Íslensk kvikmyndagerð á sér stutta en áhugaverða sögu. Aðeins tæplega fjörtíu ár eru síðan framleiðsla á íslenskum kvikmyndum fór að taka almennilega við sér og íslenskar myndir að koma reglulega fyrir augu kvikmyndaunnenda. Á nýju árþúsundi hefur íslensk kvikmyndagerð blómstrað, íslenskar myndir náð máli og notið virðingar víða um heim. Nú er kominn tími til að líta yfir farinn veg og hefur DV fengið 18 sérfræðinga til að velja bestu íslensku bíómyndina frá upphafi. Á Topp 11 listanum er tíu myndir eftir karlleikstjóra en aðeins einni mynd er leikstýrt af konu, elsta myndin er 35 ára en tvær nýjustu eru frá árinu 2015, þrjár af ellefu bestu myndunum eru byggðar á skáldsögum, Dagur Kári leikstýrir tveimur myndum á listanum en Friðrik Þór á flestar, þrjár talsins.
Þessi kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar er byggð á samnefndri bók Einars Más Guðmundssonar um glímu bróður hans við geðhvarfasýki. Bókin fékk á sínum tíma Menningarverðlaun DV og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hefur æ síðan verið ein vinsælasta skáldsaga landsins. Í mynd Friðriks Þórs leikur Ingvar E Sigurðsson Pál, ungan og hæfileikaríkan mann sem missir smám saman tökin á lífi sínu og er sendur á Klepp þar sem fyrir er skrautlegt persónugallerí. Þrátt fyrir erfiðleikana myndast sterk vináttubönd meðal vistmannanna á geðsjúkrahúsinu. Myndin hjálpaði til við að draga upp á yfirborðið umræður um einn jaðarsettasta hóp íslensks samfélags, geðveika, auk þess að varpa ljósi á mismunandi birtingarmyndir andlegra veikinda – sem er svo snilldarlega fangað í orðatiltæki úr bókinni: „Kleppur er víða.“ Hljómsveitin Sigur Rós gerði magnaða tónlist fyrir myndina, einmitt á sama tíma og sveitin var að öðlast heimsfrægð fyrir plötuna Ágætis byrjun.
—
Hrafninn flýgur er þriðja kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar í fullri lengd og fyrsta víkingamyndin sem hann gerði – en slíkar myndir áttu eftir að eiga hug hans allan á næstu árum. Jakob Þór Einarsson leikur Írann Gest sem fer til Íslands til að hefna sín á víkingum sem myrtu foreldra hans og rændu barnungri systur. Myndin hefur verið notuð í kennslu víða á Norðurlöndum og því geta margir Skandinavar þulið upp fleygar línur úr myndinni og þá allra helst: „Þungur hnífur“.
„Ein sú fyrsta og enn ein sú besta,“ segir Valur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi. „Fyrsti íslenski víkingavestrinn segir einfalda sögu um hefnd en með tvisti sem Hollywood á erfitt með að toppa. Og hún snýr Íslandssögunni á haus, við erum jú ekki bara afkomendur kónga heldur líka þræla. Hefur elst undarlega vel, fyrir utan tónlistina. Kannski hefur enginn hér lagt í að gera víkingamyndir eftir Hrafn vegna þess hve erfitt er að stíga út úr skugga hans.“
Arnar Elísson kvikmyndafræðingur telur myndina einnig eina þá bestu í íslenskri kvikmyndasögu: „Besta víkingamynd allra tíma er íslensk og kom út árið 1984. Hrafninn flýgur er íslenskur vestri um mann sem ferðast til Íslands til þess að hefna dauða foreldra sinna. Hrafninn flýgur er gerð með innblæstri frá japönsku samúræjamyndum Akira Kurusawa og ítölsku spagettívestrum Sergio Leone. Hrafn Gunnlaugsson er augljóslega að herma eftir sínum uppáhaldskvikmyndum og það skilar sér á tjaldið með ofursvölum persónum og spennandi söguþræði. Myndin lítur rosalega vel út, það er uppreisnarfílíngur í Hrafni sem kýs stíl í stað sögulegrar nákvæmni. Það er óhugsandi að nokkur geti gert víkingamynd í dag án þess að verða fyrir áhrifum frá Hrafninn flýgur.“
Það er óhugsandi að nokkur geti gert víkingamynd í dag án þess að verða fyrir áhrifum frá Hrafninn flýgur.
Eina tónlistarmyndin á Topp 11 listanum er Stuðmannamyndin Með allt á hreinu, ein ástsælasta gamanmynd íslenskrar kvikmyndasögu. Myndin naut fádæma vinsælda í kvikmyndahúsum eftir að hún var frumsýnd í desember 1982 – og hefur oft verið kölluð vinsælasta íslenska bíómyndin. Myndin fjallar um hljómsveit sem vegna ósættis klofnar í tvær kynjaskiptar fylkingar sem ferðast í kjölfarið um Ísland og keppast um hylli þjóðarinnar. Þetta er „feel-good“ tónlistargamanmynd sem aldrei virðist úreldast. Ekki aðeins sívinsæl popplögin sem heyrðust fyrst í myndinni heldur fjölmargar persónur og brandarar hafa lifað með þjóðinni æ síðan, til að mynda var „Inn, út, inn, inn, út,“ valinn besti frasi íslenskrar kvikmyndasögu á Edduverðlaunahátíðinni 2014.
„Fyrir utan stórkostleg tónlistaratriði og skemmtilega karaktera þá er hér um að ræða bestu íslensku vegamyndina,“ segir Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndagerðarkona. „Hún er full af fjöri og hressandi ungæðishætti auk þess sem allt flæði í henni er sérlega gott, aldrei dauður punktur. Það hlýtur að vera gæðamerki að maður nenni að horfa á kvikmynd aftur og aftur, og það áratugum síðar.“
Fyrir utan stókostleg tónlistaratriði og skemmtilega karaktera þá er hér um að ræða bestu íslensku vegamyndina.
Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson var fyrsta íslenska myndin til að hljóta stór verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes þegar hún hlaut Un Certain Regard, verðlaun sem eru ætluð sérstaklega frumlegum og óvenjulegum kvikmyndum. Myndin fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi en talast ekki við.
„Kvikmyndin Hrútar eftir Grím virðist einföld við fyrstu sýn, en í henni má finna dýpri tengingar þegar grannt er skoðað,“ segir Oddný Sen kvikmyndafræðingur. „Hún lýsir tveimur andhetjum á listavel gerðan hátt, andhetjum sem virðast að einhverju leyti standa utan við raunveruleikann, en sýna ást bóndans á búfénaði sínum og ævistarfi. Magnað lokaatriðið tengir áhorfandann við heim töfra og lýsir kærleika sem á einhvern hátt verður alheimslegur.“
Tómas Valgeirsson, kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, segir einnig að allt umtalið og verðlaunahlassið sé vel verðskuldað: „Ekki er það síður vegna þess að þeir Siggi Sigurjóns og Teddi Júl eru geysilega sterkir saman sem sauðbændabræður sem hafa ekki spjallað í um það bil 40 ár. Hvert augnaráð leikaranna kemur einhverju til skila og nýtast þau sem innri rödd karaktera oft, enda fámál en kuldalega afslöppuð saga sem fjallar einmitt um tengingarleysi, biturleika og þrjósku. Húmorinn kemur hér allur frá karakterunum og tónninn léttur en tragískur. Hrútar er svo sem ekki allra en hún einbeitir sér sterkt að því sem hún hefur og af mikilli sál. Óaðfinnanleg tæknivinnsla og klisjulaus framvinda innsiglar svo dílinn.“
Magnað lokaatriðið tengir áhorfandann við heim töfra og lýsir kærleika sem á einhvern hátt verður alheimslegur.
Eftir tvær myndir á erlendum málum sneri leikstjórinn Dagur Kári Pétursson sér aftur að íslenskum veruleika árið 2015 í mynd um hjartahreina einstæðinginn, flugvallarstarfsmanninn og stríðsáhugamanninn Fúsa, leikinn af Gunnari Jónssyni. Sagan segir frá því þegar tvær kvenpersónur hrista upp í vel afmörkuðum þægindahring Fúsa, átta ára stúlka sem flytur í blokkina með föður sínum og kona sem hann kynnist á línudansnámskeiði og verður ástfanginn af. Myndin hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
„Hér er um einstaklega fallega og hjartnæma mynd að ræða, með ögn af kómík en drama þess á milli,“ segir Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta tjaldsins á ÍNN, um myndina. „Gunnar Jónsson er mjög sannfærandi sem hinn sérkennilegi en barnslega góði Fúsi. Myndatakan er einnig listaverk út af fyrir sig, en hún virðist sækja innblástur til gamalla meistaraverka frá Skandinavíu, Rússlandi og annars staðar frá, sem gerir mikið fyrir andrúmsloft myndarinnar. Líklega besta kvikmynd Dags Kára til þessa!“
Valur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, nefnir myndina einnig sem eina bestu íslensku myndina: „Ótrúlega hjartnæm saga sem tekst að forðast alla væmni en samt gefa okkur hamingjusaman endi sem hægt er að trúa á. Mynd sem fjallar um það litla í hinu stóra og það stóra í hinu litla.“
Ótrúlega hjartnæm saga sem tekst að forðast alla væmni en samt gefa okkur hamingjusaman endi sem hægt er að trúa á.
Sódóma Reykjavík er einhver best heppnaða grínmynd sem gerð hefur verið á Íslandi. Hún var frumsýnd í lok árs 1992 og naut strax mikilla vinsælda, árið eftir var hún svo sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Sódóma er fyrsta mynd Óskars Jónassonar í fullri lengd og fjallar hún um bifvélavirkjann Axel, leikinn af Birni Jörundi Friðbjörnssyni, sem kemst í vandræði þegar sjónvarpsfjarstýring mömmu hans týnist. Leitin breytist fljótlega í æsilegan og farsakenndan eltingarleik um undirheima Reykjavíkur, þar sem ógleymanlegir karakterar á borð við Brjánsa sýru ráða ríkjum, og endar líklega í frægasta partíi íslenskrar kvikmyndasögu á Dúfnahólum 10.
Handrit Óskars er frábært og sést það best á hinum fjölmörgu frösum sem hafa lifað með þjóðinni undanfarin 25 ár. Það er varla hægt að hugsa um partístand í Reykjavík án þess að vitna á einhvern hátt í Sódómu Reykjavík, og má til dæmis nefna að nöfn tveggja skemmtistaða sem starfræktir hafa verið í borginni á undanförnum árum hafa verið beinar tilvísanir í myndina. Tónlistin leikur stórt hlutverk í þessu og var titillag myndarinnar með Sálinni hans Jóns míns meðal annars valið besta íslenska kvikmyndalagið á Edduverðlaunahátíðinni 2015.
Stella í orflofi er eina myndin sem er leikstýrt af konu sem nær á listann yfir 11 bestu myndirnar. Stella í orlofi er enn fremur efsta hreinræktaða grínmyndin á listanum. Stella sem leikin er af Eddu Björgvinsdóttur er ein eftirminnilegasta persóna íslenskrar kvikmyndasögu, í myndinni glímir hún meðal annars við geðilla karla, tryllt börn, alkóhólista, flugmenn, Lionsklúbbinn Kidda, danskar drósir og laxeldi.
Maríanna Friðbjörnsdóttir, fjölmiðlari, nefnir myndina sem eina þá bestu í íslenskri kvikmyndasögu: „Stella er holdgervingur íslenskra kvenna og hún finnst víða í dag. Handritið er eftir Guðnýju Halldórsdóttur, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrði og aðalhlutverkið er í höndum Eddu Björgvins. Þegar þessar þrjár konur leggjast á eitt, kemur eingöngu snilldin ein út úr því og Stella í orlofi er ein ástsælasta gamanmynd sem framleidd hefur verið á íslenska kvikmyndamarkaðnum.“
Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður Hvíta Tjaldsins á ÍNN, nefnir hana einnig sem eina bestu íslensku myndina frá upphafi: „Það verður seint sagt að hún sé mjög menningarleg eða listræn en er hins vegar full af eftirminnilegum persónum og drepfyndnum augnablikum. Einfaldur söguþráður og mikið, vel heppnað grín er oft ávísun á góða gamanmynd!“
Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, segir myndina einnig vera í sérstöku uppáhaldi: „Íslensk kvikmyndagerð virðist oft einskorðast við þyngra efni, og þar af leiðandi er grínformið komið frekar stutt á veg. Danir eru til dæmis miklu betri en við í þessu, og Norðmenn líka, en samt erum við mögulega fyndnasta þjóð í heimi miðað við höfðatölu. Ég elska góðar grínmyndir, og Stella er best heppnaða grínmynd Íslandssögunnar. Myndin var gerð fyrir rúmlega þrjátíu árum en húmorinn í henni er bara merkilega sígildur, sem er mjög óvenjulegt fyrir gamanmyndir. Skopskynið hjá þjóðinni breytist svo mikið og hratt og okkur finnst kannski eitthvað tabú í dag sem okkur þótti fyndið fyrir 30 árum og öfugt. En þessi mynd bara virkar, sagan er geggjuð, þemun klassísk og Edda Björgvins, Gestur Einar og Laddi í þessum fáránlegu hlutverkum sínum geta ennþá fengið mig til að grenja úr hlátri.“
Stella er best heppnaða grínmynd Íslandssögunnar.
Það kemur ekki á óvart að Friðrik Þór Friðriksson sé sá leikstjóri sem á flestar myndir á listanum yfir bestu íslensku bíómyndirnar, þrjár af ellefu bestu myndunum samkvæmt álitsgjöfum DV. Kvikmyndin Djöflaeyjan frá 1996 er byggð á metsölubókum Einars Kárasonar um lífið í Braggahverfinu í Reykjavík eftir seinna stríð. Sagan segir frá sorgum og sigrum stórfjölskyldu Karólínu spákonu, fjölskylduátök, vináttu, lífsbaráttuna, ástina og sorgina.
„Á sínum tíma dýrasta mynd Íslandssögunnar og það sést á skjánum,“ segir Valur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi. „Braggahverfi eftirstríðsáranna eru endurreist og því miður er allt of sjaldan sem maður sér Íslandssöguna endurskapaða með þessum hætti. Balti er eins og fæddur í hlutverk Badda, meira að segja nöfnin eru svipuð. Fangar andrúmsloft sögu og tímabils vel.“
Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður nefnir myndina sem eina af þeim allra bestu í íslenskri kvikmyndasögu: „Gísli Halldórsson tók mann í tilfinningalegt ferðalag sem ég hef bara upplifað í þessari frábæru mynd Friðriks. Það er leikur hans sem setur þessa mynd í þennan flokk fyrir mig.“
„Í Djöflaeyjunni kemur fram fjölbreyttur hópur þekktustu leikara þjóðarinnar, og af mörgum kynslóðum og sennilega yrði erfitt að finna betri heimild um leikaraflóruna á Íslandi á þessum tíma. Flott tónlist, góð myndataka og viðeigandi umhverfi gerir Djöflaeyjuna að períódumynd eins og hún gerist best!“ segir Þórir Snær Sigurðarson, umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta tjaldsins á ÍNN.
Flott tónlist, góð myndataka og viðeigandi umhverfi gerir Djöflaeyjuna að períódumynd eins og hún gerist best!
Hápunktur magnaðs ferils Friðriks Þórs Friðrikssonar er líklega Börn náttúrunnar, sem er eina íslenska myndin sem hefur verið tilnefnd sem besta erlenda myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni. Gísli Halldórsson leikur roskinn bónda sem bregður búi og flyst á elliheimili í Reykjavík. Hann hittir gamla vinkonu sína og saman strjúka þau af elliheimilinu til að halda á æskuslóðirnar.
„Mikilvægasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson, en hlutur hans í íslenskri kvikmyndasögu verður ekki ofmetinn,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. „Ég held að það hafi bjargað miklu fyrir þróun íslenskrar kvikmyndamenningar að við eignuðumst evrópskan listabíósmeistara á akkúrat þeim tímapunkti sem við gerðum. Frá Rokkinu í gegnum Skytturnar og að Börnunum, þarna sjáum við ísbrjót í mannsmynd að verki, ísbrjót sem er gegnsósa í módernísku kvikmyndahefðinni, þekkir hana eins og handarbakið á sér.“
Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís, nefnir myndina einnig sem eina bestu íslensku kvikmyndina frá upphafi: „Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson er listavel gerð. Sagan er einföld og innri átök eru sýnd með látlausum hætti. Myndin er vel uppbyggð og það er stígandi í myndinni þannig að eftir því sem líður á myndina endurspeglar landslagið sálarástand persónanna og verður villtara og frumstæðara. Líf og dauði, æska og elli mynda hrífandi andstæður og í lokin er vel heppnuð vísun í aðra kvikmynd; Himinn yfir Berlín eftir Wim Wenders, en í henni ganga englar um Berlín og hugga þá jarðnesku sem þjást. Bruno Ganz, sem leikur engil í þeirri mynd, birtist hjá Þorgeiri þegar hann er búinn að jarða vinkonu sína og snertir hann.“
Mikilvægasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór, en hlutur hans í íslenskri kvikmyndasögu verður ekki ofmetinn.
Næstbesta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er frumraun Dags Kára Pétursson, Nói albínói frá árinu 2003. Myndin fjallar um hinn 17 ára gamla Nóa, leikinn af Tómasi Lemarquis, sem býr í afskekktu og snjóþungu sjávarþorpi á Vestfjörðum. Hann þráir að komast burt og leggur á ráðin um flótta frá heimabænum en áætlanirnar renna þó klaufalega úr greipum hans.
Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og menningarblaðamaður, nefnir myndina sem eina þá allra bestu sem gerð hefur verið á Íslandi: „Maður var alinn upp við íslenskar sveitamyndir með vondu hljóði – sveitin týndist aðeins á tíunda áratugnum en í upphafi nýrrar aldar kom Nói, þetta var smábæjarlífið eins og maður kannaðist við það, ekki einhver horfinn heimur.“
„Hinn ógleymanlegi listræni heimur Nóasögunnar fjallar um lífið og dauðann, hversdagsleika og annarleika, innri og ytri veruleika,“ segir Heiða Jóhannsdóttir, aðjúnkt í kvikmyndafræði, um myndin. „Nói albínói nýtir af listfengi alla þætti kvikmyndalistar;kvikmyndatöku, sagnasmíð, myndmál, tónlist, umhverfingu og leiklist. Tónlist Slowblow umvefur jafnframt heiminn eins og gullþráður.“
Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, segir myndina hreinlega vera meistaraverk:
„Það er eins og ég gleymi alltaf aftur og aftur hvað þessi mynd er alveg fáránlega frábær, og svo þegar ég sé hana aftur þá er ég alveg gapandi af hrifningu, í hvert sinn. Ég hef séð hana örugglega tíu sinnum. Sagan, myndræna frásögnin, sviðsmyndin, litavinnslan og leikframmistaða Tómasar Lemarquis er alveg í heimsklassa. Tónlist Slowblow er síðan algjörlega ómissandi hluti af verkinu. Síðan tekst þessari mynd að slá á velflestar nóturnar á tilfinningaskalanum, fyndin og hrikalega sorgleg í senn. Ég man þegar ég sá hana nýja á sínum tíma, þá hugsaði ég „Vá, þetta er líklega besta íslenska mynd sem gerð hefur verið.“ Svo hélt ég að það myndi nú breytast fljótlega, en það gerði það bara ekki. Þessi mynd kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og setti nýtt viðmið fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Algjört meistaraverk.“
Þessi mynd kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og setti nýtt viðmið fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Algjört meistaraverk.
Munurinn á efstu þremur myndunum gæti ekki verið naumari en besta íslenska bíómyndin að mati álitsgjafa DV er 101 Reykjavík, leikstjórnarfrumraun Baltasars Kormáks frá árinu 2000.
Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar frá 1996 og fjallar um Hlyn sem er leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni, miðbæjarrottu og eilífðarunglingi á fertugsaldri sem enn býr í móðurhúsum. Einfalt heimilislíf mæðginanna flækist hins vegar þegar hann verður ástfanginn af kærustu móður sinnar, tvíkynhneigðum spænskum flamingókennara sem er leikin er af Victoriu Abril.
„Þetta er sú mynd sem breytti viðhorfi mínu til íslenskra kvikmynda sem unglingur. Allt í einu kom „contemporary“ saga sem höfðaði til ungs fólks, var í senn skemmtileg og virkilega vel unnin kvikmynd,“ segir Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður um myndina og Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og menningarblaðamaður, tekur í svipaðan streng: „Loksins kom borgarlíf sem maður kannaðist við í bíó – þarna náðu íslenskar bíómyndir loksins í skottið á samtímanum.“
Heiða Jóhannsdóttir, aðjúnkt í kvikmyndafræði, nefnir myndina sem eina þá allra bestu sem gerð hefur verið á Íslandi: „Fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem myndaði órofa heild með frábærum söguefnivið og kraftmiklum myndrænum stíl. Handritið er frábært, leikstjórn og klipping fáguð og fumlaus. Tónlistin undirstrikar ögrandi og skoplega undirtóna myndarinnar og Reykjavík myndar ógleymanlega sviðsmynd. Leikstíllinn er afslappaður en með slagkraft, og leikararnir hrista allir af sér þjóðleikhússtílinn í samleiknum við Victoriu Abril.“ Björn Þór Vilhjálmsson, kollegi hennar við kvikmyndafræðideild Háskólans, er sama sinnis: „Baltasar stígur fram sem kvikmyndaleikstjóri með fumlausum, öguðum og útsjónarsömum hætti.“
Tómas, kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, segist telja þessa fyrstu mynd Baltasars í leikstjórastólnum enn vera hans bestu: „Hún hefur alvarlega undirtóna en er umfram allt meinfyndin, prakkaraleg og hnyttin. Hér segir frá einhverjum furðulegasta ástarþríhyrningi sem finna má í hvaða kvikmyndasögu sem er, ekki bara íslenskri. Hilmir Snær er ógleymanlegur í hlutverki stefnulausrar og svartsýnnar miðbæjarrottu sem á í ástarsambandi við kærustu móður sinnar. Samleikur Hilmis við Victoriu Abril er nokkuð einstakur og er haug af kostulegum senum hér að finna. Frumleg, manneskjuleg og skemmtileg kómedía.“
Þetta er sú mynd sem breytti viðhorfi mínu til íslenskra kvikmynda.
Anna María Karlsdóttir kvikmyndaframleiðandi, Arnar Elísson kvikmyndafræðingur, Ásgeir Ingólfsson menningarblaðamaður, Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður, Björn Þór Vilhjálmsson lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Elsa G. Björnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Heiða Jóhannsdóttir aðjúnkt í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Hugleikur Dagsson teiknimyndasögu- og sjónvarpsþáttagerðarmaður, Hrönn Marinósdóttir stjórnandi Reykjavík International Film Festival, Kristinn Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Maríanna Friðjónsdóttir fjölmiðlari, Nína Richter sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, Oddný Sen kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís, Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, Valur Gunnarsson rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, Þóra Hilmarsdóttir kvikmyndagerðarkona, Þórir Snær Sigurðarson umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta Tjaldið á ÍNN.