Önnur þáttaröð af bresku spennuþáttunum Horfin lofar góðu. Hún er ekki alveg eins mögnuð og sú fyrsta sem var beinlínis átakanleg, en þar leituðu örvæntingarfullir foreldrar sonar síns sem hvarf þegar fjölskyldan var í fríi. Aðalleikararnir túlkuðu örvæntingu foreldranna svo vel að það tók á mann að horfa á þættina og eftir því sem leið á þættina leið manni æ verr. James Nesbitt var sérlega minnisstæður í hlutverki hins sárþjáða föður. Tchéky Karyo sýndi, eins og allir aðrir leikarar þáttanna, mjög góðan leik en hann var í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Julien Baptiste.
Í nýju þáttaröðinni finnst ung kona, Alice, eftir að hafa verið horfin í ellefu ár. Málið er hið dularfyllsta og ýmislegt bendir jafnvel til þess að konan sé ekki sú sem hún segist vera. Hún virðist einnig búa yfir upplýsingum um aðra stúlku sem hvarf, en af einhverjum ástæðum forðast hún að opinbera þær. Julien Baptiste er mættur til leiks á ný og rannsakar málið.
Atburðarásin er hæfilega dularfull og ýmislegt óljóst. Þarna er undirliggjandi spenna og óhugnaður sem heldur áhorfandanum við efnið. Þættirnir eru mjög vel leiknir og það er skemmtilegur aukabónus að sjá Ólaf Darra Ólafsson í aukahlutverki.
Ekki er búið að sýna marga þætti en ekkert bendir til annars en að hér sé á ferð einn af þessum gæðaþáttum sem Bretar kunna öðrum fremur að búa til. Eini gallinn er sá að ekkert bendir til að vel fari fyrir persónum. Maður heldur þó í vonina.