Þættirnir snúa aftur þann 31. október næstkomandi
Önnur þáttaröðin af hinum geysivinsælu þáttum, Stranger Things, fer í loftið á Netflix næsta haust. Í gærkvöldi var fyrsta stiklan úr annarri seríunni frumsýnd.
Fyrri þáttaröðin sagði frá ungum dreng í litlum smábæ sem hverfur sporlaust inn í aðra vídd okkar heims og leit móður hans, vina og annarra í bænum að sannleikanum um hvarf hans. Þættirnir hafa á sér dulúðlegan og yfirnáttúrulegan blæ og það virðast áhorfendur hafa kunnað að meta. Fjölmargar vísanir eru í verk eftir til dæmis Stephen Spielberg og Stephen King í þáttunum.
Netflix staðfesti í haust að önnur sería yrði gerð og nú er búið að staðfesta að hún fari í loftið þann 31. október næstkomandi, eða um það leyti sem hrekkjavakan gengur í garð vestanhafs. Allir þættirnir verða aðgengilegir strax frá fyrsta degi sem þýðir að margir munu sitja límdir yfir skjánum í lok október og byrjun nóvember.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver söguþráður annarrar seríunnar verður, en Matt Duffer sem er maðurinn á bak við Stranger Things ásamt bróður sínum, Ross Duffer, sagði fyrir skemmstu að atburðirnir muni tengjast atburðunum í fyrstu þáttaröðinni.
„Fyrsta þáttaröðin gerðist á sex eða sjö daga tímabili – sem er mjög skammur tími. Hugmyndir okkar með annarri þáttaröðinni er að leiða í ljós og skoða afleiðingar og eftirmál þeirra atburða sem gerðust í fyrstu seríunni,“ sagði Matt.
Hér að neðan má sjá fyrstu stikluna úr annarri þáttaröðinni: