Leikkonan Hera Hilmarsdóttir hefur hreppt eitt af aðalhlutverkunum í myndinni Mortal Engines. Um er að ræða mynd eftir leikstjórann og framleiðandann Peter Jackson. Christian Rivers, sem unnið hefur við tæknibrellur í stórmyndum Jackson, mun leikstýra myndinni.
Mortal Engines er byggð á samnefndri bók eftir Philip Reeve, úr bókaflokknum Predator Cities. Sagan gerist í framtíðinni en höfundurinn hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir bókina, svo sem bókaverðlaun Guardian og Los Angeles Times.
Um er að ræða fyrstu Hollywood-mynd Heru. Hún mun leika hlutverk Hester Shaw. Robert Sheehan og Ronan Raftery fara með önnur aðalhlutverk. Gert er ráð fyrir að myndin verði sýnd í desember á næsta ári.