Það tekur á að horfa á Horfin
Það er óhætt að segja að það taki nokkuð á að horfa á spennuþáttinn Horfin. Ung stúlka hverfur en snýr aftur mörgum árum síðar en getur ekki aðlagast og er fjarlæg foreldrum sínum sem eru ráðþrota. Framvindan hefur verið á þann veg að vanlíðan persóna vex með hverjum þætti. Það er ekki þægilegt að horfa á fólk þjást eins og þarna og manni líður ekki alltaf vel.
Í þessum þáttum tekst stöðugt að koma manni á óvart. Þegar maður hugsar sem svo að nú geti ekki margt meira gerst þá gerist einmitt eitthvað sem verður til þess að manni bregður verulega. Þannig voru lok síðasta þáttar á þann veg að ómögulegt er annað en að bíða spenntur eftir framhaldinu. Farið er ört á milli tímaskeiða í þáttunum sem gerir að verkum að áhorfið er krefjandi og maður þarf stöðugt að raða saman bútum, svona eins og í púsluspili. Heildarmyndin, sem í byrjun var afar óljós, er þó smám saman að verða skýrari.
Þættirnir eru gríðarlega vel leiknir. Unga leikkonan í hlutverki stúlkunnar sem hvarf en sneri aftur sýnir gríðarlega sannfærandi leik. Persóna hennar er eins og frá öðrum heimi, ósnertanleg og fjarlæg. Tcheky Karyo er líka frábær í hlutverki lögreglumannsins sem ætlar sér að leysa ráðgátuna til fulls.
Bestu framhaldsþættir sem sýndir eru á RÚV þessa stundina.