kára til þessa!“

Valur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, nefnir myndina einnig sem eina bestu íslensku myndina: „Ótrúlega hjartnæm saga sem tekst að forðast alla væmni en samt gefa okkur hamingjusaman endi sem hægt er að trúa á. Mynd sem fjallar um það litla í hinu stóra og það stóra í hinu litla.“

Ótrúlega hjartnæm saga sem tekst að forðast alla væmni en samt gefa okkur hamingjusaman endi sem hægt er að trúa á.


6. sæti – Sódóma Reykjavík (1992)

Sódóma Reykjavík er einhver best heppnaða grínmynd sem gerð hefur verið á Íslandi. Hún var frumsýnd í lok árs 1992 og naut strax mikilla vinsælda, árið eftir var hún svo sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Sódóma er fyrsta mynd Óskars Jónassonar í fullri lengd og fjallar hún um bifvélavirkjann Axel, leikinn af Birni Jörundi Friðbjörnssyni, sem kemst í vandræði þegar sjónvarpsfjarstýring mömmu hans týnist. Leitin breytist fljótlega í æsilegan og farsakenndan eltingarleik um undirheima Reykjavíkur, þar sem ógleymanlegir karakterar á borð við Brjánsa sýru ráða ríkjum, og endar líklega í frægasta partíi íslenskrar kvikmyndasögu á Dúfnahólum 10.
Handrit Óskars er frábært og sést það best á hinum fjölmörgu frösum sem hafa lifað með þjóðinni undanfarin 25 ár. Það er varla hægt að hugsa um partístand í Reykjavík án þess að vitna á einhvern hátt í Sódómu Reykjavík, og má til dæmis nefna að nöfn tveggja skemmtistaða sem starfræktir hafa verið í borginni á undanförnum árum hafa verið beinar tilvísanir í myndina. Tónlistin leikur stórt hlutverk í þessu og var titillag myndarinnar með Sálinni hans Jóns míns meðal annars valið besta íslenska kvikmyndalagið á Edduverðlaunahátíðinni 2015.


5. sæti – Stella í orlofi (1986)

Stella í orflofi er eina myndin sem er leikstýrt af konu sem nær á listann yfir 11 bestu myndirnar. Stella í orlofi er enn fremur efsta hreinræktaða grínmyndin á listanum. Stella sem leikin er af Eddu Björgvinsdóttur er ein eftirminnilegasta persóna íslenskrar kvikmyndasögu, í myndinni glímir hún meðal annars við geðilla karla, tryllt börn, alkóhólista, flugmenn, Lionsklúbbinn Kidda, danskar drósir og laxeldi.

Besta myndin að mati þjóðarinnar

Besta myndin að mati þjóðarinnar

Almúginn er ekki alltaf sammála sérfræðingunum og því gáfum við lesendum tækifæri til að velja sína uppáhaldsmynd í kosningu á DV.is um síðastliðna helgi. Hægt var að velja milli 40 vinsælla kvikmynda og var niðurstaðan eftirfarandi.
  1. Stella í orlofi
  2. Englar Alheimsins
  3. Sódóma Reykjavík
  4. Með allt á hreinu
  5. Djöflaeyjan
  6. Vonarstræti
  7. Nýtt líf
  8. Börn náttúrunnar
  9. Svartur á leik
  10. Hrútar

Maríanna Friðbjörnsdóttir, fjölmiðlari, nefnir myndina sem eina þá bestu í íslenskri kvikmyndasögu: „Stella er holdgervingur íslenskra kvenna og hún finnst víða í dag. Handritið er eftir Guðnýju Halldórsdóttur, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrði og aðalhlutverkið er í höndum Eddu Björgvins. Þegar þessar þrjár konur leggjast á eitt, kemur eingöngu snilldin ein út úr því og Stella í orlofi er ein ástsælasta gamanmynd sem framleidd hefur verið á íslenska kvikmyndamarkaðnum.“

Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður Hvíta Tjaldsins á ÍNN, nefnir hana einnig sem eina bestu íslensku myndina frá upphafi: „Það verður seint sagt að hún sé mjög menningarleg eða listræn en er hins vegar full af eftirminnilegum persónum og drepfyndnum augnablikum. Einfaldur söguþráður og mikið, vel heppnað grín er oft ávísun á góða gamanmynd!“

Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, segir myndina einnig vera í sérstöku uppáhaldi: „Íslensk kvikmyndagerð virðist oft einskorðast við þyngra efni, og þar af leiðandi er grínformið komið frekar stutt á veg. Danir eru til dæmis miklu betri en við í þessu, og Norðmenn líka, en samt erum við mögulega fyndnasta þjóð í heimi miðað við höfðatölu. Ég elska góðar grínmyndir, og Stella er best heppnaða grínmynd Íslandssögunnar. Myndin var gerð fyrir rúmlega þrjátíu árum en húmorinn í henni er bara merkilega sígildur, sem er mjög óvenjulegt fyrir gamanmyndir. Skopskynið hjá þjóðinni breytist svo mikið og hratt og okkur finnst kannski eitthvað tabú í dag sem okkur þótti fyndið fyrir 30 árum og öfugt. En þessi mynd bara virkar, sagan er geggjuð, þemun klassísk og Edda Björgvins, Gestur Einar og Laddi í þessum fáránlegu hlutverkum sínum geta ennþá fengið mig til að grenja úr hlátri.“

Stella er best heppnaða grínmynd Íslandssögunnar.


4. sæti – Djöflaeyjan (1996)

Það kemur ekki á óvart að Friðrik Þór Friðriksson sé sá leikstjóri sem á flestar myndir á listanum yfir bestu íslensku bíómyndirnar, þrjár af ellefu bestu myndunum samkvæmt álitsgjöfum DV. Kvikmyndin Djöflaeyjan frá 1996 er byggð á metsölubókum Einars Kárasonar um lífið í Braggahverfinu í Reykjavík eftir seinna stríð. Sagan segir frá sorgum og sigrum stórfjölskyldu Karólínu spákonu, fjölskylduátök, vináttu, lífsbaráttuna, ástina og sorgina.

„Á sínum tíma dýrasta mynd Íslandssögunnar og það sést á skjánum,“ segir Valur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi. „Braggahverfi eftirstríðsáranna eru endurreist og því miður er allt of sjaldan sem maður sér Íslandssöguna endurskapaða með þessum hætti. Balti er eins og fæddur í hlutverk Badda, meira að segja nöfnin eru svipuð. Fangar andrúmsloft sögu og tímabils vel.“

Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður nefnir myndina sem eina af þeim allra bestu í íslenskri kvikmyndasögu: „Gísli Halldórsson tók mann í tilfinningalegt ferðalag sem ég hef bara upplifað í þessari frábæru mynd Friðriks. Það er leikur hans sem setur þessa mynd í þennan flokk fyrir mig.“

„Í Djöflaeyjunni kemur fram fjölbreyttur hópur þekktustu leikara þjóðarinnar, og af mörgum kynslóðum og sennilega yrði erfitt að finna betri heimild um leikaraflóruna á Íslandi á þessum tíma. Flott tónlist, góð myndataka og viðeigandi umhverfi gerir Djöflaeyjuna að períódumynd eins og hún gerist best!“ segir Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta tjaldsins á ÍNN.

Flott tónlist, góð myndataka og viðeigandi umhverfi gerir Djöflaeyjuna að períódumynd eins og hún gerist best!


Álitsgjafar DV

Anna María Karlsdóttir kvikmyndaframleiðandi, Arnar Elísson kvikmyndafræðingur, Ásgeir Ingólfsson menningarblaðamaður, Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður, Björn Þór Vilhjálmsson lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Elsa G. Björnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Heiða Jóhannsdóttir aðjúnkt í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Hugleikur Dagsson teiknimyndasögu- og sjónvarpsþáttagerðarmaður, Hrönn Marinósdóttir stjórnandi Reykjavík International Film Festival, Kristinn Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Maríanna Friðjónsdóttir fjölmiðlari, Nína Richter sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, Oddný Sen kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís, Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, Valur Gunnarsson rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, Þóra Hilmarsdóttir kvikmyndagerðarkona, Þórir Snær Sigurðarson umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta Tjaldið á ÍNN.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“