Nýnasistahreyfingin Alt-right reynir að gera froskinn Pepe að merki sínu – Nafnlaus nettröll og auðtrúa fjölmiðlar hafa tekið þátt í að skapa tenginguna
Daginn sem Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna mætti Richard Spencer, heitur stuðningsmaður forsetans og einn helsti talsmaður hinnar nýnasísku hreyfingar Alt-right í sjónvarpsviðtali á götum Washingtonborgar.
Augnabliki áður en Spencer var kýldur í andlitið af svartklæddum mótmælanda var hann spurður út í barmmerki af grænum teiknimyndafroski sem hann bar í jakka sínum: „Þetta er Pepe. Hann er eiginlega orðinn að tákni fyrir…“ náði Spencer að segja áður en höggið reið af.
Ef hann hefði klárað setninguna hefði hann getað sagt „Við erum að reyna að gera Pepe að tákni fyrir nýja hreyfingu nasista sem er að gera sig gildandi í Bandaríkjunum í dag“ (þótt hann hefði eflaust orðað þetta aðeins öðruvísi).
En hver er þessi grallaralega teiknimyndapersóna á jakka nýnasistans, af hverju hefur hún orðið að tákni fyrir svo hatursfulla hreyfingu, og er enn hægt að bjarga orðspori frosksins Pepe?
Froskurinn Pepe kemur upphaflega úr myndasögum sem Bandaríkjamaðurinn Matt Furie gerði í teikniforritinu Paint og birti á Myspace-síðu sinni á fyrstu árum nýs árþúsunds. Myndasögurnar Boy‘s Club sem fjalla um fjögur tölvuleikjaspilandi, grasreykjandi og áhyggjulaus táningaskrímsli fóru að vekja athygli í kringum 2005. Ein elsta myndasagan sýnir svarthvítan froskmann girða buxurnar sínar alveg niður á hæla þegar hann pissar standandi. Þegar vinur hans bendir á hversu undarlegt þetta sé svarar froskurinn slæpingslega „Feels good man.“ Þetta var kjarninn í lífsafstöðu frosksins á þeim tíma: „Ég fíla þetta bara!“
Froskurinn fór að dreifast um netið í fjölbreyttum myndskrítlum og varð fljótlega að vinsælu „internet-memi“. Orðið mem (e. meme) er notað yfir ýmiss konar tákn sem öðlast vinsældir meðal netnotenda og þeir endurskapa og dreifa á milli sín í óteljandi myndum. Memunum er kastað inn í allar mögulegar samræður, aðstæður og samhengi – en þau mem sem verða hvað vinsælustu eru einmitt þau sem eru einföld og auðþekkjanleg en geta á sama tíma tjáð mjög vítt svið tilfinninga, jafnt jákvæðar sem neikvæðar. Andlit frosksins reyndist vera slíkt tákn, frjór efniviður í hin ólíklegustu viðbrögð og brandara.
Hinn staðlaði Pepe varð fljótlega grænn og fékk brúnar varir. Hann birtist í mismunandi skapi eftir því hvað hentaði tilefninu. Hann var oft vonsvikinn og leiður, en líka reiður, eða prakkaralegur og sjálfumglaður. Hann var auðþekkjanlegur, auðbreytanlegur, gat sett sig í gervi þekktra persóna úr poppmenningunni og gat gengið upp í öllum mögulegum aðstæðum. Myndgrínið breiddist um vefinn á samskiptamiðlum og sérstaklega nafnlausum grín- og spjallborðum á borð við 4chan – en á slíkum síðum hafði einmitt mótast ákveðin hefð fyrir sótsvörtum húmor og tröllamenningu.
Að trolla (eða trölla ef við reynum að íslenska orðið) felst í því að grínast á netinu til að afvegaleiða, skemma umræðu og reita fólk til reiði, oftast með því að fara með kaldhæðnislega brandara langt út fyrir öll siðferðismörk. Trúgjarnir, viðkvæmir og pólitískt rétthugsandi netnotendur og fjölmiðlar eru þar sérstaklega góð skotmörk. Tröllagrínistar nýttu sér þannig hinn grallaralega Pepe æ oftar í siðferðilega vafasömum aðstæðum. Hann gerði grín að hverju því sem þótti skinheilagt, viðkvæmt eða ósiðsamlegt: barnamisnotkun, skólaskotárásum, hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana, nasisma og útrýmingarbúðum. Alltaf var viðkvæðið það sama: „Ég fíla þetta bara!“
Árið 2014 fór froskurinn að verða áberandi í meginstraumnum. Þá komu fram sérstakar Tumblr- og Instagram-síður fyrir froskinn og undirsíða á Reddit með efni tengdu Pepe. Fólk var líka farið að skiptast á „sjaldgæfum“ myndum á froskinum, myndum sem voru bara sagðar til í einu stafrænu eintaki og því kallaðir fágætir Pepe. Froskurinn var eitt mest deilda mem ársins 2015 og var valinn eitt það mikilvægasta á vefsíðunni Daily News and Analysis. Það ár jukust vinsældirnar til muna, meðal annars eftir að poppstjörnurnar Katie Perry og Nicki Minaj deildu sínum útgáfum af froskinum á samfélagsmiðlum.
Það var svo í október 2015, nokkru mánuðum eftir að Donald Trump tilkynnti framboð sitt sem forsetaefni Repúblikanaflokksins, sem hann deildi mynd af froskinum á Twitter þar sem hann stóð jakkafataklæddur og með einkennandi hárgreiðslu Trumps við ræðupúlt merkt forseta Bandaríkjanna.
Í grein í vefmiðlinum The Daily Beast í maí 2016 var því haldið fram að Alt-right, nýleg hreyfing hvítra þjóðernissinna sem rekur uppruna sinn til þeirra sömu nafnlausu spjallborða og Pepe hlaut fyrst frægð á, væri að vinna í því að endurheimta froskinn frá meginstraumnum og gera hann að tákni fyrir hópinn.
Blaðakonan hafði þetta eftir tveimur nafnlausum netnotendum sem hún taldi vera meðlimi hreyfingarinnar. Síðar hefur því verið haldið fram að þetta hafi ekki verið raunverulegir nasistar, heldur trollandi net-grínistar sem fannst fyndið að festa froskinn í sessi sem andlit hreyfingarinnar. Eins og svo oft í upplýsingafargani internetsins er erfitt að gera sér grein fyrir hvort þetta sé sannleikanum samkvæmt, hvort hér hafi verið um kaldhæðni eða alvöru að ræða.
Hvað sem uppruna herferðarinnar líður má svo sannarlega segja að blaðagreinin hafi orðið að sjálfsuppfyllandi spádómi – það, sem greinin sagði að væri þá þegar staðreynd, varð í það minnsta að veruleika í kjölfar birtingar hennar og kannski einmitt vegna hennar. Það er að minnsta kosti ljóst að nýnasistarnir sem kenna sig við Alt-right, hitt hægrið, og ýmsir aðrir stuðningsmenn Trumps tóku erindinu fagnandi. Hvað er betra fyrir hatursfulla hreyfingu en að hafa góðlátlegt og kumpánlegt lukkudýr?
En það er meira sem gerir Pepe hentugan en kumpánleikinn. Hann er auðþekkjanlegt tákn en alls ekki skýrt eða einhlítt. Það er einmitt í krafti þess að froskurinn er margræður sem hægt er að nota hann til að orða skoðanir sem annars má ekki setja fram í almenningsrýminu, tala um alþjóðasamsæri gyðinga, velta upp réttmæti þjóðarmorða og svo framvegis. Hér er aldrei ljóst hvort um raunverulegar skoðanir sé að ræða eða troll. Pepe og ýmis önnur internet-fyrirbæri hafa þannig gert nýnasistum kleift að koma orðræðu sinni á framfæri án þess að þurfa að svara beinlínis fyrir hana og þannig víkka út ramma þess sem þykir í lagi að segja.
Þó hitt hægrið jafnt sem stuðningsmenn í innsta hring Donalds Trump hafi meðvitað notað froskinn sér í hag – klippt hann inn á myndir með forsetaframbjóðandanum og hrópað nafnið undir ræðum Hillary Clinton – voru það þó fyrst og fremst andstæðingar Trumps sem festu hugrenningatengsl frosksins og kynþáttahyggjunnar endanlega í sessi.
Á stuðningssíðu Hillary Clinton var fjallað um froskinn af skilningsleysi og því haldið fram að hann væri merki hins hægrisins og Anti-Defamation League, samtök sem berjast gegn gyðingahatri, skilgreindu froskinn sem haturstákn. Í kjölfarið fóru fjölmiðlar vestanhafs að fjalla ítarlega um þennan „nasistafrosk“ sem skaut kollinum svo ítrekað upp í kosningabaráttunni. Áhuginn á froskinum og vinsældir hans jukust til muna.
Matt Furie, sá sem teiknaði Pepe upphaflega, hefur ítrekað látið í ljós óánægju sína og fordæmt yfirtöku nýnasista á froskinum en sagði lengi vel að hann hefði enga stjórn á málinu – ekki frekar en nokkur annar gæti haft stjórn á öllum þeim froskum sem birtust á internetinu.
Um mánuði fyrir forsetakosningarnar sendi Fantagraphics, útgefandi myndasagnanna um Pepe og félaga, frá sér yfirlýsingu þar sem það var harmað að froskurinn hefði verið tekinn í gíslingu af hægri öfgamönnum: „Fantagraphics vill árétta að hinn eini sanni Pepe, skapaður af manneskjunni og listamanninum Matt Furie, er friðsamlegt teiknimyndafroskdýr sem stendur fyrir ást, viðurkenningu, og stuð (og það að reykja sig skakkan). Bæði skaparinn og sköpunarverkið neita þeirri tómhyggju sem drífur áfram forsvarsmenn hins hægrisins sem hafa eignað sér froskinn, og við öll hjá útgáfunni hvetjum ykkur til að hjálpa okkur að hrifsa Pepe til baka og gera hann að tákni jákvæðni og samheldni.“
Teiknarinn setti, ásamt samtökum sem berjast gegn kynþáttahatri, í gang herferð með það að markmiði að bjarga froskinum frá nýnasistunum undir myllumerkinu #SavePepe – björgum Pepe. Furie skrifaði skoðanagrein í Time Magazine þar sem hann fordæmdi enn frekar notkunina á persónunni: „Hið sanna eðli Pepe, eins og hann birtist í teiknimyndasögunni minni Boy‘s Club, er að hampa friði, samheldni og stuði. Ég stefni á að endurheimta grallarafroskinn frá hatursfullum öflum og bið ykkur um að hjálpa mér með því að gera milljón ný glaðleg Pepe-mem sem miðla léttúðlegum anda hins upphaflega afslappaða meistara.“
Það sem græni froskurinn Pepe á sameiginlegt með hakakrossinum – þekktasta tákni haturs í vestrænni menningu – er að hreyfingar kynþáttahatara tóku í báðum tilvikum útbreidd og vinsæl tákn og reyndu að eigna sér þau.
Nasistar fundu ekki upp hakakrossinn. Elsta svastikan sem hefur fundist er um 11 þúsund ára gömul og kemur táknið fyrir í myndmáli nánast allra menningarsamfélaga heims. Í Austur- og Norður-Evrópu, Austurlöndum fjær, Suður-Ameríku og víðar.
Táknið var áberandi á fornmunum sem voru grafnir upp í grísku borginni Tróju á síðustu áratugum 19. aldar og vöktu mikla athygli í Evrópu. Áhuginn á hakakrossinum jókst í kjölfarið á Vesturlöndum og varð hann að gríðarlega vinsælu og útbreiddu tákni um velgengni og gæfu. Mörg ólík félög og fyrirtæki notuðu hakakrossinn á fyrri hluta 20. aldarinnar til að merkja sig og auglýsa, allt frá finnska flughernum til skátahreyfinga, frá Eimskipum til Carlsberg og Coca-Cola.
Adolf Hitler var því alls ekki að finna upp hjólið þegar hann gerði hakakrossinn að tákni nasistahreyfingarinnar í Þýskalandi og þróaði sérstaklega kraftmikla útgáfu merkisins um miðjan þriðja áratuginn. Meginmarkmið Hitlers var að skapa auðþekkjanlegt merki með góð hugrenningatengsl sem hreyfing hans gæti sameinast undir, á sama hátt og hann hafði séð kommúnista sameinast undir sínum rauða fána, hamri og sigð. „Virkilega kraftmikið merki getur orðið til þess að vekja áhuga fólks á hreyfingu,“ skrifaði Hitler meðal annars í stefnuyfirlýsingu sinni Baráttan mín (þ. Mein Kampf).
Í huga þýskra þjóðernissinna hafði hakakrossinn einnig hugmyndafræðilegar skírskotanir en þeir álitu táknið hafa haft mikla trúarlega merkingu fyrir forfeður þjóðarinnar, en þeir töldu sig afkomendur „aría,“ höfðingaþjóðflokks sem sagður er hafa komið frá Íran og Indlandi og til Evrópu fyrir árþúsundum.
Þó að hakakrossinn sé enn notaður víða í heiminum sem heillatákn, til dæmis hjá frumbyggjum Norður-Ameríku og í ýmsum asískum trúarbrögðum, svo sem hindúisma, búddisma og jainisma, eiga Vesturlandabúar erfitt með að aftengja hakakrossinn við hugmyndir um þjóðarmorð, helför og nasisma. Þannig hefur notkun táknsins verið bönnuð í Þýskalandi frá stríðslokum og tilraunir hafa verið gerðar til að banna það í Evrópusambandinu.
Þó eru einnig margir sem hafa viljað bjarga tákninu frá hinum ógnvænlegu hugrenningartengslum. Meðal annars stóðu tattúlistamenn víða um heim fyrir herferðinni „Save the swastika“ árið 2013 og var markmiðið að breyta hugmyndum fólks um hakakrossinn.