Hinn 22 ára gamli Irdens Exantus var verðlaunaður fyrir leik í fyrstu kvikmynd sinni
Ein af aðalmyndum Franskrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík er kanadíska myndin Fram, fram fylking (Guibord s’en va-t-en guerre). Hinn 22 ára gamli Irdens Exantus er í burðarhlutverki í myndinni.
Myndin er pólitísk háðsádeila, sem gerist í Québec. Atkvæði óháðs þingmanns ræður úrslitum um það hvort kanadíski herinn skerist í leikinn í Austurlöndum nær. Til að átta sig á málum fer hann í yfirreið um kjördæmið ásamt Souverain, sem Irdens Extantus leikur, stúdent frá stjórnmálavísindum frá Haítí sem er í starfsnámi hjá honum.
Þetta er fyrsta kvikmyndahlutverk Irdens Exantus en hann hreppti verðlaun sem besti leikari í aukahlutverki á Québec Cinema Awards árið 2016 fyrir leik sinni í myndinni og var einnig tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki á Canadian Screen Awards sama ár. „Ég bjóst aldrei við að verða verðlaunaður fyrir fyrsta kvikmyndahlutverk mitt,“ segir leikarinn. Aðspurður hvernig hann fékk hlutverkið segir hann: „Vinur minn benti mér á auglýsingu um prufutöku. Ég hugsaði með mér að það sakaði ekki að prófa, það gæti bara verið gaman. Ég fór í nokkrar prufutökur og eftir það hringdi leikstjórinn, Philippe Falardeau, í mig og sagði að hlutverkið væri mitt. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég fengi jafn gott hlutverk og þetta á þessum tímapunkti í lífi mínu. Ég leik dásamlegan karakter og er í burðarhlutverki.“
Eru sterk pólitísk skilaboð í myndinni?
„Myndin fjallar um fólk sem hefur ákveðnar skoðanir og íhugar ekki skoðanir annarra og gleymir því að allir hafa eitthvað til síns máls. Sumir segja að stjórnmálamenn séu spilltir en það er ekki rétt, þeir eru það ekki allir. Sumir reyna að gera það rétta og hjálpa fólki en það er ekki eins auðvelt og fólk heldur. Það er mikilvægt að setja sig inn í mál og ræða þau, þannig að til verði alvöru umræða. Það eru meðal annars þessi skilaboð sem er verið að koma á framfæri. Þetta er líka falleg saga um vináttu stjórnmálamanns og lærlings.“
Ertu pólitískur?
„Ég var það ekki áður en ég lék í myndinni. Núna hef ég meiri áhuga en er samt ekki stórpólitískur. Ég er orðinn mjög meðvitaður um mikilvægi þess að fólk nýti kosningarétt sinn. Mörgum finnst að það sé ekki nauðsynlegt að kjósa vegna þess að það breyti engu. Ég er ósammála því, við verðum að nýta kosningaréttinn.“
Hefurðu skoðun á nýjum forseta Bandaríkjanna, Donald Trump?
„Sumir vina minna í Bandaríkjunum hafa sent mér skilaboð og segjast ætla að flytja til Kanada vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Í byrjun var hlegið að Trump og talið ómögulegt að hann yrði forseti. Ég held að margir hafi setið heima í kosningunum í stað þess að mæta á kjörstað og ætli það eigi ekki sinn þátt í að úrslitin voru á þennan veg. Trump fékk mikla neikvæða fjölmiðlaathygli sem ég held að hafi snúist í andhverfu sína, margir fóru að líta á hann sem fórnarlamb, þótt það sem sagt var um hann væri satt. Trump er ekki dæmigerður stjórnmálamaður og þess vegna vildu margir kjósendur gefa honum tækifæri. Þeir hugsuðu sem svo að það væri ekki vond ákvörðun að kjósa hann en það hefur reynst vera vond ákvörðun.“
Exantus fæddist í Kanada en foreldrar hans, sem eru frá Haítí fluttust þangað fyrir 26 árum. „Það er gott að búa í Kanada og fólk er velkomið þangað,“ segir hann.
Hann er spurður hvort hann haldi að erfitt sé fyrir litað fólk að fá góð kvikmyndahlutverk. „Já, það er erfitt. Í Kanada, eins og örugglega víðar, er oft litið á litað fólk sem útlendinga. Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er litað fólk oft frekar í hlutverki útlendinga en innfæddra. Til að litað fólk fái aukið vægi kvikmyndum og sjónvarpi og sé lýst á raunsannan hátt þurfa fleiri litaðir einstaklingar að skrifa handrit.“
Exantus hefur þegar leikið í annarri kvikmynd sinni, sálfræðidrama sem fjallar um einelti og samkeppni milli nemenda. Þessa stundina leikur hann í kanadískum framhaldsmyndaflokki. Hann segist vilja helga sig leiklistinni: „Þetta er það sem ég vil gera.“