fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Gerir sjónvarpsþætti um Drakúla

Sigurjón Sighvatsson framleiðir þætti byggða á frjálslegri íslenskri þýðingu frá árinu 1901

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 18. febrúar 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi vinnur nú að sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á bókinni Makt myrkranna, frjálslegri íslenskri þýðingu frá 1901 á hinni klassísku gotnesku vampíruskáldsögu Drakúla eftir Írann Bram Stoker. Bókin kom út í enskri þýðingu fyrr í mánuðinum, nefnist þar Powers of Darkness og er eignuð bæði Stoker og íslenska þýðandanum, Valdimar Ásmundssyni (1852–1902). Ottó Geir Borg mun skrifa handritið að þáttunum sem verða á ensku, en Ottó hefur meðal annars komið að skrifum á kvikmyndunum Astrópíu, Brimi og Gauragangi.

Sigurjón var á kvikmyndahátíðinni í Berlín þegar blaðamaður náði tali af honum.

„Kunningi minn, Nick Wechsel sem verður meðframleiðandi minn í þessu verkefni, er með góð sambönd inn í bókmenntaheiminn. Hann hringdi í mig ekki alls fyrir löngu, spurði hvort ég kannaðist við þessa bók sem væri verið að þýða á ensku og vildi athuga hvort við ættum ekki að kanna þetta frekar. Ég verð nú að viðurkenna að ég þekkti bókina ekki svo ég spjallaði við félaga mína heima sem ég hélt að gætu vitað eitthvað um hana, Pál Baldvin og Ottó Geir, og jú það gerðu þeir. Ég varð mér úti um bókina í snatri og las hana,“ segir Sigurjón.

„Þetta er náttúrlega mjög stílfærð þýðing svo ekki meira sé sagt. Okkur fannst sérstaklega áhugavert að í þýðingunni er Drakúla ekki bara blóðþyrst vampíra, heldur hefur hann annan og meiri metnað, hann stefnir eiginlega á heimsyfirráð, vill stofna ríki blóðsins og verða einvaldur. Þetta fannst okkur gera Drakúla að enn áhugaverðari persónu. Í ljósi þess sem er að gerast í heiminum í dag fannst okkur það geta verið spennandi að færa þetta í nútímann. Okkur fannst þetta geta orðið ágætis allegoría fyrir það sem er að gerast í dag.“

Lestu meira um Makt myrkranna.

Greifinn er þekktur sem blóðþyrst vampíra úr hinum ýmsu aðlögunum á sögu Bram Stoker en Sigurjón Sighvatsson segir að í Makt myrkranna stefni hann í þokkabót á heimsyfirráð.
Drakúla Greifinn er þekktur sem blóðþyrst vampíra úr hinum ýmsu aðlögunum á sögu Bram Stoker en Sigurjón Sighvatsson segir að í Makt myrkranna stefni hann í þokkabót á heimsyfirráð.

Þýðandinn sjálfur, Hans Corneel da Roos, hefur sagt að bókin sé erótískari, æsilegri og jafnvel fágaðri en upphaflega skáldsagan en furðusögusérfræðingur útvarpsþáttarins Arts and Ideas á BBC 3 sagði hins vegar að bókin væri aðeins áhugaverð fyrir Drakúla-nörda, og ljóst væri að höfundurinn væri algjörlega óhæfur. Ég geri ráð fyrir að þú sért ekki sammála gagnrýnanda BBC?

„Ég hef reyndar ekki lesið ensku þýðinguna sem hann hefur lesið, hún var bara að koma út. Hvað veit maður hvað þýðandinn hefur gert við hana. En það má þó segja að alltaf þegar maður vinnur úr eldri sögu, hvort sem það er í kvikmyndum eða sjónvarpi, þarf maður að búa sér til sinn eigin stíl og eigin farveg, því myndmál er allt annað en ritmál. Okkur fannst að minnsta kosti að þarna væri svolítið fersk sýn – þótt hún sé að verða 120 ára – á þessa persónu og þessa sögu sem er svo oft búið að segja. Svo vonandi getum við stílfært þetta þannig að hún verði spennandi.“

Makt myrkranna birtist fyrst einn kafli í senn í tímaritinu Fjallkonan, þannig að vissu leyti er hún upphaflega í þessu þáttaformi sem þið eru að færa hana aftur í.

„Það er rétt. Charles Dickens gerði þetta líka á sínum tíma. Maður hefur einmitt stundum heyrt að aðlögun á slíkum verkum heppnist betur, þar sé meiri sveigjanleiki.“

Hvar eruð þið stödd í ferlinu – er eitthvað hægt að segja um hvenær tökur hefjast?

„Nei, þetta er alltaf svo langt ferli. Þótt handritið sé komið þá er margt eftir. Það þarf að finna réttu leikarana, leikstjórann og svo framvegis. Þannig að ég þori ekki að spá neinu um það.“

Í upphafi tíunda áratugarins kom Sigurjón að nokkrum þekktum sjónvarpsþáttaröðum á borð við Twin Peaks og Beverly Hills 90210 en hefur að mestu verið í kvikmyndunum síðan. Hann segist nú vera aftur með nokkra þætti í pípunum enda séu möguleikar sjónvarpsmiðilsins orðnir allt aðrir og meiri.

„Þegar ég var að vinna í sjónvarpinu var það ekkert rosalega skemmtilegur miðill. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór úr sjónvarpinu á sínum tíma var hvað miðillinn var þröngur og takmarkandi. Það hefur algjörlega breyst í dag og þar með hefur opnast fullt af möguleikum. Það sem hefur ekki síst breyst eru áhorfsvenjurnar, fólk horfir jafnvel á sjö eða tíu þætti í röð, frekar en bara 50 mínútur einu sinni í viku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“